Ofsóknir og hefndaræði

Dálkahöfundurinn Christopher Caldwell sem skrifar í The Financial Times hittir naglann algerlega á höfuðið, þegar hann segir að það, að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm einkennist af hefndarþorsta og eftiráspeki pólitískra ofstopamanna.

Hann bendir á það, sem ætti að vera hverjum manni auðskilið, að það allra síðasta sem nokkur ráðherra eða ríkisstjórn má gera, er að gefa í skin að bankakerfi landsins, eða einstakir bankar, standi ekki traustum fótum.  Slík yfirlýsing frá ráðamanni þjóðarinnar myndi umsvifalaust leiða til áhlaups á bankann, eða bankana og valda því að þeir yrðu gjaldþrota samdægurs.

Þar sem pólitískir loddarar á Alþingi og stuðningsmenn þeirra hafa þegar ákveðið að Geir H. Haarde sé sekur um allt sem honum er stefnt fyrir og miklu fleira, þá mun sýkna hans fyrir Landsdómi aldrei verða viðurkennd af þessu blóðþyrsta hatursgengi og hjörðin mun halda áfram að jarma um sekt og útmála dómarana sem ónytjunga og sýnir síðasti dómur Hæstaréttar að ekki þarf nema tvo mánuði til að snúa lofi yfir í bölvun.

Íslendingar hafa alltaf tekið meira mark á útlendingum en löndum sínum.  Vonandi gera þeir það líka í þessu tilfelli.


mbl.is ,,Hefndarþorsti og eftiráspeki"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna viðurkennir getuleysið

Á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í dag viðurkenndi Jóhanna Sigurðardóttir algert getuleysi ríkisstjórnarinnar og uppgjöf hennar við að fást við þau verkefni sem við er að glíma í þjóðfélaginu.  Hún sagði þar m.a:  "En ég er sannfærð um það ef við náum samstöðu með stjórnarandstöðunni, náum góðum samráði með hagsmunasamtökunum og aðilum vinnumarkaðarins þá ættum við að geta unnið okkur út úr þessu." 

Hvers vegna nefnir hún ekki góða samstöðu innan og milli stjórnarflokkanna sjálfra, sem hafa haft meirihluta á þingi síðan í febrúar 2009, en reyndar aldrei sýnt neinar hugmyndir eða getu til að leysa úr þeim vanda, sem heimilin í landinu lentu í vegna stökkbreyttra bíla- og húsnæðislána.

Það sýnir einnig sambands- og skilningsleysið á vandamálunum, að stjórnin skuli ekki skilja ákall almennings um aðgerðir fyrr en stæsti og háværasti mótmælafundur Íslandssögunnar nánast barði kröfur um úrbætur inn í höfuð ráðherranna og stuðningsmanna þeirra.  Engin ríkisstjórn hefur nokkru sinni sýnt jafn lítinn skilning á þörfum þeirrar þjóðar, sem hún hefur tekið að sér að vinna fyrir.

Að vísu sást á sjónvarpsútsendingunni frá þingfundinum að ekki tókst að vekja alla ráðherrana almennilega, þar sem Steingrímur J. virtist sofa vært undir ræðum samþingmanna og hávaðanum sem barst inn í þinghúsið frá Austurvelli.  Ráðherrarnir urðu hins vegar áþreifanlega varir við reiðina, sem að ríkisstjórninni beinist, þegar þeir óku heim á leið frá fundinum, því þá hafði skríllinn sem alltaf laðast að svona útifundum sig gróflega í frammi og sýndi eðli sitt með ofbeldisfullum árásum á þingmenn og ráðherra.

