Frábærir valkostir í varaformannssætið

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í lok mánaðarins, þar sem kjörinn verður varaformaður fyrir flokkinn, en ekkert bendir til að nokkur bjóði sig fram gegn formanni flokksins, enda auðvitað engin ástæða til.

Ólöf Nordal, sá öflugi þingmaður, hefur þegar tilkynnt að hún gefi kost á sér í embætti varaformanns og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi borgarstjóri, er alvarlega að íhuga framboð einnig.  Ólöf hefur verið afar duglegur, kraftmikill og málefnalegur þingmaður og Hanna Birna hefur staðið sig með einstakri prýði, sem borgarstjóri í Reykjavík og sýnt og sannað að hún er öflugur foringi.

Sá flokkur, sem hefur úr slíkum frambjóðendum að velja til forystustarfa á bjarta framtíð fyrir sér sem öflugt stjórnmálaafl í fremstu víglínu í baráttunni fyrir íslenskum hagsmunamálum og velferð þjóðarinnar á komandi tímum.

Aðrir stjórnmálaflokkar líta öfundaraugum til Sjálfstæðisflokksins vegna þess mannvals sem hann hefur á að skipa, innan þings og utan.


mbl.is Íhugar varaformannsframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna laug blákalt um launaloforðið til Más

Undanfarnar vikur haf verið miklar umræður um það, hvort Jóhanna Sigurðardóttir hafi lofað Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, miklu hærri launum en lögin hennar Jöhönnu segðu fyrir um, en samkvæmt þeim má enginn hafa hærri laun en lélegasti forsætisráðherra sögunnar, þ.e. Jóhanna sjálf.

Jóhanna hefur þrætt eindregið fyrir að hafa lofað Má þessum launakjörum og sama hafa allir aðrir gert, en Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans, hefur fórnað sínu eigin mannorði með því að þegja yfir því hver lofaði hverju, í tengslum við launakjör nýja seðlabankastjórans.

Nú hefur Mogginn komist yfir tölvupósta sem gengu á milli Jóhönnu sjálfrar og Más vegna ráðningar hans í bankann og þar kemur fram, að samskiptin voru ekki eingöngu rafræn, heldur einnig símleiðis þeirra í milli.  Þar tjáði Már henni að hann myndi ekki taka starfinu, nema Jóhanna ábyrgðist honum þau launakjör sem giltu, þegar starfið var auglýst.  Þó það komi ekki skýrt fram í fréttinni, hefur Jóhanna gefið ákveðið loforð þar um, fyrst Már hætti við að draga umsókn sína til baka.

Það sem er alvarlegt við þetta mál er, að forsætisráðherra þjóðarinnar skuli blygðunarlaust ljúga, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi, án þess að blikna eða blána, um þau málefni sem á hennar könnu eru.

Þó er jákvætt að þjóðin hefur nú fengið endanlega staðfestingu á óheiðarleika Jóhönnu Sigurðardóttur.


mbl.is Már og Jóhanna ræddu launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hlýtur að stöðva málið strax

Ríkisstjórnin hefur barist af öllu sínu afli gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu, framlengingu kreppunnar og auknu atvinnuleysi.

Sérstaklega hefur henni verið uppsigað við allar mannaflsfrekar framkvæmdir og því meir, ef hætta hefur verið á að erlendir aðilar hafi verið tilbúnir til að fjárfesta hérlendis, með tilkomu innstreymis gjaldeyris, sem er það sem þjóðarbúið skortir einna mest um þessar mundir.

Rio Tinto er nú tilbúið til að auka afköst álversins í Straumsvík, með fjárfestingu upp á 250 milljónir dollara, að sjálfsögðu með ákveðnu rekstraröryggi til framtíðar í huga og setur því þau skilyrði, að Búðarhálsvirkjun verði kláruð og að orkuskattar verði ekki hækkaðir úr hófi, en þeir nema nú um einni milljón króna á dag hjá fyrirtækinu.

Ólafur Teitur, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, segir í viðtali mið Mbl, að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi litið svo á að samkomulag væri í gildi um það hvernig skattamálum yrði háttað á næstu árum, í rekstrarumhverfi álversins.

Það er meira en einkennilegt að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi látið sér detta í hug að ríkisstjórn Samfylkingar og VG myndi standa við gerða samninga.

Það hefur hún aldrei gert og fer varla að byrja á því núna.


mbl.is Rio Tinto vill straumhækkunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór gerir EKKI hreint fyrir sínum dyrum

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, hefur gert marga góða hluti á sínum stjórnmálaferli og stóð sig afar vel sem heilbrigðisráðherra á meðan hann gegndi þeirri stöðu.  Hann hefur verið duglegur og málefnalegur þingmaður og hafa verið bundnar miklar vonir við hann sem hluta af framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur háði mikla kosningabaráttu í prófkjöri árið 2006 og tjaldaði þar öllu til og þáði 24,8 milljónir í styrki frá ýmsum aðilum til að kosta þá baráttu og var það allt í samræmi við venjur og reglur þess tíma og væri ekkert út á það að setja, ef allt væri uppi á borðum varðandi þessi fjárframlög og ekki væri verið að pukra með styrktaraðilana.

Á þessari síðu hefur verið haldið uppi vörnum fyrir þá frambjóðendur sem þessa styrki þáðu, hvar í flokki sem þeir standa, enda engar reglur eða lög brotin svo vitað sé, í tengslum við þessi styrkjamál.  Sá, sem hér skrifar hefur alltaf verið mikill stuðningsmaður Guðlaugs Þórs og talið hann í hópi bestu þingmanna þjóðarinnar og stutt hann bæði í prófkjörum og á öðrum vettvangi.

Nú, að öllum þessum tíma liðnum og eftir háværar kröfur úr öllum áttum, hefur Guðlaugur Þór loksins birt lista yfir þá, sem styrktu prófkjörsbaráttu hans árið 2006 og eins og hjá öðrum voru það bankarnir og helstu útrásargarkarnir sem framlögin veittu, enda fjársterkustu aðilar þjóðfélagsins á þeim tíma, en eftir sem áður getur Guðlaugur ekki, eða vill ekki, upplýsa um greiðendur tæplega 40% allra styrkjanna, þ.e. leynd hvílir yfir hverjir greiddu 9 milljónir af 24,8 milljónum samtals.

Þetta er algerlega óviðunandi af hálfu Guðlaugs Þórs og ýtir undir þær grunsemdir að hann hafi eitthvað að fela og að ekki þoli allt í sambandi við prófkjörsbaráttu hans að koma fram í dagsljósið og þá fer gamanið að kárna og styrkirnir fá á sig allt aðra mynd en áður.

Styrkirnir á þessum tíma voru samkvæmt öllum lögum og reglum, en lágmarkskrafa er, að í sambandi við þá sé allt opið og  gegnsætt, grein gerð fyrir hverri krónu og hverjir fjármögnuðu.  Allt annað er algerlega óviðunandi.

Geri Guðlaugur Þór ekki betri og skýrari grein fyrir prófkjörsbaráttu sinni og hverjir styrktu hana, þá á hann engan annan kost en að yfirgefa völlinn og segja af sér þingmennsku og lýsi því yfir eigi síðar en á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok júnímánaðar.


mbl.is Guðlaugur fékk hæstu styrkina frá Baugi, Fons og FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skráning Haga á markað algerlega misheppnuð

Höskuldur H. Ólafsson, nýr bankastjóri Arion banda, hefur ákveðið að fresta skráningu Haga hf. á hlutabréfamarkað fram á haust, án þess að dagsetningar séu nefndar í því sambandi.  Fyrirrennari Höskuldar í stöðu bankastjóra Arion banka var kominn langleiðina með að eyðileggja orðspor bankans algerlega með ýmissi þjónkun við fallna útrásarmógúla og verður það ærið verkefni fyrir hinn nýja bankastjóra, að reyna að vinna bankanum eitthvert traust á næstu mánuðum.

Finnur, fyrrum bankastjóri, lýsti því yfir að margir fyrrum útrásargarkar væru þeir einu sem bankinn treysti til góðra verka og því væri réttlætanlegt að afskrifa jafnvel hundruð milljarða af skuldum þeirra og afhenda þeim síðan fyrirtækin aftur á silfurfati, enda nytu þessir aðilar "fyllsta trausts" í bankanum.  Dæmi um þetta er að Ólafur Ólafsson fékk Samskip aftur í hendurnar, eftir "endurskipulagningu skulda" og Jóhannesi í Bónus og fjölskyldu var lofað forgangi að 15% hlutafjár í Högum, þegar fyrirtækið yrði sett á markað, enda væru þar á ferð "snjöllustu rekstrarmenn landsins".

Nú liggja allir þessir aðilar undir rannsókn Sérstaks saksóknara og skattyfirvalda og búið að frysta eignir sumra þeirra, jafnvel um allan heim, og því varla nema von að Arion banki fresti því að setja Haga á hlutabréfamarkaðinn, enda vandséð hver myndi vilja kaupa í fyrirtækinu með þá "kjölfestufjárfesta" sem bankinn ætlaði  að bjóða uppá í "kaupbæti".

Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið situr Jón Ásgeir í Bónus ennþá í stjórn tveggja fyrirtækja í Bretlandi, sem fulltrúi skilastjórna bankanna, og þiggur há laun fyrir "sérfræðiþekkingu" sína.

Bankarnir öðlast ekki tiltrú almennings á meðan að svona er í pottinn búið þar á bæ.


mbl.is Skráningu Haga frestað til hausts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband