3.11.2010 | 13:50
Ræfilslegir norðurlandaráðherrar
Á Norðurlandaþingi sem nú stendur yfir hafa utanríkisráðherrar þjóðanna samþykkt að hvetja írönsk stjórnvöld til að fresta aftöku Sakineh Ashtiani, en hún hefur verið dæmt til að grýtast í hel vegna framhjáhalds.
Þegar fólk er grýtt til dauða er það vanalega grafið í sand, þannig að lítið annað en höfuðið stendur upp úr og síðan er það grýtt og líftóran kvalin úr fórnarlambinu á meðan höfuð þess mélast. Þetta er villimannleg aðferð við að lífláta fólk og fáar dauðarefsingar jafn ógeðslegar, þó engar dauðarefsingar eigi nokkurn rétt á sér þó "snyrtilegri" séu. Ofan á annan viðbjóð grýtinganna, þá eru þær aðallega notaðar til að hegna fyrir framhjáhald kvenna, en karlmönnum er ekki refsað fyrir slíkt og hvað þá með lífláti.
Samþykktin á Norðurlandaþinginu var svo aumingjaleg, að ráðherrarnir fóru með henni þess vinsamlegast á leit við írönsk stjórnvöld, að þau frestuðu grjótkastinu en fóru ekki fram á að algerlega yrði hætt við það og dómur konunnar mildaður og yrði í einhverju samhengi við "glæpinn". Þess ber að geta að konan hafði áður verið dæmd fyrir þátttöku í morði eiginmanns síns og fengið fyrir það ævilangan fangelsisdóm, en refsingin við framhjáhaldinu er grýting til dauða.
Þessi ályktun utanríkisráðherranna er ófyrirgefanlega ræfilsleg og löndum þeirra allra til skammar.
![]() |
Hvetja Írana til að fresta aftöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.11.2010 | 11:39
Eymd til margra áratuga?
Ríkisstjórnin hefur marg lýst því yfir að efnahagsbati á Íslandi hafi tekið algerum stakkaskiptum undanfarið og mikill skriður sé kominn á hagvöxt og þessi umskipti séu algert kraftaverk og gagnrýni á verk ríkisstjórnarinnar stafi annað hvort af misskilningi, vanþekkingu eða hreinni illmennsku.
Í Peningamálum seðlabankans eru jafnan gerðar hagspár og þó þær hafi í sjálfu sér ekki verið glæsilegar, hafa þær þó reiknað með batnandi efnahag og hefur hann átt að batna á hverjum ársfjórðungi allt þetta ár, en svo gerist það aldrei vegna hatrammrar baráttu ríkisstjórnarinnar gegn allri atvinnuuppbyggingu, aukningu verðmætasköpunar og minnkun atvinnuleysisins.
Í vaxtalækkunarfréttinni segir m.a: "Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður þróttur innlends efnahagslífs í ár og á næsta ári heldur minni en Seðlabankinn spáði í ágúst." Jafnvel tveggja mánaða gömul efnahagsspá seðlabankans var of bjartsýn og því orðin úrelt, vegna þess ástands sem ríkisstjórnin vill viðhalda og gera verra með öllum ráðum.
"Norræna velferðarstjórnin" er helsta böl þjóðarinnar um þessar mundir og er þá ekki eingöngu átt við efnahagsmálin, heldur drepur hún niður allan þrótt, lífs- og baráttuvilja þjóðarinnar og ef henni tekst það að fullu, verður hér varanleg eymd til margra áratuga.
![]() |
Enn svigrúm til vaxtalækkunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2010 | 09:41
Skuldavandatillögur koma kannski bráðum
Í heilt ár boðaði Árni Páll tillögur vegna gengistryggðra lána "eftir helgi" eða "í næstu viku", þegar búið yrði að "útfæra" tillögurnar nánar. Aldrei komu neinar raunhæfar lausnir frá Árna Páli og sem betur fer fyrir alla er hann nú ekki lengur félagsmálaráðherra og dómstólarnir tóku að sér að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem Árni Páll ætlaði alltaf að leysa "í næstu viku", en gerði aldrei.
Í septembermánuði sagði Árni Páll að sitt fyrsta verk, þegar þing kæmi saman þann 1. október, yrði að leggja fram "heilstætt" frumvarp um hvernig uppgjörum og endurreikningi erlendra og gengistryggðra bíla- og fasteignalána, enda yrði þá búið að "útfæra" tillögurnar. Nú er liðinn rúmur mánuður frá þingsetningu og ekkert frumvarp verið lagt fram af Árna Páli, en kemur væntanlega "eftir helgi" eða a.m.k. "í næstu viku", þegar "útfærslu" tillagnanna lýkur.
Þann 1. október flutti Jóhanna Sigurðardóttir stefnuræðu sína á Alþingi undir dynjandi tunnuslætti og eggjakasti, sem hafði þau hræðsluáhrif á hana að hún boðaði frumvarp "strax eftir helgi" um skuldavanda heimilanna og þar yrði lögð áhersla á flata niðurfellingu allra húsnæðisskulda um a.m.k. 18% eins og Hagsmunasamtök heimilanna hefðu krafist og fannst Jóhönnu ekki nema sjálfsagt að verða við þeirri kröfu um leið og búið yrði að "útfæra tillögurnar".
Jóhanna setti nefnd í málið, eins og venjulega er gert til að svæfa mál og nú rúmum mánuði eftir að "útfærslan" átti að vera tilbúin, boðar formaður nefndarinnar að tillagna hennar sé að vænta á næstu vikum, en getur ekki tímasett það nánar. Þess ber þó að geta, að ný mótmæli með tunnuslætti og tilheyrandi hafa verið boðuð fyrir framan Alþingishúsið á morgun og af því tilefni mun Jóhanna vafalaust endurnýja loforð sín um skuldaniðurfellingar "eftir helgi" eða "í næstu viku" þegar endanlega verði búið að "útfæra" tillögurnar.
Sjálfsagt mun Jóhönnu verða trúað eins og venjulega, enda vita allir hvað Jóhanna er yndisleg manneskja sem vill allt fyrir fólkið gera. Vandamálið er bara það, að hún hefur aldrei getað gert eitt eða neitt, enda ástandið síst betra í þjóðfélaginu núna, en það var eftir hrunið fyrir tveim árum.
Það eina sem gæti bjargað einhverju úr því sem komið er, er að fá nýja ríkisstjórn strax eftir helgi.
![]() |
Sér fyrir endann á vinnunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)