13.11.2010 | 21:54
Engin lög í næstu viku eða þarnæstu?
Árni Páll hefur nánast í hverri viku í tæpt ár boðað að frumvarp til laga vegna skuldavanda heimilanna verði lagt fram "eftir helgi", þegar búið yrði að "útfæra" tillögurnar nánar. Síðan hefur hver helgin liðið af annarri án þess að frumvarpið hafi séð dagsins ljós, enda mikið mál að "útfæra" tillögurnar.
Öllum að óvörum var boðað nú fyrir helgi, að "eftir helgi" myndi Árni Páll mæla fyrir frumvarpi til laga um jafna meðferð allra gegnisbundinna lána, sem og erlendra lána, þ.e. að öll slík lán, hvernig sem lánapappírar hljóðuðu, skyldu meðhöndlast á sama hátt og þau gengistryggðu bílalán sem dómar hafa fallið um hvernig skuli endurreikna.
Loksins þegar útlit var fyrir að sjá myndi fyrir endann á strögglinu um þessa tegund lána og ágætis frumvarp komið fram, þá sprettur fram úr fylgsni sínu lögfræðingur smælingjanna, Ragnar Aðalsteinsson, og hótar hverri þeirri lánastofnun málsókn og tugmilljarða skaðabótakröfum, sem dirfist að ámálga skaðleysi gagnvart ríkissjóði vegna lagasetningarinnar.
Þar með hefur Ragnar séð til þess að þetta frumvarp verður ekki að lögum "eftir helgi", ekki "í næstu viku" og ekki í þeirri þarnæstu. Líklega verður það aldrei að lögum fyrst þessar málssóknir svífa yfir vötnunum og því munu margir mánuðir líða þar til einhver niðurstaða fæst vegna þessa.
Líklega verður eina leiðin sú, að fara þurfi fyrir dómstóla með hverja einustu gerð lásskjalanna, sem koma við þessa sögu, en vegna mismunandi orðalags þarf líklegast að stefna vegna hverrar einustu tegundar og það mun taka mánuði og ár að fá niðurstöðu í öllu því málaflóði.
Ragnar Aðalsteinsson og kollegar hans í lögfræðingastétt munu fá ærin starfa við öll þau málaferli og þurfa ekki að kvíða verkefnaskorti á næstu árum.
![]() |
Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2010 | 18:23
Klámið getur fært mikla gæfu
Nokkrir kanar í Detroit unnu sem svarar 14,5 milljörðum króna í lottói, en hálfskömmuðust sín fyrir að gefa sig fram og innheimta þennan risavinning, en þó gat einn loks mannað sig upp í að koma fram í dagsljósið, en aðrir í hópnum vildu ekki að nöfn sín væru birt í tengslum við þessa miklu gæfu.
Nafnleyndin stafaði þó ekki af því að þeir væru svo hræddir um að vinir og ættingjar myndu ásækja þá með peningabetli, heldur stafaði hlédrægnin af því að miðinn hafði verið keyptur í klámbúð, sennilega um leið og félagarnir keyptu sér, eða leigðu, klámspólur til að skemmta sér yfir.
Svona getur nú klámið verið til mikillar gæfu. Þeir sem harðast berjast gegn slíku, ættu að hafa þennan fjórtán og hálfa milljarð í huga og að hefði ekki þessarar klámbúðar notið við, hefðu þessir klámáhugamenn misst af þeim lystisemdum sem aurarnir munu færa þeim í framtíðinni.
Fyrir áhugasama má geta þess að klámbúðin er í Highland Park hverfinu í Chicago.
![]() |
Keyptu vinningsmiðann í klámbúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)