24.3.2010 | 16:35
Ekki vel rökstutt álit Talsmanns neytenda
Talsmaður neytenda segir hæpið að niðurfellig hluta af höfðustól skulda sé skattskyldur, þrátt fyrir að í 7. gr. tekjuskattslaga segi að skattleggja skuli sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum. Skattayfirvöld hafa hingað til verið afar hörð á því að skattleggja allt, sem hægt er að skattleggja og dálítið er hæpið að halda því fram að niðurfelling skulda myndi ekki aukna eign hjá þeim, sem slíkrar fyrirgreiðslu nytu.
Talsmaðurinn rökstyður mál sitt, að því er virðist, aðallega með því að við niðurfellingu skulda sé ekki um að ræða "ívilnun eða eignaauka - heldur staðfestingu á rétti neytenda". Þessi "réttur neytenda" hefur hvergi verið staðfestur, eða viðurkenndur í lögum og því vafasamt af talsmanninum, að vekja falskar vonir hjá umbjóðendum sínum, án frekari rökstuðnings.
Fjölmargir bíða og hafa beðið lengi eftir því að vera skornir niður úr skuldasnörunni, sem þeir smeygðu um háls sér á tímum "lánærisins", ekki síst þeir sem voru svo óforsjálir að taka há lán í erlendum gjaldmiðlum, sem hækkuðu mikið í lok "gróðærisins".
Þangað til Talsmaður neytenda bendir á traustari rök fyrir máli sínu, verður að hafa mikla fyrirvara á þessu útspili hans.
![]() |
Niðurfærsla skulda ekki skattskyld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.3.2010 | 13:57
Allt betra en kyrrstaðan
Framsóknarflokkurinn boðar nýjar hugmyndir að þjóðarsátt til að koma brýnustu verkefnum þjóðarbúsins úr þeirri kyrrstöðu og doða sem ríkisstjórnin hefur haldið þjóðfélaginu í, undanfarið ár.
Allar tillögur til að koma hreyfingu á staðnað efnahagslífið eru vel þegnar, en ólíklegt verður að telja að Vinstri grænir fallist á nokkrar hugmyndir sem leitt gætu til aukinnar atvinnusköpunar og minnkunar atvinnuleysis, miðað við þá geysihörðu andstöðu sem flokkurinn hefur rekið gegn hvers konar tilraunum og jafnvel hugmyndum að nýjum atvinnutækifærum.
Fróðlegt verður að sjá tillögur Framsóknarflokksins og vafalaust munu þar leynast ýmis nýtileg ráð, en eins og áður sagði, þá hefur allt slíkt verið barið niður með harðri hendi af VG og sennilega til of mikils ætlast, að sá flokkur fari að vinna að úrlausn brýnustu hagsmunamála.
Á þeim bæ eru hugsjónir sósíalismans metnar hærra en þjóðarhagur.
![]() |
Framsókn boðar þjóðarsátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2010 | 09:04
Er ESB ekki annað en Stór-Þýskaland?
ESB hefur verið lýst sem bræðralagi þjóða, sem vinni saman að settum markmiðum í sátt og samlyndi og þar séu allir jafnir og mál leyst í samvinnu og sátt milli allra bræðralagsþjóðanna. Fram til þessa hafa þó stóru ríkin, Þýskaland, Frakkland, Bretland, Spánn og Ítalía verið jafnari en önnur aðildarríki og þau smærri sætt sig við það, vegna molanna sem hrotið hafa af borðum hinna jafnari.
Nú er hinsvegar að koma berlega í ljós að Þýskaland er orðið jafnast af öllum ríkjum ESB og hin þora ekki annað en sitja og standa eins og Kanslari Þýskalands segir þeim. Þetta kemst upp á yfirborðið núna, þegar Grikkir eru búnir að sigla öllu í strand heima fyrir og evrusambandið þar með komið í mikla hættu, en eins og allir vita er evran arftaki þýska marksins, sem önnur ESB ríki hafa náðasamlegast fengið aðgang að, með ströngum skilyrðum.
Evrusamstarfið er að bresta, vegna efnahagserfiðleika Grikkja og þá er það Kanslari ESB, afsakið Þýskalands, sem tekur af skarið og leggur línurnar, án nokkurs samráðs við sýslur og hreppa, sem undir embættið heyra. Þetta kemur vel í ljós í fréttinni, en þar segir: "Samkvæmt breska blaðinu Financial Times setja stjórnvöld í Berlín það skilyrði fyrir efnahagsaðstoð Evrópusambandsins að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði kallaður til og settar verði harðari kröfur á evrusvæðinu um efnahagsstjórn aðildarríkja."
Þjóðverjar eru að verða ófeimnari við að sýna hver raunverulega stjórnar ESB, enda er klikkt út í féttinni með þessum orðum: "Ljóst má vera að erfitt verður fyrir önnur ríki að andmæla skilyrðum þýskra stjórnvalda fyrir efnahagsaðstoðinni vegna þess að þau myndu bera hitann og þungann af allri efnahagsaðstoð ESB handa Grikkjum."
Þjóðverjar töpuðu seinni heimstyrjöldinni, en hafa nú unnið friðinn.
![]() |
Þrjú skilyrði Þjóðverja fyrir neyðaraðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)