Ótrúlegt fylgi ónýtrar ríkisstjórnar

Það sem vekur mesta furðu við niðurstöðu þjóðarpúls Gallups er að ríkisstjórnin skuli njóta stuðnings hátt í þriðjungs þjóðarinnar og gefur þá vísbendingu að þessi hluti þjóðarinnar sé haldinn einhverskonar Masokisma, sem lýsi sér í því að fólkið njóti þess að láta handónýta ríkisstjórn húðstrýkja sig dag eftir dag og mánuð eftir mánuð.

Stjórnin hefur marg sýnt að hún er ekki bara ófær um að leysa nokkurt vandamál, heldur er hún sjálf orðin eitt helsta efnahagsvandamál þjóðarinnar, með baráttu sinni gegn hverju atvinnutækifæri sem mögulega hefði verið hægt að stofna til og berja niður allar tilraunir til aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu.

Það er lítil björg fyrir skuldsett heimili að fá einhverja lækkun á skuldum sínum, ef enginn í fjölskyldunni hefur vinnu og laun til að greiða eftirstöðvar lánanna og ógjaldfærum einstaklingi er lítil huggun í styttri fyrningarfresti, ef hann hefur enga möguleika á að fá vinnu til að vinna sig til sjálfshjálpar á ný og verða virkur þjóðfélagsþegn aftur.

Fylgislaus og handónýt ríkisstjórn á að sjá sóma sinn í að láta af völdum umsvifalaust og láta þeim eftir að leysa úr vandamálum þjóðfélagsins, sem hafa til þess bæði vilja og getu.


mbl.is Fylgi ríkisstjórnarinnar hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins raunhæfar tillögur til úrbóta

Loksins virðast vera komnar fram raunhæfar og heilstæðar tillögur til að bregðast við þeim vanda sem skapaðist í efnahagsmálunum við hrunið 2008 og ríkisstjórnin hefur ekki getað brugðist við á viðunandi hátt og er nú endanlega búin að gefast upp á að leysa og leggur þann litla kraft sem hún hefur til þess að lafa við völd frá degi til dags.

Boðað hefur verið þingsályktunartillaga allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í rúmlega fjörutíu liðum, með aðgerðaráætlun til úrbóta í efnahagsmálunum, atvinnusköpun og vandamálum heimilanna og innihalda þær m.a. að allar skattahækkanir síðustu tveggja ára verði dregnar til baka og skattlagning á inngreiðslum í séreignarlífeyrissjóðina verði tekin upp í staðinn.  Þá er endurnýjuð tillaga flokksins um að gefa öllum skuldurum húsnæðislána að lækka greiðslubyrði þeirra um 50% næstu þrjú ár og skapa fólki þannig færi á að greiða úr sínum málum, án þess að byrja á því að lýsa sig gjaldþrota.

Mestu skiptir þó sú áhersla, sem flokkurinn virðist ætla að leggja á atvinnuuppbyggingu, nýja verðmætasköpun og þar með fjölgun starfa í þjóðfélaginu, því slíkar aðgerðir eru þær einu raunhæfu til þess að koma hagkerfinu upp úr þeim djúpa dal, sem það nú er í og ríkisstjórnin lætur þjóðlífið velkjast bjargarlaust í.  Í fréttinni segir m.a. um tillögurnar í atvinnumálunum:  "Á meðal þess sem talið er til aukning þorskafla um 35 þúsund tonn, fyrirgreiðsla vegna framkvæmda í Helguvík og á Bakka, ráðist verði í arðbær verkefni í samstarfi við lífeyrissjóði og skattkerfinu beitt til að skapa störf og vernda þau sem fyrir eru."

Vonandi verður þessum tillögum tekið betur af ríkisstjórnarflokkunum en gert hefur verið hingað til, þegar stjórnarandstaðan hefur lagt fram skynsamlegar tillögur til úrbóta á þeim vanda sem við er að glíma.

HÉRNA mál lesa aðra frétt af tillögum til uppbyggingar og atvinnusköpunar, en því miður eru engar líkur á því að þeim verði betur tekið af þingmeirihlutanum á Alþingi, en öðrum tillögum í þá veru.


mbl.is Vilja draga skattahækkanir til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þegja eins og kelling

Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, hæddist á grófasta máta að Steingrími J. á fundi í Stapa á fimmtudgainn fyrir að þegja eins og kelling, en eins og allir vita eru kerlingar þekktastar fyrir flest annað en þögnina, eins og sést best af blaðri Oddrýjar G. Harðardóttur, þingkerlingar, í tilefni orða Ásmundar á fundinum.

Þegar karlar kalla aðra karla kellingar er meiningin alls ekki sú að þeir séu eins og kerlingar, heldur þýðir orðið kelling einfaldlega aumingi í munni karlmanns um annan karlmann og karlar heyrast ekki nota þetta orð um kerlingar í sömu merkingu og þeir nota það um karla.  Þetta þurfa kerlingar að fara að skilja og vera ekki svo gjörsamlega blindaðar af pólitískum rétttrúnaði, að ráðast með offorsi að öðru fólki fyrir að notfæra sér hin ýmsu blæbrigði og orð íslenskunnar til að skreyta mál sitt.

Það var alger óþarfi af Ásmundi að vera sú kelling að hlaupa til og biðjast afsökunar á orðavali sínu, eingöngu vegna þess að kerlingar rykju upp til handa og fóta og þættust móðgaðar vegna þess, að því er virðist, að Steingrími J. væri líkt við kerlingu, en það er auðvitað alger misskilningur, þar sem honum var líkt við kellingu, sem er með því versta, sem hægt er að líkja karlmanni við, en engin niðurlæging felst hins vegar í því að vera kallaður kerling og getur hver karlmaður verið fullsæmdur af slíkum samanburði.

Ætli það sé ekki rétt að hætta nú að rausa svona, eins og hver önnur kelling.


mbl.is Ásmundur biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband