"Gjöf" sem þjóðin mun sameinast um að hafna

Gömul speki segir að æ sé gjöf til gjalda og sú "góða gjöf" sem Steingrímur J. er að vonast til að þing og þjóð færi honum og ríkisstjórninni vegna Icesave, mun verða þjóðinni dýrkeypt og það svo, að íslenskir skattgreiðendur munu þurfa að þræla fyrir erlenda húsbændur Steingríms næstu áratugina til að greiða fyrir "gjöfina góðu".

Hins vegar er allt önnur hlið á þessu máli heldur en kostnaðurinn við "gjöfina" en það er fordæmið sem svona "gjöf" skapar, en aðaltilgangur Evrópuhrottanna sem sent hafa þessa fjárkúgunarkröfu á íslenska skattgreiðendur er ekki fyrst og fremst fjárhagslegur, heldur er aðalatriðið að þvinga fram ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda, þrátt fyrir að regluverk ESB geri ekki ráð fyrir slíku.

Mogginn birtir í dag stórfróðlegt og merkilegt viðtal við Martins Wolfs, aðstoðarritstjóra Financial Times, en hann er virtur um allan heim vegna umfjöllunar sinnar um fjármál þjóðríkja undanfarna áratugi, en viðtalið má sjá HÉRNA

Í viðtalinu kemur m.a. þetta fram:

"- "Þú minntist á að þetta skapi hættulegt fordæmi. Hvers vegna?"

Það gæti þýtt að í tilviki annarra svipaðra gjaldþrota í framtíðinni verði skattgreiðendur annarra fullvalda ríkja gerðir ábyrgir fyrir því að borga út sparifjáreigendur hjá stofnunum sem starfa erlendis, mögulega í mjög miklu mæli og það gæti átt við breska ríkið og önnur ríki.  Sú regla að ríkisstjórnir skuli ganga í ábyrgð fyrir skuldir fjármálastofnana sem starfa erlendis virðist mér ótrúlega hættuleg og óheppileg fyrir fjármálakerfið. Það er fordæmið sem ég hef áhyggjur af. Mín skoðun er þessi: Innistæðutryggingasjóði var komið á og hann ætti að vera nægilegur og með fullnægjandi fjármögnun. Ef hann bregst tapa sparifjáreigendur og þeir verða þá að sætta sig við það.""

Það er einmitt þetta atriði sem marg oft hefur verið bent á hérna á þessu bloggi.  Upphæðin sem verið er að reyna að pína íslenska skattgreiðendur skiptir ekki máli, heldur fordæmið sem er verið að gefa með þessari auðvirðilegu uppgjöf fyrir þessum Evrópuribböldum, sem hér ætla að vaða yfir smáþjóð til að setja fordæmi fyrir því að hægt verði að hneppa skattgreiðendur annarra landa í sambærilega þrælavist til greiðslu á glæparekstri bankastofnana álfunnar í framtíðinni.

Besta jólagjöfin, sem þjóðin og þingið getur gefið sjálfum sér, er að alger einhugur og samstaða verði um að hrinda þessari fjárkúgun með jafn eftirminnilegum hætti og gert var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.


mbl.is Góð gjöf að sameinast um málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmi í þingsögunni

Bæði fróðustu og elstu menn muna ekki aðra eins niðurlægingu nokkurs fjármálaráðherra og ríkisstjórnar á Íslandi, eins og gerðist á Alþingi í morgun þegar þrír þingmenn flokks fjármálaráðherrans sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga, ásamt öðrum stjórnarandstæðingum á þingi.

Hefði ríkisstjórnin ekki verið svo "heppin" að Þráinn Bertelsson gekk til liðs við hana fyrir nokkrum mánuðum, þá hefði fjárlagafrumvarpið væntanlega verið afgreitt og samþykkt af minnihluta þingmanna, að því gefnu að allir hinir hefðu setið hjá, eins og raunin varð í dag.  Það er hins vegar lítið annað en sýndarmennska að sitja hjá við svona afgreiðslu, því annað hvort hljóta menn að vera með eða á móti málunum og eiga að taka afstöðu samkvæmt því. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, benti á þá athyglisverðu staðreynd að ekki er gert ráð fyrir einni krónu vegna Icesave í fjárlagafrumvarpinu, þó sami fjármálaráðherra hafi lagt fram frumvarp í gærkvöldi sem gerir ráð fyrir því að greiddir verði 26 milljarðar króna úr ríkisstjóði vegna þrælaskattsins til Breta og Hollendinga. 

Fjármálaráðherra hefur ekki gert grein fyrir þessum mismunandi lagafrumvörpum sínum á sama deginum, þ.e. öðru sem gerir ráð fyrir 26 milljarða þrælaskatti og svo hinu, sem gerir ekki ráð fyrir honum.

Vafalaust stafar þetta af því að Steingrímur J. veit innst inni að Icesave-fjárkúgunin á hendur íslenskum skattgreiðendum verður aldrei samþykkt. 


mbl.is Fjárlagafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubótavinna með svikum og bellibrögðum

Samgönguráðherra boðar vegaframkvæmdir fyrir sex milljarða króna á næstu fjórum árum, sem fjármagnaðar verða með veggjöldum og segir ráðherrann að vegtollarnir séu alger grunnforsenda þess að ráðist verði í framkvæmdirnar, án gjaldanna verði ekkert unnið í vegagerð í nágrenni Reykjavíkur.

Svo langt gengur þetta skattabrjálæði, að áætlað er að íbúar eins af hverfum Reykjavíkur verði skattlagðir um leið og þeir fara út úr hverfinu til að sækja skóla, vinnu eða þjónustu borgarinnar, en lítið er um þjónustuútibú borgarstofnana á Kjalarnesi og meira að segja þarf að sækja nánast alla verslun út fyrir hverfið og því mun þessi skattur verða nokkurs konar ábót á aðra matarskatta fyrir þá sem þarna búa.

Skattleggja á hvern einasta kílómetra á öllum vegum í nágrenni Reykjavíkur um sjö krónur á kílómetra með þeirri röksemd að ekki sé óeðlilegt að þeir sem noti vegina greiði sérstaklega fyrir þá notkun.  Það er í sjálfu sér ekki órökrétt, nema ef ekki væri fyrir þá staðreynd að bifreiðaeigendur leggja fé í vegaframkvæmdir í hvert einasta skipti sem þeir setja eldsneyti á bifreiðar sínar, kaupa dekk undir þær og greiða bifreiðagjöldin, því stór hluti þeirrar skattheimtu allrar á að ganga til nýbygginga vega og viðhalds þeirra.

Með því að "stela" þeim peningum  sem innheimtir eru til vegagerðar með venjulegri skattheimtu í þeim tilgangi og ætla síðan að leggja á nýja vegaskatta er vægast sagt ósvífin aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar og er þó ekki úr háum söðli að detta í þeim efnum hjá þessari ömurlegu ríkisstjórn.

Ögmundur segir að ekkert verði af framkvæmdunum, nema með nýrri skattheimtu.  Landsmenn hljóta að afþakka þessa atvinnubótavinnu, sem fyrirhugað er að fjármagna með tvöfaldri skattheimtu.

Ráðherrum á ekki að líðast að þykjast vera að gera sérstakt átak í atvinnu- og vegamálum með svona svikum og bellibrögðum. 


mbl.is Veggjöld milli hverfa í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband