Útrásargarkar með litlar eignir - hér á landi

Hortugustu bullustrokkar útrásarruglsins, Jón Ásgeir í Bónusi og Pálmi í Iceland Express hafa nú mátt sæta því að eignir þeirra hérlendis hafa verið kyrrsettar vegna gruns um skattsvik FL-Group á meðan þeir gegndu þar stjórnarstörfum.

Þeir félagar hafa ekki sýnt nokkra einustu iðrun vegna gerða sinna á "bankaránsárunum" og hvað þá sýnt auðmýkt gagnvart þeim, sem illa hafa orðið úti vegna "viðskiptasnilli" þeirra.  Þvert á móti hefur Jón Ásgeir verið sérstaklega hortugur og óforskammaður í viðtölum og ekki síður í pistlum sem hann skrifar reglulega á Pressunni, en þar eys hann dylgjum og svívirðingum á báða bóga, en lýsir sjálfan sig alsaklausan af öllu því sem gerðist og olli hruninu, en bendir á alla aðra en sjálfan sig, sem sökudólg.

Nýlega sendi hann frá sér yfirlýsingu, þar sem hann lýsti því yfir að vegna einhvers misskilnings hefði skattstjóri kyrrsett eignir í sinni eigu vegna einhverrar undarlegrar sjö milljóna skattkröfu, sem hann auðvitað kannaðist ekkert við.  Nú er komið í ljós að þetta var ekki alveg nákvæm tala hjá honum, því eignir hans hafa verið kyrrsettar fyrir tvö hundruð milljóna króna skattakröfu og svipuð er krafan á hendur Pálma vini hans og félaga.

Við þessa kyrrsetningu kemur hins vegar í ljós, að þeir félagar eru tiltölulega eignalitlir hér á landi, a.m.k. miðað við umsvif þeirra og lifnaðarhátt á undanförnum árum.

Þar sem þeir segjast báðir vera undrabörn á viðskiptasviði, verður að reikna með að þeim hafi tekist að öngla saman einhverjum aurum inn á bankabækur í öruggu skjóli fyrir illa þenkjandi og ofstækisfullum skattayfirvöldum.


mbl.is Eignir Jóns Ásgeirs og Hannesar kyrrsettar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðuleiki fréttastofu Stöðvar 2 að engu orðinn

Fréttastofa Stöðvar 2 flutti frétt í júlí 2009 af því að fjórir nafngreindir banka- og útrásarruglarar hefðu flutt hundruð milljóna króna út úr Straumi-Burðarási og inn á sína einkareikninga í skatta- og bankaparadísum erlendis.  Þetta áttu að hafa verið Björgólfsfeðgar, Karl Wernersson og Magnús Þorsteinsson og þrátt fyrir ákafa neitun þeirra, lýsti fréttastofa Stöðvar því yfir að hún stæði við fréttina, enda hefði hún fyrir henni traustar heimildir.

Nú, tæpum tíu mánuðum síðar, dregur fréttastofan fréttina til baka og viðurkennir að hún hafi aldrei haft nein gögn til stuðnings fréttinni og aðeins byggt hana á frásögn eins heimildarmanns, sem engin gögn hafði heldur í sínum höndum um málið.

Athygli vekur að allir þessir umræddu menn tilheyrðu annarri klíku en á og rekur Stöð 2 og því vaknar sú spurning hvort heimildarmaðurinn tilheyri eigendahópi stöðvarinnar og hafi viljandi verið að beina athygli almennings í aðrar áttir, en að t.d. aðaleiganda 365 miðla.

Hvað sem því líður er þetta mál gífurlegur álitshnekkir fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og trúverðugleiki hennar að engu orðinn.  Björgólfur Thór stefndi stöðinni fyrir ærumeiðingar og þegar sú kæra kom fram, ýtrekaði fréttasofan að hún stæði við fréttina, enda væri hún rétt og heimildir öruggar.

Fréttamenn hamra stöðugt á stjórnmálamönnum hvort þeir ætli ekki að "axla ábyrgð", sem í þeirra munni þýðir á mannamáli að fréttamaðurinn sé að gefa í skyn, að viðkomandi viðmælandi eigi að segja af sér og yfirgefa sviðsljósið.

Hver mun axla ábyrgð vegna þessarar fréttafölsunar?


mbl.is Fréttastofa Stöðvar 2 dregur frétt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna þeir hálfdagsvinnu í heilsdagsstarfi?

Ríkisstjórnin íhugar að fækka ráðuneytum um þrjú, þ.e. sameina sex ráðuneyti og þannig yrðu ráðuneytin 9 í stað 12, eins og nú er.  Þetta á að gera í hagræðingar og sparnaðarskyni, enda ráðuneytin dýrar stofnanir og spara þarf og skera niður á öllum sviðum ríkisrekstrarins.

Ekki veitir af að sameina stofnanir og ráðuneyti, ef verkefnin á hverjum stað eru svo lítil, að starfsmennirnir vinni aðeins hálfan daginn, en séu þó á launum allan daginn og jafnvel með yfirvinnu að auki.  Eins og geta má nærri blöskrar fjármálaráðherranum svona vinnubrögð, enda kom eftirfarandi fram hjá honum á Alþingi í dag, samkvæmt mbl.is:  Í svari sínu rifjaði Steingrímur J. upp að ef búin yrðu til þrjú ráðuneyti úr sex myndi þar verða starfandi þrír ráðherrar í stað sex, þrír aðstoðarmenn ráðherra í stað sex, þrír bílstjórar en ekki sex, þrír ráðuneytisstjórar í stað sex, og um það bil 20 skrifstofustjórar í stað 40."

Til viðbótar þessari upptalningu eru þeir pólitísku aðstoðarmenn ráðherra, sem ráðnir eru inn í ráðuneytin án auglýsinga og eru dæmi um að hver ráðherra ráði sér tvo til þrjá slíka.

Varla verða forystumenn starfsmannafélags ráðuneytanna ánægðir með umsögn Steingríms J. um þennan slæping starfsmanna ráðuneytanna, hálfu og heilu dagana.


mbl.is Tímasetning sameiningar óákveðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging eða efnahagsstjórn?

Verðtrygging lána hefur verið við lýði hér á landi síðan 1978, eða í 32 ár, en ennþá er fjöldi manna sem telur hana vera vandamál í fjármálakerfinu, en virðast ekki gera sér grein fyrir því að verðbólgan er sjúklingurinn, en verðtryggingin aðeins hitamælir, sem mælir líðan sjúklingsins hverju sinni.

Alveg frá lýðveldisstofnun hefur Ísland nánast verið laust við efnahagsstjórn, nema í fáein ár í einu með löngum verðbólguköflum á milli.  Einstaka sinnum er gert átak til að slá verðbólguna niður, en alltaf er slakað á peningamálastjórninni aftur og allt fer í sama farið.  Ekki bregst þá heldur, að á slíkum tímum er ráðist með offorsi gegn verðtryggingunni, en ekki vandamálinu sem við er að glíma.

Viðskiptanefnd Alþingis er nú enn einu sinni að fjalla um verðtrygginguna og Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögu um að setja þak á verðtryggingu í stað þess að leggja til að efnahagsstjórn landsins verðir tekin föstum tökum og verðbólgan kveðin niður, helst í eitt skipti fyrir öll.

Gylfi Magnússon, hagfræðingur og lausamaður í Viðskiptaráðuneytinu, verður yfirheyrður af nefndinni, en hann er að sjálfsögðu á þeirri skoðun að verðtryggingin sé ekki skaðvaldurinn, heldur lausatök á efnahagsmálum þjóðarinnar.  Hann segir m.a. að:  "Óstöðugt verðlag væri sjúkdómurinn og óstöðugt gengi krónunnar. Það væri ástæðan fyrir því að Ísland væri eina landið í þessum heimshluta með verðtryggingu í þetta langan tíma." 

Gylfi segir einnig að fyrsta og mikilvægasta skrefið væri að taka betur á stjórn peningamála til að hafa hemil á verðlaginu og gengi krónunnar.  Með því telur hann að koma megi meira viti í umræðuna um verðtrygginguna.

Vonandi verður Gylfa að ósk sinni um að farið verði að ráðast að rót vandans í stað þess að ræða endalaust um afleiðingar hans.

 


mbl.is „Yfirheyrsla yfir verðtryggingunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi Sigurður veita saksóknaranum áheyrn?

Samkvæmt fyrirsögn á frétt DV, sem mbl.is vitnar til, mun Ólafur Hauksson, Sérstakur saksóknari, hald til Bretlands í dag, þar sem hann mun freista þess að ná tali af Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings. 

Hvers vegna saksóknarinn gerir sér ferð til útlanda til að freista þess að ná tali af aðila, sem hefur stöðu grunaðs manns í sakamáli, í stað þess að knýja viðkomandi til þess að mæta til yfirheyrslu á skrifstofu embættisins, eins og aðrir þurfa væntanlega að gera, er ekki alveg auðskilið mál. 

Enska rannsóknardeild alvarlegra efnahagsbrota mun vera í samstarfi við embætti Sérstaks saksóknara við rannsóknir "bankaránanna", svo hugsast getur að bæði embættin ætli að vinna saman að yfirheyrslum yfir Sigurði, en sé það ekki raunin, verður það að teljast óvenjuleg ráðstöfun, að saksóknarinn sjálfur skuli skreppa yfir hafið til að spjalla við sakborning.

Vonandi veitir Sigurður saksóknaranum áheyrn og býður jafnvel ferðaþreyttum manninum upp á te. 

VIÐBÓT:

Allt sem að ofan var skrifað er byggt á misskilningi, þar sem fréttin á DV, sem umsögnin var byggð á var tóm lygi, sem er svo sem ekki neitt einsdæmi um það sorprit.  Ólafur Hauksson mun vera á leið til Svíþjóðar, til að sitja fund norrænna saksóknara.  DV þóttist hafa staðfestingu Ólafs á því að hann væri að fara til Bretlands til að yfirheyra Sigurð Einarsson, en allt var þetta uppspuni blaðsins, samanber þessa frétt  hérna


mbl.is DV: Freistar þess að ræða við Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband