Ólíkt hefst fjármálaráðherrann að

Þegar erfiðleikar bresta á, þarf oft sannar hetjur til að takast á við vandann, sem aldrei leysist sjálfkrafa, en sumir ýta alltaf vandanum á undan sér eða gefast alveg upp, en aðrir ráðast að vandamálinu og leysa úr því.

Eftirfarandi klausa úr fréttinni lýsir vel viðbrögðum sannrar alþýðuhetju á örlagastundu, þegar brúnni á Markarfljóti var bjargað frá skemmdum vegna flóðsins, sem eldgosið orsakaði, en frásögnin er svona:  "Bændur á svæðinu bera mikið lof á Guðjón Sveinsson gröfumann frá Uxahrygg á Rangárvöllum og segja að hann hafi forðað því að hlaupið olli ekki meira tjóni. Guðjón rauf þrjú skörð í veginn til að auðvelda hlaupinu að komast áfram og létti þannig þrýstingi á brúna.

Þegar Guðjón var að rjúfa skarð númer tvö sá hann að bylgja kom að honum. Hann hélt samt áfram að grafa, en þegar hann leit við sá hann að önnur og enn stærri bylgja var að koma. Þá bakkaði hann vélinni í snarheitum á öruggan stað og hóf að grafa þriðja skarðið í veginn.

Guðjón er núna að moka möl í áveituskarð í um 100 ára gömlum varnargarði við Markarfljót."

Þetta er lýsing á aðdáunarverðum viðbrögðum við aðsteðjandi vanda, en á meðan að á þessu stóð var fjármálaráðherra að álpast um veginn og varð innlyksa milli tveggja flóða, en björgunarmönnum þótti ástæða til að láta hann dúsa þar, en vera heldur til taks til að bjarga einhverju mikilvægara, ef á þyrfti að halda.

Ríkisstjórnin og ráðherrarnir ættu að taka hugsunarhátt og framtakssemi Guðjóns Sveinssonar frá Uxarhrygg til fyrirmyndar í sínum störfum.  Þá er hugsanlegt að einhverntíma tækist að áorka einhverju til uppbyggingar atvinnulífsins í landinu og minnkunar atvinnuleysisins.

Það gerist ekki með því að standa og horfa á vandamálin vaxa á báðar hendur.


mbl.is Gröfumaðurinn bjargaði miklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaeftirlit hvergi nógu mikið - allir sjá það núna

Eftir efnahagshrunið árið 2008 hefur komið í ljós að bankaeftirlit hefur alls staðar verið í lágmarki og tók frekar mið af hagsmunum bankanna sjálfra en viðskiptamanna þeirra.  Mikil umræða hefur verið í Bandaríkjunum um allt of slakt bankaeftirlit, sem ekki hafði yfirsýn yfir það sem var að gerast þar í landi, t.d. vegna húsnæðislánanna, sem að lokum ollu lausafjárþurrð í fjármálakerfinu og ýtti gjaldþrotakeðju bankanna af stað.

Hér á landi hefur Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn legið undir miklum ásökunum um að hafa ekki fylgst nógu vel með innra starfi bankanna, sem þó blésu út, tuttugufalt á fáeinum árum, án þess að hið opinbera kerfi næði að fylgja þeim útblæstri eftir af sinni hálfu, enda treystu þessir aðilar meira og minna á upplýsingar frá bönkunum sjálfum og löggiltum endurskoðendum þeirra.  Ábyrgð þessara löggiltu endurskoðenda er því mikil og viðbúið að fjöldi þeirra muni sæta ákærum fyrir óvönduð vinnubrögð og villandi áritanir á uppgjör bankanna.

Nú stígur Gordon Brown fram og biðst afsökunar á þeim mistökum, að hafa ekki í fjármálaráðherratíð sinni innleitt strangari löggjöf og eftirlit með breskum bönkum, enda hefur breski ríkissjóðurinn þurft að dæla ótrúlegum upphæðum til björgunar bankakerfisins, án þess þó að geta bjargað öllum bresku bönkunum. 

Um þetta segir í fréttinni:  "Sannleikurinn er sá að jafnt á heimsvísu sem og hér í Bretlandi hefðum við átt að auka eftirlitið með bönkunum,“ er haft eftir Brown í breskum fjölmiðlum. Hann segist nú sjá að hann hefði hátt að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki bankanna, en tekur fram að hann hafi lært af reynslunni."

Reynslan hefur verið dýrkeypt í Bretlandi, þeirri aldagömlu banka- og viðskiptamiðstöð, þó þeirra banka- og viðskiptlífi hafi líklega ekki verið stjórnað af eintómum skúrkum, eins og raunin var hérlendis.

Það geta allir lært af þessari reynslu eins og Brown, en fyrir almenning var þetta dýrt nám.


mbl.is Gordon Brown viðurkennir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirgefðu Björgólfur

Björgólfur Thor Björgólfsson biður Íslendinga afsökunar á slakri frammistöðu sinni á árunum fyrir hrun, en á þeim tíma taldi hann sig snjallastan Íslenskra banka- og útrásarbófa, enda á lista yfir ríkustu menn veraldar.

Í grein sinni segir Björgólfur, að eigna og skuldabólan hafi hvergi risið hærra en á Íslandi og hrunið hafi afhjúpað veikleika gjaldmiðilsins og efnahagslífsins.  Síðan segir hann:  "Gallarnir eru svo augljósir og djúpstæðir að dapurlegt er að heyra menn halda því fram að allt sem að þeim sneri hafi verið í allra besta lagi. Ekkert hafi mátt gera betur. Slíkar yfirlýsingar í rústunum miðjum bera vott um sama ábyrgðarleysið og leiddi til hrunsins.“

Með þessum orðum virðist Björgólfur vera að snupra þá ráðherra, þingmenn og opinberu starfsmenn, sem í yfirheyrslum hjá Rannsóknarnefnd Alþingis töldu sig ekki bera ábyrgð á hruninu, en þá vaknar sú spurning hvort afsökunarbeiðni Björgólfs sé einlæg og hvort hann sjái sína eigin ábyrgð í réttu ljósi.

Kjarninn í afsökunarbeiðninni virðist vera þessi:  "Ég bið ykkur afsökunar á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki auðnast að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna. Ég bið ykkur afsökunar.“

Vonandi fyrirgefur Björgólfur Thor, þó þetta verði ekki tekið sem einlæg iðrun og afsökunarbeiðni fyrir hans þátt, sem geranda og stórs ábyrgðaraðila að hruninu sjálfu. 

Hans hlutur var stærri og meiri en eingöngu andvaraleysi.


mbl.is Björgólfur biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband