Á Hæstiréttur að leggjast í útreikninga á bílalánum?

Fyrstu viðbrögð lánafyrirtækjanna við þeim dómi Hæstaréttar að bannað sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, bendir ekki til þess að öll kurl séu komin til grafar ennþá.  Lánastofnanirnar munu einhvern veginn reyna að þvæla málunum áfram og reyna að finna leiðir til að klóra í bakkann.

Landsbankinn, sem er eigandi SP fjármögnunar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dómsins, þar sem m.a. þetta kemur fram:  "Á þessu stigi er ekki vitað nákvæmlega hversu mikil áhrifin af dóminum verða á eignir SP-Fjármögnunar þar sem ekki er skorið úr um hvernig reikna á lánin. Ákveðin óvissa er því enn til staðar og er mikilvægt að henni verði eytt hið fyrsta."

Fram að þessu hafa íslenskar lánastofnanir ekki verið í neinum vandræðum með að reikna út afborganir og vexti af lánum, jafnt verðtryggðum, gengistryggðum og lánum án allra verðtrygginga.  Það vekur nokkra furðu, að ætlast til þess að útreikningar á lánunum fylgdu frá Hæstarétti.  Slíkir útreikningar eru varla í hans verkahring og því er hér um fyrirslátt að ræða, til að vinna tíma og hugsa upp mótleiki.

Líklegast er að lánafyrirtækin fari í nýtt mál og geri þá kröfu að í stað gegnistryggingar komi verðtrygging og munu bera því við, að alltaf hafi staðið til að lánin myndu hækka í takt við verðlag og fyrst þessi tegund verðtryggingar hafi verið ólögleg, hljóti að mega reikna á þau "venjulega" verðtryggingu.

Næstu dagar, vikur og mánuðir munu snúast um bílalán og lítið annað.


mbl.is Ekki ljóst hvernig eigi að reikna á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað svo?

Hæstiréttur hefur dæmt gengistryggðu bílalánin ógild, þ.e. aldrei var heimilt að tengja íslenskan höfuðstól við dagsgengi erlendra mynta. 

Þetta er stórmerkur tímamótadómur, en fréttir hafa ekki ennþá birst af forsendum dómsins, t.d. hvort upphaflegur höfuðstóll og vextir skulu þá uppreiknast óverðtryggt, eða hvort dómurinn hljóðar upp á að þessi aðferð við verðtryggingu sé ólögleg, en venjuleg verðtrygging miðuð við framfærsluvísitölu eigi þá að gilda í staðinn.

Fréttir næstu daga munu ekki snúast um annað en þennan dóm, enda stórmerkilegur.

Þjóðhátíðardagurinn og samþykkt ESB um að hefja aðildarviðræður við Íslendinga munu algerlega týnast í fréttaflóðinu af Hæstaréttardóminum.


mbl.is Gengistryggingin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð við Kínasamningunum?

Það er siður margra þjóða, að senda hver annarri hamingjuóskir á þjóðhátíðardögum og slíkt hafa Bandaríkjamenn ávallt gert í tilefni af þjóðhátiðardegi Íslendinga, enda voru þeir þjóða fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Íslands árið 1944.

Nú bregður hins vegar svo við, að Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendir slíka kveðu á myndbandi, þar sem hún ávarpar þjóðina í eigin persónu og flytur henni kveðju þjóðar sinnar og er þetta nýmæli í samskiptum ríkja.  Í ávarpi sínu minnir hún á núna vinni Ísland og Bandaríkin saman að því að stuðla að firði, framförum og velsæld um allan heim. Einnig tekur hún fram að á erfiðum tímum megi Íslendingar vita að Bandaríkin styðji við bakið á þeim.

Hvort þessi nýstárlega þjóðhátíðarkveðja er svar Bandaríkjamanna við fréttum af því, að Íslendingar séu nýbúnir að skrifa undir ýmsa viðskipta- og gjaldeyrissamninga við Kína, skal ósagt látið, en vissulega ýtir myndbandið undir slíkar hugrenningar.  Eins er þess að minnast, að Bandaríkjamenn vildu ekki gera gjaldmiðlasamning við Íslendinga á árinu 2008, þegar slíkir samningar voru gerðir við öll hin norðurlöndin.

Ekki má heldur gleyma því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur gert það sem í hans valdi stendur undanfarin ár, til að spilla samskiptum Íslands við Bandaríkin til þess að nýta sér verri samskipti landanna til áróðurs fyrir inngöngu Íslands í ESB, með þeim rökstuðningi að Ísland þurfi að leita sér nýrra bandamanna.

Einn liður í því að spilla samskiptum þjóðanna var að móðga svo fráfarandi sendiherra Bandaríkjamanna, að hér á landi var ekki skipaður nýr fyrr en tæpum tveim árum eftir að sá niðurlægði yfirgaf landið.

Slíkar móðganir gagnvart sendiherrum eru túlkaðar sem móðgun við þjóð þeirra og það vissi Össur vel og var einmitt tilgangur hans með dónaskap sínum. 


mbl.is Clinton sendir Íslendingum kveðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varð ekki trúður, en borgarstjóri í staðinn

Jón Gnarr þreytist ekki á að lýsa þeim berskudraumi sínum að verða trúður í Sirkus Billy Smart, en sá draumur hafi því miður aldrei ræst, en það næsta sem hann hafi komist í að uppfylla æskudrauminn hafi verið með því að verða borgarstjóri í Reykjavík.

Góðir trúðar eru þeim eiginleikum gæddir, að þeir geta bæði fengið fólk til að hlæja og gráta, oftast með látbragðsleik einum saman og oft skemmir bara fyrir, ef þeir reyna að bæta tali og texta inn í atriði sín.  Utan sirkushringsins er sagt að hinir bestu trúðar séu oft hæglátir, feimnir og ekkert endilega skemmtilegir í mannlegum samskiptum, enda ekki tamt að tjá sig í orðum.

Jón Gnarr á það sameiginlegt með mörgum öðrum trúðum, utan sirkustjaldsins, að vera ótrúlega klaufalegur í svörum, kemur illa fyrir sig orði, rekur oft í vörðurnar og lætur hreinlega illa að tala öðruvísi en eftir fyrirfram skrifuðu handriti.  Í tilfelli borgarmálanna er hann algerlega á gati og svarar yfirleitt út í hött, enda hefur hann ekki hugmynd um hvað málin snúast innan borgarkerfisins og þó fólk stökkvi ekki alskapað inn á þann vettvang, frekar en annan, þá væri að minnsta kosti hægt að ætlast til, að reynt væri að kynna sér þau mál, sem fólk tekur að sér að sinna í annarra umboði.

Leiktjöldin hafa verið dregin frá og sirkussýningin er byrjuð, með Jón Gnarr í hlutverki trúðsins.

Aðrir borgarfulltrúar virðast aðallega vera búningahönnuðir og "sminkur" sem sjá um andlitsfarðann.

 


mbl.is Jón Gnarr með lyklavöldin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband