17.12.2010 | 21:46
Ofmetin Lilja ofmetnast
Lilja Mósesdóttir hefur undanfarna mánuði stundað vinsældapólitík og þóst vilja og geta gert allt fyrir alla og verið óþreytandi við að prédika skilningsleysi flestra annarra stjórnmálamanna á kraftaverkalausnum sínum í efnahagsmálum, en þær ganga flestar út á að hækka skatta ennþá meira en þegar hefur verið gert, finna nýja skattstofna og breikka aðra.
Lilja hefur einnig tekið upp tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslurnar í séreignarlífeyrissjóðina, en munurinn er þó sá að Sjálfstæðismenn ætluðu að lækka tekjuskatta einstaklinga í staðinn, en Lilja vill bæta þessari skattheimtu ofan á allt annað skattahækkunarbrjálæði og draga til baka nánast allan niðurskurð og sparnað í ríkiskerfinu, en hún telur að eyðsluaukning í ríkisrekstrinum sé upplögð leið til að efla hagvöxt og uppgang í þjóðfélaginu.
Þessar hagfræðikenningar Lilju hafa gengið ótrúlega vel ofan í nokkuð stóran hóp fólks, sem keppist við að dásama hana og segja hana vera sannan kraftaverkapólitíkus og að hún ætti með réttu að vera formaður VG og fái hún ekki þann tiltil eigi hún að ganga í Hreyfinguna, sem síðan eigi að koma sér í ríkisstjórn og gera Lilju að forsætisráðherra.
Af öllu þessu ofmati hefur Lilja ofmetnast og er farin að trúa því sjálf, að hún sé sá Messias sem þjóðin þurfi til að koma sér út úr kreppunni og inn í bjarta og glæsilega skattaparadís draumalandsins.
Lýðskrumarar og falsspámenn hafa ekki enst mjög vel í pólitík fram að þessu og ótrúlegt að mikil breyting verði þar á í náinni framtíð.
![]() |
Segist styðja ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
17.12.2010 | 13:29
Enn ein staðfesting á Icesavelyginni
Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir hafa farið fremst í flokki þeirra ráðherra og annarra, sem statt og stöðugt hafa haldið því fram, að Ísland nánast legðist í eyði ef ekki verður gengið að fjárkúgun Breta, Hollendinga og ESB vegna Icesave og að ekkert erlent fjármálafyrirtæki myndi nokkurn tíma framar lána eina einustu krónu til íslenskra fyrirtækja og opinberra aðila.
Þessari dómsdagsspá og þvælu hefur marg oft verið mótmælt á þessu bloggi og því haldið fram, að sjái fjárfestar og fjármálastofnanir vænleg tækifæri hér á landi, sem sýnist vera arðvænleg, þá muni ekki standa á þeim með stofnfé og lánsfjármagn til slíkra framkvæmda hérlendis, alveg eins og í öðrum löndum.
Þessu til sönnunar hafa Marel, Össur og Landsvirkjun nýlega gengið frá stórum lánasamningum erlendis og í dag birtast þær frábæru fréttir að búið sé að skrifa undir samninga milli Mosfessbæjar og Prima Care ehf. vegna lóðar fyrir einkasjúkrahús, sem fyrirtækið mun reisa og reka þar í bæ. Verulega munar um slíkt fyrirtæki, eða eins og kemur fram í fréttinni: "Verkefnið mun skapa 600-1000 ný störf auk 250-300 starfa á byggingartíma og er talið að það muni kosta um 150 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 17 milljörðum íslenskra króna."
Bak við uppbyggingu sjúkrahússins standa íslenskir, bandarískir og evrópskir aðilar og svissneskt fjármálafyrirtæki mun taka að sér að útvega fjármagnið til framkvæmdanna. Nákvæmlega það sama mun gilda um hvert það arðvænlega verkefni, sem hér mun verða ráðist í og það eina sem tefur uppbyggingu gjaldeyrisskapandi framleiðslufyrirtækja er andstaða ríkisstjórnarinnar við erlenda fjárfestingu í landinu og er töfin á uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Suðurnesjum og gagnavera vítt og breitt um landið sönnun þeirrar niðurdrepsstefnu stjórnvalda.
Icesave III verður að hrinda af höndum þjóðarinnar með jafn afgerandi hætti og Icesave I og II og einbeita svo kröftunum að aukinni verðmætasköpun í landinu með áherslu á gjaldeyrisskapandi og -sparandi fyrirtæki.
![]() |
Samið um lóð fyrir einkasjúkrahús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)