Gnarr boðar Sovét Reykjavík

Okkar stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði leiðtogi Gnarr boðar nýja gjaldskrárstefnu í borginni sinni, þar sem hann ætlar að taka virkan þátt í því með stjórnendum ríkisins að gera alla þegna borgarinnar jafn fátæka.  

Þessa nýju stefnu kallar leiðtoginn mikli "lauatengistefnu", en hún feslt í því að þeir sem lág laun hafa greiði lítið sem ekkert fyrir þjónustu borgarinnar, en þeir sem hafa há laun borgi svo mikið fyrir sömu þjónustu, að þeirra ráðstöfunartekjur verði ekki meiri og reyndar helst minni en þeirra, sem lágu launin hafa.

"Launatengistefnan" hefur gefið svo góða raun hjá ríkinu, að hvergi í heiminum eru skráðar fleiri einstæðar mæður en á Íslandi, en það stafar auðvitað af því að hjón með börn fá miklu lægri barnabætur en einstæðir foreldrar og alls ekki borgar sig orðið að reyna að hækka ráðstöfunartekjur heimila, því þá eru vaxtabætur umsvifalaust lækkaðar.  Til að falla sem best inn í kerfið reynir fólk að vinna sem mest á svörtu og skilja á pappírunum og skrá heimilisföngin á sitt hvorum staðnum, enda eru allir á góðri leið með að verða jafn fátækir og um leið sérfræðingar í bótakerfinu.

Núna, þegar leiðtoginn stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði, ætlar að endurbæta þetta kerfi ennþá meira en snillingum ríkisins hefur tekist, með því að tengja þjónustu borgarinnar við laun viðskiptavinanna, mun verða afar stutt í að engin millistétt verði eftir í landinu, aðeins samansafn af jafn fátækum einstæðingum af báðum kynjum og algerlega launalausum, fyrir utan bæturnar og það sem hægt verður að krafsa inn á svarta markaðinum.

Þegar svo verður komið mun leiðtoginn stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði fullkomna drauminn um sovétið með því að koma á kerfinu góða:  Hver leggi það af mörkum til þjóðfélagsins sem hann getur og uppskeri eftir þörfum. 

Strax er hægt að byrja að syngja ljóðið góða:  "Sovét Ísland, draumalandið, hvenær kemur þú?" 


mbl.is Gjaldskrár tekjutengdar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingalög í stað Wikileaks

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til endurnýjunar á upplýsingalögum opinberra fyrirtækja og stofnana, þannig að framvegis nái lögin yfir fyrirtæki sem eru a.m.k. eru að þrem fjórðu hlutum í eigu hins opinbera.  Mun upplýsingaskyldan því ná til fyrirtækja eins og opinberu orkufyrtirtækjanna, en af einhverjum ástæðum eiga lögin ekki að ná til allra fyrirtækja og stofnana.

Lögin eiga ekki að ná til Ríkisútvarpsins, skóla, bókasafna, skjalasafna, rannsóknastofnana og ekki heldurl menningarstofnana.  Einnig er tekið fram að breytingarnar á lögunum feli ekki í sér að allar upplýsingar verði sjálfkrafa aðgengilegar almenningi.  Áfram verður byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings.   Að langstærstum hluta verða takmarkanir á upplýsingarétti almennings óbreyttar frá gildandi lögum. 

Að mörgu leyti eru þetta jákvæðar breytingar sem boðaðar eru á upplýsingalögunum, en þó ganga þær allt of skammt og fjöldi stofnana og fyrirtækja verða áfram lokaðar hvað upplýsingagjöf varðar og er það algerlega óviðunandi.

Í lýðræðisríkjum á öll stjórnsýsla að vera eins opin og mögulegt er, nánast ekkert annað en öryggismál og annað slíkt ætti að vera sveipað einhverjum leyndarhjúp, en þó ekki svo miklum að mögulegt sé að vinna einhver myrkraverk í skjóli leyndarinnar.  Vegna slíkra mála ætti að setja á stofn sérstaka eftirlitsnefnd, sem hefði það hlutverk að sjá til þess að öll slík atriði séu innan laga og reglna.

Með opnari og bættri stjórnsýslu lýðræðisríkja og aflagningu óþarfa leyndar verður almenningur landanna vel upplýstur um gang mála, án þess að upplýsingaþjófar og samverkamenn þeirra, eins og Wikileaks, vaði uppi og brjótist inn í tölvukerfi fyrirtækja, stofnana og ríkja og steli jafnvel upplýsingum, sem viðkvæmar eru, t.d. vegna öryggissjónarmiða eða samkeppnismála.


mbl.is Upplýsingalög ná til ohf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrar Bónusblekkingar

Endalaust er flett ofan af glæpastarfsemi í viðskiptum hér á landi og er nýjasta dæmið um svindl Haga á verðmerkingum kjötvara í verslunum Bónuss, Hagkaups og 10/11 í samstarfi við ýmsa kjötheildsala.  Þegar upp komst um svindlið og rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst á því "gáfu kjötsalarnir sig fram" við eftirlitið í þeim tilgangi að bjóðast til að leysa frá skjóðunni, gegn vægari viðurlögum en ella hefðu orðið.

Þrátt fyrir samninga um umtalsverða lækkun á sektum munu fyrirtækin samt greiða 405 milljónir króna í sektir vegna brota sinna, en þetta eru Hagar vegna Bónuss, Hagkaups og 10/11, Kjarnafæði, Kjötbankinn, Kjötafurða-stöðvar KS,  Norðlenska, Reykjagarður og Sláturfélag Suðurlands.  Kjötbankinn greiddi að vísu enga sekt og telst því ekki með í sektarupphæðinni, þar sem hann er orðinn gjaldþrota og ekki náðist niðurstaða um samninga sektar vegna Síldar og fisks og Matfugls, þannig að endanleg niðurstaða um heildarsektina er ekki ljós.

Þegar tvö síðast nefndu fyrirtækin hafa fengið á sig sína sekt, má reikna með að heildargreiðslur fyrirtækjanna vegna lögbrota sinna verðu um hálfur milljarður króna, sem þó er verulega miklu lægri upphæð en sektirnar hefðu orðið ef fyrirtækin hefðu ekki iðrast gjörða sinna í sparnaðarskyni.  Þetta sýnir einni hversu alvarlegum augum Samkeppniseftirlitið hefur litið  þessa glæpastarfsemi og þann skaða sem Hagar f.h. Bónuss, Hagkaupa og 10/11 hafa valdið neytendum í gegnum tíðina.

Vonandi verða þær aðgerðir sem gripið verður til í framhaldinu til þess að losa það kverkatak sem Bónusgengið hefur haldið birgjum landsins í undanfarin tuttugu ár og eðlilegt samkeppnisástand fari að ríkja á smásölumarkaðinum hérlendis. 

Sem betur fer hefur Bónusgengið misst eignarhaldið á verslunum sínum og það eitt og sér vekur vonir um heilbrigðari verslunarhætti eftirleiðis.


mbl.is 405 milljónir í sektir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband