25.3.2010 | 20:17
Beðið eftir Godot
Niels Redeker, talsmaður hollenska fjármálaráðherrans. segir að Bretar og Hollendingar bíði eftir að Íslendingar komi skríðandi til þeirra og þá muni þeir vera tilbúnir til að lækka örlítið fjárkúgunarkröfur sínar, en þó muni þeir ekki ræða neitt nýtt, aðeins spjalla nánar um kröfuna, sem sett var fram af þeirra hálfu í október s.l.
Alveg virðist hafa farið framhjá þessum kónum, að Íslendingar felldu þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars s.l. með 98,1% atkvæða þeirra sem afstöðu tóku í kosningunni. Þar með var þeim fjárkúgunartexta algerlega rutt út af borðinu af hálfu íslensku þjóðarinnar og ekki kemur einu sinni til álita, að nefna það plagg aftur, hvorki við Breta og Hollendinga eða nokkra aðra, svo sem norðurlöndin og AGS.
Bretar og Hollendingar þurfa ekkert að bíða eftir Íslendingum til viðræðna, enda ekkert til að ræða um. Það sem þeir þurfa að bíða eftir er uppgjör þrotabús Landsbankans, en þaðan mun íslenski tryggingasjóðurinn fá þá peninga sem hann mun nota til að gera upp lágmarkstryggingu Icesave reikninganna.
Bið fjárkúgaranna verður eins og biðin eftir Godot, en eins og menn muna úr leikritinu, kom Godot aldrei.
![]() |
Bíða eftir Íslendingum í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2010 | 15:46
Minni launamunur hérlendis en í "velferðarríkjum" ESB
Áætlað er að 10% þjóðarinnar, eða um 31 þúsund manns, lifi af tekjum sem teljast undir "tekjumörkum", en þau voru 160 þúsund krónur á mánuði á árinu 2009 fyrir einstakling. Telst þetta vera mjög lágt hlutfall í samanburði við önnur lönd, ekki síst ESB lönd, en þar er hlutfallið yfirleitt á bilinu 10-20%.
Þessu hlutfalli verður varla náð mikið neðar á meðan einhver launamunur er á milli manna í landinu, því útreikningurinn er þannig að þeir sem eru með minna en meðaltekjur, teljast alltaf vera undir "tekjumörkum" og því verður sá hluti landsmanna, sem lægst hafa launin, alltaf undir "tekjumörkum".
Útreikningarnir sýna þó, að launamunur er miklu minni hér á landi en í nágrannalöndunum og verður það að teljast nokkuð gott, því sum þeirra státa sig af því að vera mikil jafnréttis- og velferðarríki.
Þetta sýnir líka svart á hvítu, að engin sérstök ástæða er til að keppa að því að komast í ESB klúbbinn, þar sem atvinnuleysi og "tekjumörk" eru viðvarandi meiri en hvort tveggja er hér á landi í einni mestu kreppu sem yfir þjóðina hefur komið.
![]() |
Tíu prósent undir tekjumörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2010 | 10:51
Öfug Keflavíkurganga
Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, og Steingrímur J., aðstoðarmaður Indriða H. Þorlákssonar, skattmanns, munu eiga fund með Dominiq Strauss-Kahn, alræðisherra Íslands og framkvæmdastjóra AGS, á morgun og munu þar grátbiðja herra sinn og drottnara um að drífa nú af endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS og útskýra fyrir honum að þrátt fyrir að Íslendingar hafi algjörlega hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu, að gerast skattaþrælar Breta og Hollendinga næstu áratugi, hafi ekki orðið heimsendir, eins og þeir félagar hafi verið búnir að segja þjóðinni að yrði, ef hún gengist ekki undir fjárkúgunina.
Það sem er þó jafnvel merkilegra við ferðina er, að þeir félagar ætla að ganga á fund fulltrúa bandarískra stjórnvalda og fulltrúa þeirra í stjórn AGS til að reyna að endurheimta vináttu Bandaríkjamanna eftir að Össur og Ólafur Ragnar nánast slitu stjórnmálasambandi við Bandaríkin með því að lítilsvirða fráfarandi sendiherra þeirra svo stórlega fyrir ári síðan, að enginn hefur verið skipaður í staðinn.
Bandaríkjamenn munu örugglega hafa gaman af því, að ræða við Steingrím J. og Indriða H. um Keflavíkurgöngurnar, sem þeir marseruðu í, ár eftir ár, til þess að mótmæla bandaríska hernum á Miðnesheiði og sambandi Íslands við Bandaríkin. Þeir félagar munu þá geta tekið lagið fyrir gestgjafa sína og sungið fyrir þá gömlu baráttusöngvana úr göngunum og öðrum mótmælaaðgerðum þeirra í þá daga.
Þessi betliganga núna er nokkurskonar öfug Keflavíkurganga.
![]() |
Staðfesta fund með Strauss-Kahn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2010 | 05:31
Minnihlutastjórn kyrrstöðu og svika
Öll spjót standa nú á ríkisstjórninni vegna þeirrar kyrrstöðu sem hún stendur fyrir í atvinnulífinu og svika hennar á öllum helstu loforðum sem hún gaf og undirritaði við gerð stöðugleikasáttmálans í júní á síðasta ári og endurnýjaður var í október s.l.
Útgerðarmenn eru æfir vegna svikins loforðs um að skötuselsfrumvarpið færi fyrir sáttanefndina um fiskveiðistjórnunina og samtök launamanna gagnrýna stjórnina fyrir svik hennar í öllum málum, sem hún lofaði vegna atvinnuuppbyggingar.
Nýjasta gagnrýnin kemur frá ASÍ vegna svika um að lögfesta starfsendurmenntunarsjóð, sem var eitt af undirrituðum loforðum stjórnarinnar í stöðugleikasáttmálanum. Það er algjört einsdæmi, að ríkisstjórn standi ekki við gerða samninga við aðila atvinnulífsins, að ekki sé talað um samninga sem tengjast beint við kjarasamninga, en framlenging þeirra var hluti stöðugleikasáttmálans.
Það sem kemur í ljós í þesu máli, er staðfesting á því, sem fram hefur komið æ ofan í æ, en það er að ríkisstjórnin nýtur ekki einu sinni stuðnings eigin flokka á Alþingi og að hún er í raun minnihlutastjórn. Það hefur hún nú staðfest sjálf við fulltrúa ASÍ og er rétt að enda á tilvitnun fréttarinnar í forseta sambandsins og er engu hægt við hana að bæta:
"Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að á fundum sambandsins með stjórnvöldum í vikunni hafi ráðherrar fullyrt að ekki væri meirihluti fyrir slíkri breytingu meðal þingflokka stjórnarflokkanna. Hann segir sambandið ekki sætta sig við að stjórnvöld standi ekki við gerða samninga."
![]() |
ASÍ segist svikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)