7.4.2010 | 22:39
Ekki er neitt AGS að þakka, að minnsta kosti
Nýlega stormaði heil sendinefnd undir forystu Steingríms J. til New York á fund forstjóra AGS og kom sigri hrósandi til baka, eftir að hafa tekið Landshöfðingjann í bóndabeygju og tilkynnti þjóðinni, að nú væri búið að koma öllum málum vegna samvinnunnar við AGS í lag og önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS færi fram strax eftir Páska, og alveg örugglega í aprílmánuði.
Þessi stórsigur Steingríms J. og félaga í New York vannst, að hanns sögn, þrátt fyrir að ekki væri búið að gangast undir fjárkúgun Breta og Hollendinga vegna Icesave, enda væri það mál nánast frágengið, eftir leynifundi með fulltrúum kúgaranna.
Nú er Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu, staddur í New York og mun erindið vera að ræða við Landshöfðingjann um endurskoðun efnahagsáætlunarinnnar, því Steingrímur J. og föruneyti skildi víst ekki tungumál Landshöfðingjans, því ekki mun hann hafa nein áform uppi, um að endurskoða þessa áætlun, eða skoða yfirleitt nokkurn hlut, sem snertir Ísland.
Gylfi "staðfesti" það við fréttamenn í stórborginni, að Icesave deilan væri nánast leyst, enda hefðu menn nánast verið komnir með samning í febrúarlok, en þjóðin eyðilagt málið í atkvæðagreiðslu. Síðan segir: "Þá sagðist hann einnig vonast til að efnahagsáætlun Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fari af stað aftur á þessu ári."
Eins og venjulega hafði Steingrímur J. því sagt þjóðinni ósatt, þegar hann kom úr ferðalaginu fyrir Páskana, því nú er vonast eftir að endurskoðun áætlunarinnar fari af stað á þessu ári. Það er svolítið annað en strax eftir Páska, eða a.m.k. í aprílmánuði.
Gylfi útskýrði fyrir fréttamönnunum að við kennum vondum útlendingum ekki um neitt, en við höfum heldur ekkert til að þakka þeim fyrir.
![]() |
Ekki vondum útlendingum að kenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2010 | 10:57
Hroki og flumbrugangur Álfheiðar
Álfheiður Ingadóttir er vanari að stjórna mótmælaaðgerðum en sjálfri sér og hvað þá að hún skilji opinbera stjórnsýslu, að ekki sé minnst á reiðistjórnun, því hún á vægast sagt erfitt með að hemja skap sitt, enda hrokafull með afbrigðum.
Það hlýtur að teljast óvenjulegt, að ríkisendurskoðandi skuli setja ofan í við ráðherra vegna hroka hans og yfirgangs í garð stjórnenda ríkisstofnana, ekki síst þegar ríkisforstjórinn hefur ekki annað til saka unnið, en leita ráða hjá Ríkisendurskoðun um hvernig beri að gæta þess að fara eftir illa unninni reglugerð ráðherrans, til þess að vera viss um að skilningur eftirlitsaðilans og forstjórans væri örugglega sá sami.
Annað eins stjórnsýsluklúður og Álheiður hefur sýnt í þessu máli er algerlega fáheyrt og toppar jafnvel stjórnun hennar á óeirðaseggjum Vinstri grænna úr Alþingishúninu í búsáhaldabyltingunni, en þá stýrði hún árás þeirra á sjálft þinghúsið.
Þessi ráðherranefna hefur aldrei tekist að skapa sér nokkurt traust, hvað þá virðingu, svo ekki hefur hún úr háum söðli að detta.
![]() |
Ákvörðun Álfheiðar ólíðandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
7.4.2010 | 08:33
Endalausar ofsóknir gegn blásaklausum mönnum
Skilanefnd Glitnis hefur nú höfðað skaðabótamál gegn Jóni Ásgeiri í Bónus og Pálma í Iceland Express ásamt fyrrverandi forstjóra þeirra hjá Glitni og þrem lykilstarfsmönnum hans, vegna skitinna sex milljarða króna. Þetta skaðabótamál mun vera byggt á rannsókn Kroll, sem aðstoðað hefur við að rannsaka bókhald bankans, mánuðum saman.
Þessir sex milljarðar eru náttúrlega smáupphæð, í samanburði við þá heildarupphæð sem tapast hefur vegna viðskipta bankakerfisins við Bónusfeðga, Pálma, Bjögga, S-hópinn o.fl., og verður sjálfsagt útskýrt af þeim félögum sem ofsóknir á hendur sér, eins og öll önnur mál á hendur þeim hafa verið afgreidd af þeirra hálfu.
Jón Ásgeir hefur verið óþreytandi í útskýringum á þeim ofsóknum sem hann hefur sætt af hálfu Davíðs Oddssonar til fjölda ára og nú hafa fleiri ofsækjendur bæst í hópinn, bæði innlendir og erlendir. Einnig hefur Pálmi í Iceland Express lýst yfir mikilli iðrum vegna gjörða sinna og reiknaði að sjálfsögðu með, að þar með yrði honum fyrirgefið. Eins er með alla hina, þeir hafa marglýst því fyrir alþjóð, að þeir hafi eingöngu verið að stunda heiðarleg viðskipti, sem að vísu gengu ekki upp, en það var auðvitað ekki þeim að kenna, heldur vondum mönnum sem settu bankana á hausinn.
Þetta einelti gegn þessum stálheiðarlegu og grandvöru mönnum er að verða óþolandi, þ.e.a.s. að þeirra eigin áliti.
![]() |
Skaðabótamál gegn Glitnis-mönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)