27.12.2010 | 13:39
Nýjir glæpaflokkar í framboð?
Nýjir stjórnmálaflokkar eru nú farnir að líta dagsins ljós og gera má ráð fyrir að eftir því sem líður á veturinn og næsta ár muni fleiri og fleiri flokkar fæðast, enda segir hjarðmenning dagsins að stjórnmálaflokkur ætti helst ekki að vera skipaður nema einum manni og þannig væri hægt að kjósa alla stjórnmálaflokka landsins í beinni persónukosningu.
Fram til þessa hafa kjósendur stutt þá stjórnmálaflokka sem unnið hafa að þeim skoðunum sem best hafa fallið viðkomandi kjósanda í geð og þeir sem heitar lífshugsjónir hafa haft, hafa gerst félagar í þeim stjórnmálasamtökum sem boða þær lífsskoðanir sem viðkomandi er tilbúinn að berjast fyrir og leggja sitt af mörkum til að afla fleiri fylgjenda meðal þjóðarinnar.
Nú boðar hjarðhugsunin að allir stjórnmálaflokkar séu glæpaflokkar og allir sem þá styðji séu samsekir um glæpaverkin og þeir allra forstokkuðustu séu sendir á þing til að valda þjóðinni öllu því tjóni, sem þeir mögulega geti unnið með dyggri aðstoð þeirra illgjörnu hálfvita, sem studdu þá í þingkosningum.
Það stórmerkilega við kerfið, eins og það hefur verið fram að þessu, er að það er þjóðin sjálf sem velur allt þetta fólk á Alþingi, með a.m.k. tveim kosningaumferðum. Fyrst eru frambjóðendur valdir á lista í prófkjörum eða forvölum og síðan eru listarnir boðnir fram í kosningum, þar sem yfirleitt mæta tæp 90% kjósenda og velja á milli þeirra lista, sem þessir frambjóðendur skipa.
Miðað við umræðurnar núna um stjórnmálaflokkana, þingmennina og stuðningsmenn þeirra, er alveg með ólíkindum hvernig svona skynsöm þjóð eins og Íslendingar segjast vera, skuli ná svo mikilli samstöðu um að kjósa sinn alversta glæpalýð til að stjórna sér og landinu, kosningar eftir kosningar.
![]() |
Segir viðbrögð góð við nýjum flokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)