Ríkisstjórnin ætlar nú að biðja stjórnarandstöðuna að koma sér til hjálpar, enda algerlega bjargarlaus vegna vanmáttar og ráðaleysis gagnvart vandanum.  Stjórnarandstaðan ætti að taka þennan beiska kaleik frá ríkisstjórninni og gefa henni algert frí frá störfum.


mbl.is Mikilvægt að ná samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ræður ekkert við bankana

Stór hluti ræðutíma Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri talsmanna Samfylkingarinnar á Alþingi í gærkvöldi fór í það að skammast út í bankana, sem ekki hefðu staðið sig nógu vel í skuldaaðlögun einstaklinga og fyrirtækja, þrátt fyrir tilmæli ríkisstjórnarinnar til þeirra um þau mál.  Var ekki síst bent á Landsbankann, sem væri í eigu ríkisins, þó ríkisstjórnin hefði ekki vald til að gefa honum beinar fyrirskipanir og alls ekki hinum bönkunum, sem væru í einkaeigu.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa fram að þessu gagnrýnt ríkisstjórn Geirs H. Haarde harðlega fyrir það, að hafa ekki nánast tekið stjórn einkabankanna í sínar hendur á árinu 2008 og á þriðjudaginn var stefndu fulltrúar þessara flokka Geir fyrir Landsdóm fyrir að hafa ekki tekið sér fyrir hendur að minnka bankakerfið, koma höfuðstöðvum einkabankanna úr landi og að hafa ekki snarað 300 milljörðum króna úr ríkissjóði til að koma Icesave í lögsögu útibús Landsbankans í London.

Hvernig dettur fólki í hug að gamla ríkisstjórnin hafi getað tekið sér slíkt vald gagnvart einkabönkunum, þegar núverandi ríkisstjórn getur ekki einu sinni haft þau áhrif á stjórnendur ríkisbankans, að þeir fari að vilja og tilmælum Jóhönnu og Steingríms J.

Tvískinnungurinn í þessum málum getur varla verið meiri.


mbl.is Lögin skiluðu ekki árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur setti ríkisstjórnina af

Fólk á öllum aldri, fjölskyldurnar í landinu, setti ríkisstjórnina af í gærkvöldi þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti innihaldslitla stefnuræðu sína á Alþingi í gærkvöldi.  Á Austurvöll safnaðist algerlega nýr hópur mótmælenda, sem ekki hefur verið áberandi á slíkum hópsamkomum fyrr, þ.e. hinn breiði fljöldi millistéttarinnar í landinu, sem nú er búinn að fá algerlega nóg af stjórn-, getu- og hugmyndaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim vandamálum, sem heimilin hafa verið að glíma við undanfarin tvö ár.

Greinilegt var á ráðherrum ríkisstjórnarinnar að þeir eru algerlega sambandslausir við grasrótina í þjóðfélaginu og virtust vera að uppgötva í fyrsta skipti í gærkvöldi þá reiði og óþolinmæði eftir raunhæfum aðgerðum stjórnarinnar, sem kraumar meðal almennings og er nú búinn að fá algerlega nóg og með þeirri gífurlegu þátttöku sem var í mótmælumum, var ríkisstjórnin í raun sett af og nú er það hennar að ákveða hvernig stjórnarskipti munu bera að.

Mótmælin í gærkvöldi fóru að mestu leyti vel fram, en fámennur hópur ofbeldisseggja sækir í svona samkomur til að vinna sín spellvirki og hann var mættur í gærkvöldi í sín hefðbundnu skrílslæti, sem hámarki náðu með svívirðilegum og fólskulegum árásum á þingmenn og ekki síst ráðherrana, þegar þeir óku frá þinghúsinu og mun bíll Steingríms J. hafa orðið verst úti í þeim lífshættulegu árásum þessara ofbeldismanna, sem setja sinn ömurlega svip á hver heiðarlegu mótmælin á fætur öðrum.

Það sem upp úr stendur eftir gærkvöldið er, að ríkisstjórnin er umboðslaus, enda tilkynnti Jóhanna í gærkvöldi að hennar fyrsta verk í dag yrði að leita á náðir stjórnarandstöðunnar eftir hugmyndum til að koma til móts við kröfur fólksins og vegna annarra brýnna verkefna, sem ríkisstjórnin stendur ráðþrota gegn.

Vonandi verður sá fundur til að koma hjólunum til að snúast á ný.


mbl.is Ófriðarbál á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband