20.5.2010 | 21:17
Á að efla atvinnu með því að loka öllum fyrirtækjum?
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur lög að mæla þegar hann segir að ríkisstjórnin sé að gera minna en ekkert til að koma einhverri hreyfingu á atvinnulífið með þeim ráðum, sem hún hefur þó yfir að ráða, svo sem að greiða fyrir virkjana- og stóriðjuframkvæmdum, þ.e. byggingu álvera, kísilverksmiðju, gagnavera o.fl. fyrirtækja, sem erlendir aðilar hafa áhuga á að fjárfesta í hér á landi.
Einnig er alveg rétt hjá Gylfa að þjóðin er orðin uppgefin á ríkisstjórninni, sem er dauðþreytt af því að gera ekki neitt annað en þvælast fyrir þeim málum, sem gætu orðið til að stytta kreppuna og minnka atvinnuleysið, sem Gylfi spáir að muni aukast svo um munar, fari stjórnin ekki að reka af sér slyðruorðið. Ekki hefur verið staðið við eitt einasta atriði, sem ríkisstjórnin lofaði að greiða fyrir með undirritun sinni og samþykki á stöðugleikasáttmálanum fyrir tæpu ári síðan.
Hins vega er ráð Gylfa við þessum doða ríkisstjórnarinnar meira en lítið einkennilegt, því hann telur vænsta kostinn til að sparka stjórnarflokkunum af stað vera þann, að boða til verkfalla og loka þar með öllum vinnustöðum landsins.
Hvernig það á að vera til að auka atvinnu, verður forseti ASÍ að útskýra nánar, því algerlega er öruggt, að mörg fyrirtæki myndu ekki þola svo mikið sem tveggja daga verkfall í því fjárhagsumhverfi sem þau starfa í nú til dags.
Það er margt skrýtið í kýrhausnum.
![]() |
Íhuga verkföll í haust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2010 | 15:55
Listi töframanna reynir að slá út spaugaraframboðið
Reykjavíkurframboðið, er nýr listi fólks sem ætlar að útrýma atvinnuleysinu í borginni og taka til baka allar skerðingar í félagsmálum með einföldu töfrabragði, þ.e. að selja Vatnsmýrina fyrir a.m.k. 70 milljarða króna. Skárra nafn á þennan lista hefði verið Töfralistinn, enda greinilega skipaður miklu galdra- og særingarfólki.
Meira að segja frambjóðendum "Besta" brandarans hefur ekki dottið svona grín í hug og hafa skrítlur þeirra þó flestar verið eintómir fimmaurabrandarar, eins og lélegt grín er jafnan kallað. Líklega gera jafnvel þeir sér grein fyrir hversu fáránleg della þetta útspil Töfralistans er.
Ef Töfralistinn gerir ekki ráð fyrir að selja Vatnsmýrina til "erlendra fjárfesta" er vandséð hvaðan milljarðarnir 70 eiga að koma, því byggingariðnaðurinn er í algerri rúst um þessar mundir og liggur ekki með þetta fé á lausu, enginn fjármálastofnun myndi lána í ævintýrið enda árið 2007 löngu liðið og ógrynni óseldra fasteigna frá þeim tíma ólokið og fullbúnar byggingar bíða kaupenda, sem hvergi finnast um þessar mundir.
"Besti" brandarinn er löngu orðinn leiðigjarn og því verður að teljast bráðskemmtilegt í annars daufri kosningabaráttu að fá þennan nýja Töfralista til að skemmta Reykvíkingum fram að kosningum.
En að láta sér detta í hug að nokkur kjósi spaugara og galdramenn í borgarstjórn Reykjavíkur er auðvitað sprenghlægilegt, út af fyrir sig.
![]() |
Vatnsmýrin í gíslingu" fjórflokksins í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.5.2010 | 11:32
Hvort segir satt um evruna?
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ætlar að beita sér fyrir hertu eftirliti með fjármálamörkuðum, því víðar en hérlendis hafa banka- og fjármálafyrirtæki valdið miklu tjóni með framferði sínu undanfarin ár, þó ekki sé útlit fyrir að þar hafi verið stunduð skipulögð glæpastarfsemi eins og allt bendir til að hafi verið raunin hér á landi. Einnig skorar hún á önnur ríki að styðja sérstaka skattlagningu á fjármálamarkaði heimsins, til þess að forða ríkissjóðum frá því að þurfa að taka á sig töp þessara fyrirtækja í framtíðinni.
Annað atriði og stórmerkilegt kom fram í ræðu sem Merkel hélt á þýska þinginu í gær þegar hún varði þá ákvörðun sína að taka þátt í aðstoð ESB við Grikkland, en hún sagði að evran væri í hættu og ESB stæði frammi fyrir mestu eldraun sinni í áratugi. Efnahagsráðherra Frakklands, Christine Lagarde, sagði hins vegar í útvarpsviðtali: Evran er sterkur og trúverðugur gjaldmiðill. Ég tel alls ekki að evran sé í hættu.
Hvort skyldi nú vera meira að marka það sem kanslari Þýskalands segir um evruna og ESB, eða efnahagsráðherra Frakklands, en Þýskaland er ótvírætt forysturíki sambandsins og ber aðalábyrgðina og þungann af kostnaðinum vegna evrunnar?
Svarið við þeirri spurningu liggur alveg í augum uppi.
![]() |
Vill skatt á fjármálamarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2010 | 09:55
Skattahækkanabrjálæði VG enn á dagskrá
VG sker sig frá öðrum framboðum í Reykjavík að því leyti, að það er eina framboðið sem hótar kjósendum stórhækkun skatta ofan á allt skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem hækkað hefur alla skatta, beina og óbeina á heimili og atvinnulíf.
Janfnvel öðrum brandaraframboðum eins og "Besta"flokknum hefur ekki dottið í hug að hafa skattamálin í flimtingum og eru þær þó ófáar og ábyrgðarlausar, vitleysurnar sem frá því fólki kemur. VG aflar sér lítils fylgis með svona ógáfulegum tillögum, en það stórmerkilega er, að "Besti" brandarinn fær mikinn stuðning við nánast engar tillögur og þær fáu sem til tals koma, eru svo vitlausar að ekki er einu sinni hægt að hlæja lengur að þeim fimmaurabröndurum.
Það eina raunhæfa í þeirri þröngu stöðu sem þjóðfélagið er í nú um stundir, er niðurskurður og sparnaður í borgarkerfinu, alveg eins og í ríkisrekstrinum, og neyta allra ráða annarra en auka skattahækkanabrjálæðið, sem nú þegar er að sliga allan almenning í þessu landi.
VG segja í tilkynningu sem þeir hafa sent frá sér vegna hótana sinna um skattahækkanir: "Hér kristallast vel hugmyndafræðilegur munur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.
Þetta eru algerlega orð að sönnu og ekki vandi að hafna skattahækkunarbrjálæðinu.
![]() |
VG vill fullnýta útsvarið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
20.5.2010 | 02:30
Bjölluatarar gómaðir á dyraþrepinu
Samfylkingin hefur að undanförnu staðið að dýrasta bjölluati sögunnar með því að plata VG til að taka þátt í að prakkarast í ESB með umsóknaraðild að stórríkinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þjóðin er algerlega andvíg því að taka þátt í svona stráksskap í útlöndum og andstaðan sífellt verið að aukast.
Þrátt fyrir að flestir innan VG hafi gengið óviljugir til þessa leiks, hafa þeir þó ekki haft manndóm í sér til þess að hætta þátttöku í þessum dónaskap gangvart ESB og krefjast þess að leiknum verði hætt og afsökunabeiðni send vegna hrekksins.
Nú hefur ESB hins vegar uppgötvað að um hreinan barnaleik er ræða og hvaða krakkaskammir standa fyrir þessum hrekk og mun því ekki hlaupa til dyranna aftur á næstunni, þó atinu verði haldið áfram.
Samfylkingin hefði betur tekið mark á sínum eigin löndum og hætt hrekkjunum áður en sá sem hrekkurinn beindist að gómaði hana og rasskellti fyrir skammarstrikin.
![]() |
ESB efast um umsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)