16.11.2010 | 20:05
Jón Ásgeir og Pálmi eru sannir englar
Jón Ásgeir í Bónus segir að Sérstakur saksóknari hafi ekkert við sig að tala, enda snúi engar rannsóknir að sér persónulega. Saksóknarinn lét framkvæma húsleit á skrifstofu Jóns Ásgeirs og á hóteli þeirra hjóan, 101 Hótel, og fyrst þetta snerti Jón Ásgeir ekkert persónulega, þá hlýtur þetta að vera einhver ópersónulegasta sakamálarannsókn, sem sögur fara af.
Einnig var leitað hjá Pálma í Iceland Express og Lárusi Welding, en báðir hafa þeri marglýst því yfir að þeir séu saklausari en nýfædd lömb og aldrei komið nálægt nokkru misjöfnu á ævi sinni og allra síst flóknum fjársvikum, sem útlit er fyrir að rannsóknaraðilar verði mörg ár að rekja og fá botn í.
Þjóðin má þakka fyrir að eiga svona óflekkaða "viðskiptasnillinga", sem hafa haldið öllum sínum viðskiptum á ópersónulegum grunni alla tíð og hafa því ekkert um þau að segja og bera auðvitað ekki nokkra ábyrgð á.
Þessir kappar hugsa eingöngu um það sem snýr að þeim persónulega. Ef fleiri tæku það til fyrirmyndar væri heimurinn betri en hann er.
![]() |
Ekki boðaður til yfirheyrslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2010 | 15:03
Öll lögbrotin í bókinni
Fjöldi mála tengdum banka- og útrásargengjum er til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara og eru þær bæði viðamiklar, flóknar og tímafrekar, þannig að ekki virðist sjást fyrir endann á einni einustu þeirra sem er af stærri gráðunni a.m.k. Bæði Eva Joly og talsmaður Kroll hafa sagt að mörg ár muni taka að rekja slóð þeirra fjármuna, sem gengin stungu undan og í eigin vasa á þeim tíma sem þau höfðu til að tæma bankana innanfrá og hreinsa allt eigið fé út úr öllum helstu fyrirtækjum landsins og margra erlendra að auki.
Fram kemur í tilkynningu Sérstaks saksóknara vegna þeirra húsleita og yfirheyrslna, sem fram hafa farið í dag: Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans, brot á lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um ársreikninga og lögum um bókhald. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum"
Málin sem nú eru rannsökuð tilheyra "viðskiptum" Bónusgengisins og bætast við önnur sem því gengi tilheyra, en nokkur gengi áttu hluta að því að koma auðæfum þjóðarinnar í sína vasa að hluta og öðrum hluta komu þau fyrir kattarnef með "snilligáfu" sinni.
Listinn yfir þau mál sem eru til skoðunar í dag, er þessi samkvæmt tilkynningunni: "Lánveitingar til félagsins Stím hf sem tengdust viðskiptum með hlutabréf í Glitni og FL Group. Lánveitingar til félagsins FS-38 ehf til kaupa á Aurum Holding Ltd. af Fons hf. Lánveitingar til Stoða hf (síðar Landic Properties), Baugs hf og 101 Capital ehf í tengslum við kaup á danska fasteignafélaginu Keops A/S. Kaup fagfjárfestasjóðs GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, á skuldabréfi af Saga Capital en bréfið var útgefið af Stím ehf. Kaup Glitnis á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni.
Þessi svikamylla sem rannsóknin í dag snýr að, virðist samanstanda af a.m.k. tólf fyrirtækjum sem voru í eigu Bónusgengisins og undir stjórn þeirra félaga Jóns Ásgeirs í Bónus og Pálma í Iceland Express, en fyrir í rannsókn er gífurlegur fjöldi fyrirtækja í þeirra félaga, ásamt félögum sem voru undir stjórna Bjöggagengisins, Wernergengisins og fleiri gengja, sem minnið nær ekki yfir í augnablikinu.
Samkvæmt því sem skilja má af þessum rannsóknum, þá hafa gengin ekki verið við eina fjölina felld í "viðskiptum" sínum, heldur hafa þau með mikilli staðfestu stundað brot á öllum lagabálkum, sem löggjafarvaldið hefur sett frá upphafi lagasetninga í landinu.
![]() |
Leitað á 16 stöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2010 | 09:48
Nafn þingmannsins byrjar á stafnum Álfheiður
Þingmaður hefur lagt fram ályktunartillögu á Alþingi um að þingið setji á stofn sérstaka rannsóknarnefnd til að kanna til hlítar hvort þingmaður, eða þingmenn hafi gerst sekir um brot á lögum, með því t.d. að standa í gluggum þinghússisins í búsáhaldabyltingunni og gefa ungliðum Vinstri grænna upplýsingar um staðsetningu lögreglumanna hverju sinni og flóttaleiðir úr Alþingishúsinu, ef innrás ungliðanna myndi heppnast eins og vonast var til, af þeim sem í glugganum stóð og fleirum. Til að setja spennu í rannsóknarstarfið má geta þess að fyrsti stafurinn í nafni gluggabendisins er Álfheiður Ingadóttir.
Alþingi er orðin einhver rannsóknarglaðasta stofnun landsins og skipar hverja rannsóknarnefndina á fætur annarri til að fara yfir og lesa skjöl úr ráðuneytum til að rifja upp hver sagði hvað við hvern og hvenær í aðdraganda allra hugsanlegra ákvarðana, sem teknar hafa verið af ráðuneytum og ráðherrum undanfarin ár, enda minnisleysi þingmanna með eindæmum og þeir muna ekki deginum lengur, um hvað var fjallað í gær og allra síst muna þeir hvaða ákvarðanir voru teknar í hverju máli fyrir sig og allra síst ef meira en tveir dagar eru liðnir frá samþykktunum.
Til þess að gefa öllum öðrum rannsóknarnefndum þingsins góðan tíma til að rannsaka sín mál af kostgæfni og skila hnausþykkum rannsóknarskýrslum um skýrslurnar sem nefndirnar náðu að harka út úr ráðuneytum og lesa, þá er skiladagur þessarar nefndar settur á 1. apríl 2011.
Skiladagurinn, 1. apríl er vel við hæfi og segir ýmislegt um afstöðu flutningsmanns til rannsóknarnefnda þingsins og tilgangsleysis skipana þeirra. Óvitlaust væri að samræma skiladaga allra rannsóknarnefnda þingsins við þessa dagsetningu, enda tilgangur þeirra allra sá sami, þ.e. sýndarmennska og pólitískur keilusláttur.
![]() |
Vill láta rannsaka þátt þingmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)