Meirihlutaviðræður eða brandarakeppni?

Engum, sem hefur fylgst með ferli Dags B. Eggertssonar, hefur þótt hann fyndinn en hinsvegar hefur hann getið sér orð fyrir að tala mikið, án þess að segja nokkuð.  Ekki síst þess vegna tapaði Samfylkingin miklu fylgi í Reykjavík og sá sem oftast var strikaður út af listanum í kosningunum var einmitt oddvitinn, Dagur B.

Núna, eftir að Samfylkingin er komin í meirihlutaviðræður við "Besta"flokkinn virðist Dagur B. vera kominn í samkeppni við Jón Gnarr um að reyna að vera fyndinn og er farinn að slá um sig með "bröndurum" Gnarrista, t.d. að tala um trúnaðarsamræður á leynifundum, þar sem hvorki er talað í trúnaði, né að fundirnir séu leynilegir, enda yfirleitt skýrt frá því fyrirfram hvar þeir skuli haldnir og hvenær.

Eftir að meirihlutaviðræðurnar byrjuðu hefur Jón Gnarr haldið sig frá fjölmiðlum, en teflt fram "aðstoðarkonu sinni", eins og sönnum stjórnmálamanni af stærri gerðinni sæmir, enda ekkert inni í málefnum Reykjavíkurborgar og rekstri hennar, eins og hann sýndi og sannaði margoft í kosningabaráttunni og stór hluti kjósenda í Reykjavík taldi mikinn kost á framtíðarleiðtoga sínum.

Þrátt fyrir að Dagur B. reyni að vera fyndinn, er hann alltaf sami gamli góði Dagu B., eins og lokamálsgreinin í fréttinni sýnir glögglega, en hún er svona:

"Þessi sami kraftur hefur orðið til þess að Dagur velti fyrir sér hvort hann „geti skipt máli í sjálfu sér til þess að gera það sem við ætluðum en mistókst að sumu leyti; að vekja borgina. Að vekja borgarbúa og rífa samfélagið saman. Fram til nýrra átaka, til að takast á við kreppuna og koma okkur á næsta reit með meiri bjartsýni og von en samfélagið hefur einkennst af, skiljanlega.“"

Dagur B. þyrfti að hafa með sér "aðstoðarkonu" til að þýða það sem hann segir yfir á íslensku.


mbl.is Trúnaðarsamtöl á leynifundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Fréttastofa Útvarps Sögu hlutlaus?

Útvarp Saga hefur aukið hlutstun sína mikið á undanförnum mánuðum, en þar hefur þrifist einhver óþverralegasta fjölmiðlun, sem sögur fara af í bland við ágæta þætti Stigurðar G. Tómassonar, sem reyndar getur ekki talist hlutlaus, og spjallþáttar sem stjórnað hefur verið af Höskuldi Höskuldssyni, með þátttöku ritstjóra Viðskiptablaðsins og forstjóra Brimborgar.

Einstaka aðrir þættir eru hæfir til útsendingar, en þættir sem stjórnað er af eigendum stöðvarinnar, þeim Arnþrúði og Pétri eru algerlega óboðlegir, bæði vegna þess hve stjórnendurnir eru oft illa inni í þeim málum sem um er fjallað og ekki síður þeim ótrúlega ómerkilega málflutningi sem þau viðhafa gegn ýmsum mönnum og málefnum.

Stuttir þættir ofstækismanns um fiskveiðimál og aðallega kvótann, eru hverri útvarpsstöð algerlega ósamboðnir og óskiljanlegt, að maðurinn skuli fá að ausa svívirðilegum hugarheimi sínum yfir hlustendur ár eftir ár.

Haukur Holm hefur verið ágætur fréttamaður í gegnum tíðina og vonandi mun hann ekki reka sína fréttastofu undir sömu formerkjum og eigendur stöðvarinnar kjósa að stjórna sínum þáttum, heldur leggja áherslu á að flytja hlutlausar og vandaðar fréttir, sem hægt verður að treysta.

Standi Haukur undir þeim væntingum, gæti það lagað orðspor stöðvarinnar talsvert.


mbl.is Haukur Holm til liðs við Útvarp Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör eða persónukjör í kosningum?

Prófkjör hafa verið gagnrýnd vegna þess að þau mismuni frambjóðendum eftir efnahag, því þeir sem greiðari aðgang hafi að peningum til að auglýsa sig, hafi alltaf forskot á hina, sem minna hafi úr að spila.  Auglýsinga- og fjáraustur í prófkjörum keyrði algerlega úr hófi fram á árunum 2006 og 2007, þegar banka- og útrásargervifyrirtæki voru óspar á styrki til frambjóðenda, hvar í flokki sem þeir stóðu.

Þegar þessi styrkjamál til flokka og frambjóðenda voru gengin fram úr öllu hófi, var lögum breytt á þann veg að enginn einn styrktaraðili má af hendi láta meira en 300 þúsund krónur til flokks eða frambjóðenda, en eftir sem áður geta frambjóðendur átt misgóðan aðgang að styrktaraðilum, eða kæra sig jafnvel ekkert um slíka styrki og þá eru aftur komnar upp þær aðstæður, að frambjóðendur sitja ekki við sama borð og sömu aðstöðu.

Verði prófkjör lögð af og tekið upp persónukjör í kosningum í staðinn, hljóta auglýsinga- og kynningarmál frambjóðenda að færast í kosningabaráttuna sjálfa, sem þá fer að snúast um einstaka frambjóðendur, en ekki stefnumál og framtíðarsýn flokkanna sjálfra og meiri tilviljun fer að ráða því hverjir veljist á þing og í sveitarstjórnir fyrir hvern flokk fyrir sig.

Konur hafa oft kvartað yfir slöku gengi í prófkjörum og því eru áhyggjur þeirra vegna hugmynda um að færa prófkjörin inn í sjálfar kosningarnar skiljanlegar, enda er vandséð hvað á að leysa með þessu svokallaða persónukjöri í kosningum.

Væri ekki bara betri hugmynd, að halda sameiginleg prófkjör þeirra flokka, sem þá aðferð vilja nota á annað borð, með sameiginlegum reglum um auglýsingar og kynningar?


mbl.is Segir persónukjör stranda á konum í VG og Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband