Merkilegar yfirhylmingar með glæpnum

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, bendir á þá augljósu staðreynd, að alls ekki er hægt að setja nein ný lög um gengislánin, enda ekki hægt að setja afturvirk lög og því getur enginn skorið úr því, hvort hægt sé að setja verðtryggingu á þessi lán, eða breyta vaxtakjörum, nema dómstólar landsins, enda afar líklegt að á slíkt verði látið reyna.

Athyglisverð eru hins vegar upphafsorð fréttarinnar, sem er svona:  "„Þetta er alveg klárt, dómurinn stendur eins og hann er, gengistryggingin er ólögleg, er búin að vera það í níu ár síðan lögin voru sett 2001, og vextirnir standa eftir,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og lögfræðingur, um dóm Hæstaréttar um gengistryggingu lána."

Valgerður Sverrisdóttir, sem var Viðskiptaráðherra þegar lögin voru sett, sagði í fjölmiðlum fyrir helgi að hún og ráðuneytið hefðu alltaf litið svo á, að gengistryggingin væri ólögleg, en hvorki henni né ráðuneytinu datt í hug að uppljóstra um þá vitneskju sína fyrr en núna og einnig kemur hver lögfræðingurinn fram á fætur öðrum og segir að þetta hafi alltaf verið algerlega augljóst og lögin algerlega skýr í þessu efni.

Á Alþingi sitja og hafa setið, fjölmargir lögfræðingar úr öllum flokkum, en ekki hefur þeim dottið í hug að benda á þessa lögleysu, sem allir þykjast vita núna að hafi viðgengist allan þennan tíma.  Enginn lögfræðingur, sem sat á þingi 2001 og greiddi atkvæði um lögin, hefur nokkurn tíma komið fram síðan, til að útskýra þessa lögleysu, sem þessi skýra lagasetning átti að afstýra, enginn sem hefur setið á þingi síðan og reyndar ekki einn einasti lögspekingur í landinu, hefur svo mikið sem andað því út úr sér, að svona gegnistrygging gæti verið á móti "anda laganna".

Allir opinberir aðilar, sem handfjatlað hafa þessa pappíra, hafa einnig brugðist, t.d. sýslumenn sem þinglýst hafa þessum skjölum og síðan úrskurðað um vörslusviptingu og jafnvel gjaldþrot á grundvelli þessara ólögmætu gerninga.  Fjármálaeftirlitið, sem annast eftirlit með bönkunum, hefur aldrei mótmælt þessum lánaskilmálum og ekki hefur háskólasamfélagið hámenntaða sagt stakt orð um málið.

Skuldararnir telja sig hafa verið blekkta til að skrifa undir lánasamningana af ótíndum glæpamönnum sem starfað hafi í hverri einustu lánastofnun landsins og líta nú svo á, að þeim komi þessi lán nánast ekkert við lengur, vegna þessara svika og pretta.

Það er alveg merkilegt að sjá núna, hvað margir lúrðu á vitneskju um þessa "glæpi", en hylmdu yfir þá allan þennan tíma.


mbl.is Ólöglegt að setja lög um verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta, Julian Assange, WikiLeaks og RÚV

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur sagt frá aðkomu sinni og aðstoð við Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, við að koma í umferð myndbandi af árás bandarískrar herdeildar á íraka og starfsmenn RÚV munu hafa hjálpað til við vinnslu myndbandsins og sendi síðan fréttamann á staðinn til að ræða við aðstandendur þeirra sem féllu í árásinni.

Ekki skal þessi grimmdarlega árás varin á nokkurn hátt, en daglega berast fregnir frá Írak, þar sem innfæddir eru að sprengja hver annan í loft upp á viðbjóðslegan hátt hvar sem hópar fólks safnast saman í sakleysi sínu, t.d. á útimörkuðum, í verslunum og biðröðum við opinberar stofnanir.  Þessar morðárásir tengjast Bandaríkjamönnum ekki á nokkurn hátt, því þeir eru yfirleitt ekki á þeim stöðum, þar sem þessar sprengingar eiga sér stað, heldur eingöngu íraskur almenningur, sem ekkert hefur til saka unnið, annað en að tilheyra röngum trúarsöfnuði innan Islam, að því er virðist.

Aldrei hafa Birgitta og Julian "lekið" neinum myndböndum af þessum manndrápum á WikiLeaks og hvað þá að sjónvarpinu hafi þótt ástæða til að senda sína fréttamenn til Íraks, til þess að kanna bakgrunn sprenginganna og sprengjuvarganna, né tekið viðtöl við fórnarlömbin og ættingja þeirra þúsunda, sem látið hafa lífið í þessum voðaverkum.

Rétt er og skylt að benda á glæpsamlega framgöngu vesturlandabúa og þau voðaverk sem þeir fremja, en ekki er síður ástæða til að fordæma hryðjuverk, sem framin eru af öðrum af hreinni mannvonsku einni saman.

RÚV, sem hlutlaus, ríkisrekin sjónvarpsstöð á að minnsta kosti ekki að láta flækja sig í einhliða áróðursstríð.


mbl.is Stofnandi WikiLeaks kemur úr felum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Valgerður Sverrisdóttir ábyrg fyrir klúðrinu

Eftir að dómur féll í Hæstarétti um ólögmæti gengistryggðra lána kom Valgerður Sverrisdóttir, fyrrv. viðskiptaráðherra, fram í fjölmiðlum og sagði að það hefði alltaf verið skilningur Viðskiptaráðuneytisins að gegnistrygging lána væri ólögleg, enda hefði hún sjálf verið viðskiptaráðherra þegar lögunum var breytt og hefði því allan tímann vitað að slíkar lánveitingar væru andstæðar lögunum.

Einnig sagði hún, að Fjármálaeftirlitið hefði átt að fylgjast með málinu og sjá til þess að svona lánveitingar myndu ekki viðgangast og bætti við, að hún skildi bara ekkert í því, að þessar lánveitingar skyldu geta gengið allan þennan tíma.

Þessi yfirlýsing fyrrverandi viðskiptaráðherra virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá fjölmiðlum, því þetta er stórkostlegasta játning um vanrækslu í starfi, sem komið hefur fram frá nokkrum ráðherra frá lýðveldisstofnun.  Hafi hún og ráðuneytið vitað allan tímann að þessi lán tíðkuðust og væru ólögleg, er hún jafnframt að játa á sig algera vanrækslu í starfi og ekki síður vanhæfni allra þeirra starfsmanna viðskiptaráðuneytisins, sem áttu að fylgjast með lagaframkvæmdinni s.l. áratug a.m.k.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að tveir eða þrír ráðherrar hafi sýnt vanrækslu í starfi vegna nokkurra atriða í aðdraganda bankahrunsins og nú er nefnd undir forsæti Atla Gíslasonar að skoða hvort ástæða sé til að stefna þeim fyrir Landsdóm vegna þeirra mála.

Þar sem játning Valgerðar Sverrisdóttur um stórkostlega vanrækslu sína og ráðuneytisstarfsmanna Viðskiptaráðuneytisins liggur fyrir opinberlega, hlýtur henni að verða stefnt fyrir Landsdóm til að svara fyrir embættisafglöp sín og eins hljóta starfsmenn ráðuneytisins að fá alvarlega áminningu fyrir sín brot, ef ekki hreinlega brottrekstur úr starfi.

Valgerður sýndi ekki bara vanrækslu við upphaf þessara lánveitinga, heldur þagði hún um þessa vitneskju allan tímann sem hún sat á þingi og raunar eftir það, þangað til hún bar játningu sína fram í fjölmiðlum í síðustu viku.

Kannski þagði hún nógu lengi, til að láta fyrningarfrest afglapa sinna renna út, svo ekki yrði hægt að lögsækja hana.


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánafyrirtækin bíða nýrra dóma vegna bílalána

Lánafyrirtækin virðast hafa verið svo örugg með sig og lagalegan rétt sinn vegna "gengislánanna", að þau settu ekki fram neinar varakröfur fyrir dómstólum um aðra tegund verðtryggingar og hvað þá um önnur vaxtakjör, ef "gengistryggingin" reyndist ólöglegt form verðtryggingar.

Dómar Hæstaréttar voru alveg skýrir um þau álitaefni, sem fyrir hann voru lögð, gengistryggingin dæmdist ólögleg og engin afstaða tekin til annarra skilmála lánasamninganna.  Þar með standa lánin með upphaflegum vaxtasamningi og óverðtryggðum höfuðstól.  Lánafyrirtækin sætta sig illa við þá niðurstöðu og kemba nú allar hugsanlegar lagagreinar, til þess að klóra sig út úr málinu, án þess að fara eftir dómsniðurstöðunni.

Fleiri mál af svipuðum toga virðast vera rekin fyrir dómstólum og virðast þar vera gerðar einhverjar varakröfur, eða eins og segir í fréttinni:  "Þrátt fyrir þetta hafa fjármögnunarfyrirtæki borið fyrir sig mikla réttaróvissu og hafa mörg þeirra ákveðið að senda ekki út greiðsluseðla að svo stöddu. Heimildir Morgunblaðsins herma að Alþingi muni ekki láta til sín taka og bíða fyrirtækin því niðurstöðu dómstóla um mál varðandi breytingar á samningsskilmálum. Gæti hún leitt til hagfelldari niðurstöðu fyrir lánardrottna."

Framundan er réttarhlé fram í September og því ekki að vænta nýrra dóma á næstu mánuðum og verði þeim síðan áfrýjað til Hæstaréttar, er ekki að vænta endanlegrar niðurstöðu Hæstaréttar fyrr en seinni hluta næsta vetrar.

Skuldarar, sem nú hrósa sigri yfir lánafyrirtækjunum, munu varla hafa þolinmæði til að bíða nýrra dóma fram á næsta ár.


mbl.is Fyrirtæki bera fyrir sig óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband