26.4.2010 | 23:20
Ekki lengur fjárhagslegt vandamál, heldur sálfræðilegt?
Ráðherrarnir tala út og suður um skuldamál heimilanna, annan daginn segir Jóhanna að "fljótlega" verði lögð fram frumvörp sem eigi að veita fleiri og betri úrræði fyrir skuldug heimili, en næsta dag kemur Árni Páll og segir að því miður sé ekki hægt að gera meira, en þegar hafi verið gert.
Fyrir nokkrum dögum sagði Árni Páll í viðtali, að þau úrræði í skuldamálum, sem þegar væru komin til framkvæmda dygðu flestum skuldugum heimilum ágætlega og ef menn vildu ekki notfæra sér þau, þá væri þeim ekki viðbjargandi, því ríkisstjórnin myndi ekki gera meira í þessum málum.
Eftir að Seðlabankinn birti síðustu skýrslu sína um skuldir heimilanna, sagði Árni að góðu fréttirnar væru þær, að erfiðleikarnir væru ekkert meiri hjá fólki, en þeir hefðu verið í Janúar 2008, löngu fyrir hrun og því væri ástandið í raun bara nokkuð gott og ekki þörf á frekari aðstoð við skuldara.
Samkvæmt því sem Árni Páll segir og ekki annað að skilja á Steingrími J. en hann sé samþykkur, þá lenda einungis húseignir þeirra á uppboði í haust, sem ekki vilja nýta sér "skjaldborgina" sem ríkisstjórnin hefur svo rausnalega slegið um heimilin í landinu.
Eftir þessum boðskap ríkisstjórnarinnar er það ekki lengur getuleysi fólks til að ganga frá sínum skuldamálum, heldur viljaleysi og þar með er þetta ekki lengur efnahagslegt vandamál, heldur sálfræðilegt.
Verst að það skuli ekki vera neinn sálfræðingur í ríkisstjórninni.
![]() |
Nauðungaruppboðum ekki frestað frekar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2010 | 15:53
Linnir skattahækkanabrjálæðinu eða ekki?
Þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður í júní í fyrra lofaði ríkisstjórnin því, að fjárlagahallanum yrði náð niður á þrem árum og skyldi 45% af honum fjármagnaður með hækkun skatta og 55% skyldu nást með niðurskurði ríkisútgjalda.
Á árunum 2009 og 2010 hafa skattar verið hækkaðir svo mikið, að samkvæmt loforði stjórnarinnar mun ekki verða hægt að hækka skatta meira á næstu árum, heldur verður að ná halla áranna 2011 - 2013 niður með sparnaði í ríkisrekstrinum. Um þetta hafa aðilar vinnumarkaðarins marg oft gefið yfirlýsingar, þ.e. að allar þær skattahækkanir, sem um hafi verið rætt við gerð stöðugleikasáttmálans séu þegar komnar fram og gott betur.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í sjónvarpsfréttum nýlega, að nú væri unnið að fjárlögum fyrir árið 2011 og þar væri unnið út frá þeirri hugmynd að helmingur hallans á því ári yrði fjármagnaður með enn meiri skattahækkunum og aðeins helmingurinn með sparnaði. Strax við þessa yfirlýsingu var augljóst, að ríkisstjórninni dettur ekki í hug að standa við gerða samninga og það sem verra er, er að almenningur mun ekki þola frekari skattahækkanir á næstu árum. Brjálæðið er orðið nóg í því efni, nú þegar.
Í dag sagði Steingrímur J. á Alþingi, að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvernig halla næsta árs yrði mætt opg sagði engar ákvarðanir hafa verið teknar, s.s. hvort skattar verði hækkaðir frekar.
Það verður að teljast með ólíkindum hvernig ráðherrarnir tala alltaf út og suður og í allar áttir, en engin leið er að vita hver þeirra segir satt og hver ekki.
Líklega vita þeir það ekki einu sinni sjálfir.
![]() |
Stefnir í 100 milljarða kr. halla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)