Rannsaka skal það augljósa

Þar sem allt er rólegt á Alþingi þessa dagana og engin brýn mál að fást við, hafa 29 þingmenn sameinast um tillögu þess efnis að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka hvers vegna Ísland var á lista hinna staðföstu þjóða, þegar ráðist var inn í Írak árið 2003.  Þar sem liðin eru heil sjö ár frá þessum atburðum, er algerlega bráðnauðsynlegt að setja rannsóknarnefnd í þetta mál, helst stóra nefnd með nokkrum starfsmönnum, því mikið liggur við, þar sem skammtímaminni fólks er afar slakt, eins og allir muna vonandi og því þýðir ekkert að slá slöku við í svona stórmálum.

Samkvæmt tillögunni á nefndin að fá afhenta pappíra úr Utanríkisráðuneytinu og heimild til að tala við hvern þann, sem nefndarmenn myndu yfirleitt nenna að tala við og þar sem ekkert kemur fram um það, hvenær nefndin ætti að skila niðurstöðum, getur hún verið á kjaftasnakki við kunningja sína næstu árin, enda verður væntanlega sæmilega borgað fyrir svona merkilegar rannsóknir.

Hefðu þessir þingmenn viljað spara tíma, hefðu þeir getað óskað eftir því að Utanríkisráðuneytið sendi ljósrit af gögnum sínum til Utanríkismálanefndar og hún hefði svo getað fengið Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson í kaffispjall og málið hefði upplýstst umsvifalaust.  Það hefði hins vegar ekki skapað nein nefndarstörf, en eins og allir vita á eina atvinnuuppbyggingin í þjóðfélaginu núna sér stað í nefndarskipunum um hin og þessi málefni.

Enn einu sinni sannast að ef þarf að velja milli tveggja, eða fleiri, kosta hjá hinu opinbera, þá bregst ekki að sá tímafrekasti, vitlausasti og óþarfasti er alltaf valinn.


mbl.is Vilja rannsaka ákvörðun um stuðning við Íraksstríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk hvatt til sjálfshjálpar af Velferðarráði Reykjavíkur

Félagsmálayfirvöld kvarta sáran þessa dagana vegna þess að þörf nokkurs hóps fólks fyrir aðstoð til að framfleyta sér, er sýnileg vegna biðraðanna sem myndast við hjálparmiðstöðvar þar sem sjálfboðaliðar útdeila matvælum og öðrum nauðsynjum, sem einstaklingar og fyrirtæki gefa í þessum tilgangi af örlæti sínu.

Ríki og sveitarfélög hafa þá skyldu að sjá til þess að enginn eigi að þurfa að þola hungur eða vera án húsaskjóls vegna fátæktar, en hafa aldrei staðið við þá skyldu sína og núna, þegar tímarnir eru sérstaklega erfiðir vegna mestu kreppu lýðveldistímans, er frekar dregið úr framlögum til félagsmála, heldur en að aukið sé við þá aðstoð sem nauðsynleg er.  Fólk bíður ekki í biðröðum í kulda og trekki eftir mataraðstoð, nema önnur ráð séu ekki tiltæk og geta ástæður verið margar, t.d. sjúkdómar, atvinnuleysi og skuldavandi.

Frekar en að gera þá eitthvað í vandamálinu, bregðast talsmenn borgarstjórnarmeirihlutans við með því að kvarta yfir starfi sjálfboðaliðanna og finna því allt til foráttu.  Til dæmis lætur Stella K. Víðisdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar,  eftirfarandi frá sér fara:  "Við höfum áhyggjur af þessum röðum, þar sem fólk bíður eftir að fá mat í poka. Ég geri ekki lítið úr þörfinni, en okkur finnst þessi aðferð ekki vera uppbyggjandi. Hún hvetur ekki til sjálfshjálpar."

Hvað gerir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar til að hvetja fólk, sem ekki getur séð sér farborða vegna fjárskorts, til sjálfshjálpar?  Það hlýtur að vera í verkahring þessa ráðs að koma með úrræði til að stytta eða eyða þessum biðröðum.  Bendir það kannski fólkinu á að fara bara og kaupa sér útsæðiskarftöflur og grænmetisfræ og bíða síðan til vors með að setja niður? 

Í menningarbyltingunni í Kína var fólkið sent út í sveitirnar til endurhæfingar og í Kambódíu gerðu Rauðu Khmerarnir það sama, en þar áttu fæstir að vísu afturkvæmt, þó fleiri hefðu lifað endurmenntunina af í Kína. 

Eru hugmyndir meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík um sjálfshjálp þessa fólks ef til vill sóttar í þessar fyrirmyndir?


mbl.is Deila á matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó fyrr hefði verið

Nú eru liðin rúm tvö ár frá bankahruni og ennþá liggur ekki fyrir nein rannsókn á raunverulegri stöðu heimilanna í landinu og hve stór hluti þeirra er í góðum málum, hve stór hluti í greiðsluvandræðum og hverjum verður raunverulega alls ekki bjargað frá gjaldþroti.  Hins vegar er hægt að aðstoða fólk til að komast aftur til sjálfshjálpar eftir gjaldþrot og ættu öll "fyrsta hjálp" að hafa beinst að því ógæfusama fólki í stað þess að hafa eytt þessum tíma nánast öllum í að þrasa um hvernig hjálpa skuli þeim, sem enn komast vel af jafnvel þó þeir þurfi að neita sér um eitthvað, sem látið var eftir sér árið 2007.

Pétur Blöndal, sá góði þingmaður, hefur marg oft bent á nauðsyn þess að kortleggja vandann almennilega og bregðast við honum eftir ákveðnu kerfi, sem legði áherslu á að hjálpa fyrst þeim sem virkilega eru hjálpar þurfi.  Þrátt fyrir ótal ábendingar í þessa átt, hefur ríkisstjórnin ennþá ekki látið vinna neina raunverulega athugun á þessu máli og veit því í raun ekkert hvað þarf að gera, en það á að vísu ekki eingöngu við í þessu efni.

Nú hefur Pétur lagt fram tillögu um að Alþingi einhendi sér í lagasetningu um skynsamleg vinnubrögð varðandi skuldavandann og ekki verður öðru trúað en ríkisstjórnarflokkarnir grípi tillöguna tveim höndum í vanda sínum og hugmyndaleysi til lausnar á honum.

Þó fyrr hefði verið, er það fyrsta sem upp í hugann kemur vegna tillögu Péturs Blöndal.


mbl.is Raunveruleg staða verði könnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband