27.4.2010 | 21:27
Nornaveiðarnar halda áfram
Um þessar mundir er þjóðfélagið á hvolfi vegna nornaveiða og beinast þær helst að stjórnmálamönnum, enn sem komið er að minnsta kosti. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var knúin til að segja af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og taka sér hlé frá þingstörfum, vegna fyrri starfa og gerða eiginmanns hennar. Þingmenn hafa tekið frí frá þinginu vegna tengsla við bankana fyrir hrun og einstakir þingmenn eru umsetnir á heimilum sínum af nornaveiðurum, sem þykjast geta dæmt æruna af fólki, án nokkurra sannana um lögbrot af hálfu viðkomandi fórnarlambs.
Nýjasta dæmið um þessa sefasýki er brotthvarf Guðrúnar Valdimarsdóttuir, hagfræðings, af lista Framsóknarflokksins í Reykjavík og jafnframt hefur hún sagt sig úr öllum trúnaðarstörfum á vegum hans þ.m.t. formennsku í Félagi framsóknarkvenna í Reykjavík.
Þessa ákvörðun tekur þessi unga og vammlausa kona vegna þess að eiginmaður hennar tók þátt í milljarða plotti fyrir bankahrun og tapaði á því verulegum peningum, ef rétt er skilið. Vegna þessara viðskipta eiginmannsins krafðist fulltrúaráð Framsóknarflokksins þess, að hún segði sig af framboðslistanum fyrir borgarstjórnarkosningarnra í Reykjavík, en þar skipaði hún annað sætið, eftir prófkjör fyrr í vor.
Fróðlegt verður að fylgjast með því hvar blóðþorstinn endar þegar hjarðhegðunin beinist inn á nýja braut, en hún hefur sveiflast frá algerri meðvirkni í efnahagsruglinu fyrir bankahrun, yfir í nánast algerar ofsóknir gegn þeim, sem einhver bein tengsl eða viðskipti áttu við banka- og útrásarruglarana.
Um þessar mundir er vandlifað í þessu ágæta landi.
![]() |
Segir sig af lista Framsóknarflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.4.2010 | 14:55
Slæmt er þeirra óréttlæti, en verra er "réttlætið"
Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefur oft átt góða spretti í málflutningi sínum, síðan hún kom inn á þing, en nýjasta útspil hennar um "réttlætið" er svo yfirgengilet, að hefðu orðin ekki fallið inni á hinu háa Alþingi, hefði ekki nokkrum manni dottið í hug, annað en að hún væri að grínast.
Lilja lét eftirfarandi út úr sér í þingræðunni; Skuldarar hrópa á réttlæti, norrænt réttlæti. Það felst í því að gripið er til almennra aðgerða og svo er skattkerfið notað til að taka frá þeim sem ekki þurfa á aðgerðunum að halda.
Eins og ástandið er í efnahagsmálunum í landinu snúast hlutirnir hjá flestum um að fleyta sér frá degi til dags og þeir eru sárafáir, sem eiga einhvern afgang, a.m.k. sem heitið getur þegar líður að mánaðamótum og næstu útborgun. Þannig er ástandið hjá þeim, sem ekki lentu verst úti í hruninu, en þeir sem tóku erlendu lánin og fóru óvarlega að öðru leyti í lántökum árin fyrir hrun, eru auðvitað í miklum vandræðum og munu margir missa eignir sínar á uppboð og jafnvel verða gjaldþrota.
Margir hafa nýtt sér þau úrræði sem skuldurum hafa staðið til boða og enn fleiri verða að skoða þau mál, áður en uppboðsfrestir renna út og leita allra leiða til að bjarga sér fyrir horn. En að láta sér detta í hug, að þeir sem ekki yfirveðsettu sig fyrir hrun, geti tekið á sig að borga niður lánin fyrir hina, er svo glórulaust, að óskiljanlegt er að nokkrum þingmanni skula detta svona vitleysa í hug.
Og þó, kannski er þess einmitt að vænta að þingmenn VG fái hugdettur, sem ekkert vit er í.
![]() |
Skuldarar hrópa á réttlæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.4.2010 | 13:52
Tíðkast nú hin breiðu spjótin
Mikill slagur virðist vera í uppsiglingu í Blaðamannafélagi Íslands vegna stjórnarkjörs, sem fram á að fara á fimmtudaginn, en Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, býður sig fram til formannsembættis á móti sitjandi formanni, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.
Greinilegt er á öllu, að grunnt hefur verið á því góða, milli formannsins og framkvæmdastjórans í langan tíma og stöðugt rifrildi verið um fjármál félagsins, sem ókunnur hefði getað haldið að væru ekki stórmerkileg eða flókin í eitt- til tvöhundruð manna félagi, jafnvel illskiljanlegt að slíkt smáfélag þyrfti formann, með sex stjórnarmenn með sér, ásamt varamönnum og framkvæmdastjórna, og í ofanálag virðist formaðurinn helst hafa viljað ráða gjaldkera til viðbótar.
Hvað sem því líður, stendur stríð um uppáskrift ársreiknings félagsins fyrir liðið ár og neita fjórir af sjö stjórnarmönnum að undirrita, þrátt fyrir að reikningarnir hafi verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og yfirfarnir af skoðunarmönnum félagsins.
Með neitun á uppáskrift reikninganna er ekki einungis verið að gefa ýmislegt í skyn um vafasama fjármálastjórn framkvæmdastjórans, heldur verið að lýsa vantrausti á löggilta endurskoðendur félagins og skoðunarmenn þess, sem kjörnir eru af félagsmönnum á aðalfundi ár hvert.
Fróðlegt verður að fylgjast með þessum harkalega bardaga og frásögnum félagsmannanna af honum í fjölmiðlum sínum, enda telja þeir sjálfir að þeirra helgasta skylda sé, að uppfræða almenning um hvern þann sóma og ósóma, sem þeir komist á snoðir um.
Þjóðin hlýtur að bíða eftir úrslitunum með öndina í hálsinum.
![]() |
Neita að skrifa undir ársreikninga BÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2010 | 09:06
Ólafur Ragnar er öflugur skaðvaldur
Ólafur Ragnar Grímsson var var aðal-grúppía banka- og útrásarliðsins og þeyttist um allan heim í einlægum stuðningi sínum við þá og þáði marga góða veisluna fyrir, ásamt því sem honum finnst skemmtilegast, en það er að fá að halda uppskrúfaðar ræður á opinberum vettvangi og ekki spillir ef erlendir fjölmiðlar eru á vettvangi, en þá líður honum eins og þriggja ára barni í leikfangabúð.
Þó engin ástæða sé til að reyna sérstaklega að halda því leyndu fyrir umheiminum að hætta sé á Kötlugosi, er heldur engin ástæða til að forseti þjóðarinnar sitji ekki af sér nokkurt tækifæri til að komast í heimspressuna til þess að vara við þeirri stórkostlegu hættu, sem veröldinni sé búin þegar þar að kemur, sem hann útlistar svo vel í fjölmiðlunum að geti orðið á morgun, hinn daginn eða eftir 5, 10 eða fimmtán ár, en þangað til gætu ferðamenn orðið innlyksa á Íslandi, verði þeir svo vitlausir að hætta sér þangað í fríum sínum.
Ólafur Rgagnar er svo sólginn í sviðsljós erlendra fjölmiðla og svo málgefinn að hann má hvergi sjá hljóðnema, hvað þá myndatökuvél, að hann stökkvi ekki til og haldi fjálgar ræður um hvað sem honum dettur í hug og honum dettur alltaf eitthvað í hug, sem kemur hans eigin persónu í sviðsljósið og gerir hana að aðalatriði allra viðtala við hann.
Það þyrfti sérstakur varðmaður að fylgja honum hvert fótmál og varna honum aðgangs að öllum þeim hljóðnemum og myndavélum, sem á vegi hans verða.
Það yrði þjóðinni til mikilla heilla og forða henni frá mörgum skaðanum af forsetans völdum.
![]() |
Tjón þjóðarbúsins stefnir í 10 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)