16.3.2010 | 14:51
Er ríkisstjórnin að undirbúa Alþingiskosningar?
Undarlega skjót umskipti hafa orðið í málflutningi stjórnarliða varðandi afskriftir skulda til þess hluta almennings, sem tók há erlend lán í "lánærinu", sem nú eru orðin illviðráðanleg og urðu það strax við gengisfallið á hruntímabilinu á seinni hluta ársins 2008.
Þá strax lagði Framsóknarflokkurinn til 20% flata skuldalækkun til allra og Tryggvi Þór Herbertsson viðraði svipaðar tillögur og Lilja Mósesdóttir lagði til skuldaniðurfellingu með fastri krónutölu, til þess að þeir sem óvarlegast fóru í lántökum og tóku hæstu lánin og væru tekjuháir, fengju sömu krónutölu í niðurfellingu og þeir tekjulágu.
Þingmenn Samfylkingar og VG töldu þessar tillögur algerlega óframkvæmanlegar og að þær væru einungis lýðskrum, sem ekki stæðist neina skoðun. Nú allt í einu, hringsnúast þessir sömu þingmenn, í einu hendingskasti, eins og góðglaður þingmaður orðaði það, og keppast um að krefjast niðurfellinga á skuldum einstaklinga og þá eingöngu þeirra sem keyptu bíla á erlendum lánum og því meiri niðurfellingu, sem meira var bruðlað í bílakaupunum og algerlega óháð tekjum viðkomandi skuldara.
Fremstur í flokki þeirra, sem hringdansinn stíga nú, er Árni Páll Árnason, sem alls ekki hefur mátt heyra minnst á svona hugmyndir fram að þessu, en er nú allt í einu orðinn harðasti talsmaður bílalánaafskriftanna. Sumir halda að þessi harði tónn Árna Páls núna, sé fyrirboði framboðs hans til formennsku í Samfylkingunni, en aðrir halda því fram, að hann óttist einfaldlega niðurstöður skoðanakannana, sem hafa sýnt hrun í fylgi Samfylkingarinnar undanfarna mánuði.
Svo eru enn aðrir sem telja að stjórnin sé komin að fótum fram og segi af sér fljótlega.
það er ekki verri skýring, en hver önnur, á þessum almennu sinnaskiptum stjórnarliða.
![]() |
Bankarnir hafa svigrúm til afskrifta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.3.2010 | 11:07
Fyrsta vikan fer í Davíð Oddson, svo kemur að hinum
Nú styttist í að hin langþráða skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis líti dagsins ljós, en líklega verður hún opinberuð á föstudaginn, eftir leynilegustu upplýsingasöfnun Íslandssögunnar, að ekki sé talað um öryggisgæsluna á meðan á prentun hennar hefur staðið.
Allt þjóðfélagið bíður í ofvæni eftir skýrslunni og um leið og hún kemur út, verður lúsleitað í henni að öllu sem sagt verður um Davíð Oddsson og hans hlutverk í aðdraganda hrunsins, hvort heldur sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Hvað svo sem sagt verður um hans hlut, mun allt þjóðfélagið loga a.m.k. fyrstu vikuna vegna umfjöllunarinnar um hann í skýrslunni og verði sú umsögn ekki í allra svartasta lagi, mun nefndin verða ásökuð um að hlífa honum og hans hluta og munu þá margir telja sig vita miklu betur um allt, sem að honum snýr, en nefndin, sem varið hefur einu og hálfu ári í að rannsaka málið.
Jafnvel þó umsögnin um Davíð verði honum ekki sérlega hliðholl, mun allt snúast um hans þátt, og margir munu verða til þess að segja, að skýrslan væri samt að gera hans hlut of lítinn og sama hvað skýrslan segi, þá sé Davíð slíkt skrímsli, að umfjöllunin sé honum alltaf of hagstæð.
Þegar mesti móðurinn verður runnin af mönnum vegna Davíðs, munu umræður geta hafist af raunsæi um innihald skýrslunnar og raunverulegar orsakir hrunsins og hverjir beri þar mesta ábyrgð, sem auðvitað hljóta að vera banka- og útrásarrugludallarnir, sem hér settu allt á hvolf.
Umræðan um þessa langþráðu skýrslu mun yfirskyggja allt annað, næstu mánuði og ár, enda verður hún hluti Íslendingasagnanna í framtíðinni.
![]() |
Fræðimenn verða á skýrsluvakt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.3.2010 | 09:12
ESB á að bjarga Íslandi, en hver bjargar ESB?
Samfylkingin hefur lofsungið ESB undanfarin ár og boðað það fagnaðarerindi, að allir erfiðleikar Íslendinga hyrfu, eins og dögg fyrir sólu, eingöngu við það eitt, að sækja um aðild að bandalaginu og síðan yrði líið ein sæla eftir að landið hefði formlega verið innlimað sem hreppur í stórríkið.
Undanfarið hafa þó verið að birtast fréttir af því, að einstök lönd innan ESB glími við litlu minni kreppu en Íslendingar, sem þó urðu fyrir algeru kerfishruni, sem virðist, þegar að er gáð, aðeins sett Ísland á svipaðan stall og ESB ríkin eru vön að vera á, þegar til lengri tíma er litið.
Atvinnuleysi er í óþekktum hæðum hérlendis eftir hrunið, en slíkt atvinnuleysi nær þó einungis því að vera svipað og meðaltalsatvinnuleysi ESB landanna, sem virðast líta á það sem eðlilegan hlut, á meðan Íslendingar líta á atvinnuleysi, sem eitt mesta böl, sem yfir þá getur komið.
Þó mikið sé rætt um skuldir hins opinbera hérlendis, eru þær síst meiri en gerist og gengur í löndum ESB, eða eins og fram kemur í fréttum, eru opinberar skuldir Grikkja um 113% af landsframleiðslu, 115% af landsframleiðslu á Ítalíu, 73% í Þýskalandi og nærri 69% í Bretlandi.
Skuldir íslenska ríkisins nema um 78% af landsframleiðslu, þannig að þær eru litlu meiri en í forysturíki ESB, Þýskalandi, en til Þýskalands er alltaf litið sem efnahagsrisans í ESB.
Ef Samfylkingin heldur að ESB geti bjargað einhverju fyrir Ísland, hver skyldi þá að hennar mati eiga að bjarga ESB?
![]() |
Lofa að aðstoða Grikki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)