Útrásarhugsun í menntaskólarekstri?

Óráðsía, rugl og jafnvel hreinir glæpir virðast hafa teygt sig inn í hing ýmsu skúmaskot þjóðfélagsins á árunum fyrir hrun og er nú komið í ljós að skólastarfið hefur ekki einu sinni sloppið við sukkið og svínaríið.  

Menntaskólinn Hraðbraut virðist hafa gefið upp allt of mikinn fjölda nemenda við skólann og samkvæmt þjónustusamningi við Menntamálaráðuneytið hafa fengið ofgreiddar tugi eða hudruð milljóna króna, sem síðan hafa verið notaðar til að greiða út í arð til eiganda skólans.  Furðulegt er að þessi háttsemi sýnist hafa viðgengist árum saman án þess að ráðuneytismönnum hafi nokkurn tíma dottið í hug að fá nemendafjöldann staðfestann eða að Ríkisendurskoðun skuli aldrei hafa yfirfarið samninginn við skólann og framkvæmd hans.

Menntamálanefnd Alþingis hefur nú loksins tekið málið til skoðunar og óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmdinni og segir í fréttinni m.a:  "Meirihlutinn gagnrýnir að á sama tíma og virkt eftirlit er með því gagnvart opinberum skólum að ríkisframlög fylgi raunverulegum nemendafjölda hafi ráðuneytið vanrækt að fylgja eftir hliðstæðum ákvæðum þjónustusamnings um rekstur umrædds einkaskóla. Telur meiri hlutinn mikilvægt að fullt samræmi sé í eftirfylgni ráðuneytisins með ráðstöfun opinbers fjár í menntakerfinu, hvort sem um opinbera skóla eða einkaskóla er að ræða.    ..................

Meðferð þeirra á fjárframlögum úr ríkissjóði verður að teljast sérstaklega ámælisverð þegar höfð er hliðsjón af arðgreiðslum sem byggðust á vafasömum forsendum, lánveitingum til eigenda í andstöðu við ákvæði þjónustusamnings og ítrekuðum ofgreiðslum fjármuna sem ekki voru endurgreiddar í ríkissjóð."

Sé það rétt að um ofgreiðslur hafi verið að ræða til skólans á að sjálfsögðu að innheimta þær til baka og hafi verið greiddur út arður vegna hagnaðar sem myndaðist vegna falsaðra pappíra um fjölda nemenda skólans á að sjálfsögðu að kæra slíkt umsvifalaust til Ríkislögreglustjóra, sem þá myndi væntanlega setja sakamálarannsókn í gang á grundvelli slíkra upplýsinga.

Svind og þjófnað á ekki að líða neins staðar í kerfinu.  Hvorki bankakerfinu né menntakerfinu. 


mbl.is Vilja úttekt á einkareknum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarmeirihlutinn er í þjóðarminnihluta

Vefsíða Financial Times, hins virta breska fjármálablaðs, birtir grein þar sem viðurkennt er að Íslendingar verði skattaþrælar Breta og Hollendinga næstu áratugina ef það ótrúlega myndi gerast að Íslendingar sjálfir samþykki að gangast undir slíka ánauð.  Auðvitað mun þjóðin aldrei samþykkja sjálfviljug að gangast þessum yfirgangsþjóðum á hönd sem skattanýlenda vegna fjárkúgunar, sem studd er og unnið öttullega að, af hendi útsendara kúgaranna hér á landi.

Í greininni kemur fram að ríkisábyrgð sé alls ekki á tryggingarsjóðum innistæðueigenda og niðurlag fréttar mbl.is um greinina er svohljóðandi:  "Þar segir jafnframt að niðurstaða Icesave-málsins sé dapurleg, því hún styðji við hugmyndir um ótakmarkaða ríkisábyrgð á rekstri banka: „Í þessu tilfelli er ekki hægt að færa lagaleg rök fyrir slíkri ábyrgð og alls ekki á forsendum sanngirni, því breska eða hollenska ríkið myndi aldrei ábyrgjast innlán í eigu erendra aðila sem jafngiltu nærri þriðjungi þjóðarframleiðslu, myndi einn af stærri bönkum þar í landi falla,“ segir leiðarahöfundur Financial Times."

Engin þjóð á vesturlöndum myndi láta kúga sig til að undirrita samþykki við öðrum eins fjárkúgunum og hér er verið að beina að Íslendingum og engin ríkisstjórn með sjálfsvirðingu myndi láta sér detta í hug að vinna þannig gegn hagsmunum sinnar eigin þjóðar og ættjarðar.

Því miður er þó ein ríkisstjórn á vesturlöndum sem gerir nú atlögu að þjóð sinni í þriðja sinn í þágu erlendra yfirgangsseggja.   Þjóðin hefur sýnt áður að hún lætur ekki bjóða sér slíkt og mun vafalaust gera það sama núna.


mbl.is Fangelsi skattgreiðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð endurskoðenda er mikil

Endurskoðunarfyrirtækið PWC hefur sent frá sér athugasemd vegna opinberrar umföllunar um drög að skýrslum rannsóknarfyrirtækjanna Cofisys og Lynx Advokatfirma um að ársreikningar Landsbankans og Glitnis hafi nánast verið falsaðir og bankarnir hafi í raun verið orðnir gjaldþrota á árinu 2007 og verið haldið á floti með blekkingum og svikum eftir það og PWC hafi verið kunnugt um það og jafnvel tekið þátt í fölsunum ársreikninganna.

Ábyrgð endurskoðenda er mikil, því ef þeir "skrifa uppá" ársreikninga fyrirtækja með yfirlýsingu um að uppgjörið gefi rétta mynd af rekstri viðkomandi árs og efnahagsreikningurinn sýni rétta mynd af eigna- og skuldastöðu fyrirtækisins eða bankans, þá er því treyst úti í þjóðfélaginu og hjá viðskiptamönnum að óhætt sé að treysta þeim upplýsingum, sem fram koma í ársskýrslunni. 

Ef einbeittur ásetningur er til þess innan einhvers fyrirtækis að blekkja endurskoðendur, er það sjálfsagt hægt, en í eins stórum fyrirtækjum og bankarnir voru, hlýtur að hafa þurft svo gífurlegan fjölda starfsmanna til að sammælast um slíkt, að það hafi nánast verið útilokað að endurskoðendur sæju það ekki í skoðunum sínum á rekstrinum.  Annað getur verið uppi á teningnum við mat á eignum og gæðum útlána, en sjálfsagt hefur verið erfiðara fyrir endurskoðendurna að staðreyna þær upplýsingar, sem eigendur og stjórnendur bankanna hafa lagt fram þar að lútandi.

Verði niðurstaða rannsókna Sérstaks saksóknara og annarra rannsóknaraðila sú, að bankarnir hafi verið reknir með fölsunum og svikum árum saman er óhætt að fullyrða að PWC sé í vondum málum og traust á fyrirtækinu verði verulega laskað, svo vægt sé að orði komist.

Svo er eftir að svara því, hvernig hægt var að ræna bankana innanfrá, smátt og smátt, árum saman án þess að endurskoðendurnir yrðu nokkurs varir. 

 


mbl.is PwC: Ábyrgðin hjá stjórnendum bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband