Verður kosning til stjórnlagaþings tómt klúður?

Nú er það komið á hreint að 523 einstaklingar gefa kost á sér til setu á stjórnlagaþinginu og þar af eru aðeins um það bil þriðjungurinn konur, sem eftir sem áður eiga að hafa um það bil helming þingfulltrúa.  Það hlýtur að þýða að atkvæði greidd kvenfólkinu gilda helmingi meira en atkvæði greidd karlmönnunum og verður það að teljast einkennilegt jafnrétti, ekki síst þar sem krafan um jöfnun atkvæða vegna Alþingiskosninga verður æ háværari og einnig að landið allt verði gert að einu kjördæmi, einmitt til að tryggja þá jöfnun atkvæða.

Einnig hafa ýmsir sett fram kröfu um að í öllum kosningum fari fram persónukjör og jafnvel að heimilt verði að kjósa fólk af mörgum listum og sumir hafa jafnvel krafist þess að alls ekki verði boðnir fram neinir listar, heldur verði um algera einstaklingskosningu að ræða, með svipuðu eða eins sniði og kosningin til stjórnlagaþingsins mun verða.

Ef kjósendur eyða tíu mínútum að meðaltali til að kynna sér hvern frambjóðanda til stjórnlagaþings og áherslur hans í sambandi við stjórnarskrárbreytingar, mun það taka 87 klukkustundir í allt og verður að telja að tíu mínútna skoðun á frambjóðendum og stefnuskrám þeirra vegna svona mikilvægs máls eins og stjórnarskráin er, sé í raun allt of skammur tími og þyrfti að vera að minnsta kosti helmingi meiri.

Þá væri það fullt starf með átta stunda vinnudegi í heilan mánuð að ákveða sig hverja kjósa skuli í kosningunni og eins að reikna út hvernig atkvæðið nýtist með tilliti til þess ójöfnuðar kynjahlutfallanna, sem í kosningareglunum felast.


mbl.is 523 í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur lúrir á gögnum um Írak, en vill ekkert segja

Mikið hefur verið rætt og ritað um þátttöku Íslands á lista yfir "viljugar þjóðir", þ.e. þær þjóðir sem studdu innrás í Írak á sínum  tíma og hvernig að samþykkt þeirrar þátttöku var staðið á sínum tíma.  Látið hefur verið í það skína, að málið sé svo dularfullt að sérstaka rannsóknarnefnd þurfi að setja í málið og nauðsynlegt að hún hafi nánast saksóknaraumboð, enda látið eins og málið sé svo dularfullt og gruggugt, að það geti jafnvel talist landráð.

Nú allt í einu upplýsir Össur Skarphéðinsson að til séu heilmiklar skriflegar upplýsingar í Utanríkisráðuneytinu um aðdraganda málsins, eða eins og haft er eftir honum í fréttinni: 

"Það kæmi hins vegar á óvart, að meira væri til af upplýsingum en áður hefði verið talið og þær vörpuðu ljósi á það hvernig ákvörðunin hefði verið tekin og hvaða hagsmunir lágu til grundvallar. Einnig væri ljóst að ákvörðunin hefði ekki verið tekin með lýðræðislegum hætti.

Þá sagði Össur, að samtöl hefðu farið fram á milli bandarískra og íslenskra embættismanna í aðdraganda þessarar ákvörðunar.  „Það var auðvitað ljóst að Bandaríkin sóttu mjög fast að fá Ísland á þennan lista," sagði Össur."

Er Össur virkilega að gefa í skyn að hann og aðrir hafi haldið að ákvörðunin hafi verið tekin án alls samráðs við Bandaríkjamenn og íslensku ráðherrarnin hafi bara samþykkt viljayfirlýsinguna að fyrrabragði og Könunum algerlega að óvörum?  Kemur virkilega á óvart að til séu skrifleg gögn í ráðuneytinu um samskipti þjóðanna vegna þessa?  Eru engin skrifleg gögn til um það sem Össur hefur verið að gera í ráðuneytinu frá því að hann tók við embætti utanríkisráðherra.

Allt þetta þarf Össur að upplýsa um leið og hann upplýsir hvað þessi skriflegu gögn frá fyrri tíð innihalda, hvaða samtöl áttu sér stað milli embættismanna þjóðanna og hvaða hagsmunir lágu til grundvallar ákvörðuninni.  Það myndi væntanlega spara heila rannsóknarnefnd, fyrst Össur liggur á öllum gögnum um málið.

Össur hefur þegar upplýst að gögnin séu til og nú kemst hann ekki hjá því að upplýsa um innihaldið.


mbl.is Lögðu áherslu á að Ísland styddi hernað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr? Hverjum er ekki orðið sama?

Mogginn vitnar í dag í skrif Jóns Gnarrs frá árinu 2005 um kristinfræðslu í skólum, sem honum þótti þá jafn sjálfsögð og að fólk ástundaði heilbrigt mataræði.  Fyrir þessum fimm árum sagðist þessi núverandi óhæfi borgarstjóri ekki skilja hver gæti sett sig upp á móti kristinfræðikennslu í skólum.

Fimm árum síðar er það sá sami Jón Gnarr og fylgifiskar hans, sem leggja fram tillögu um að gera allt sem minnir á kristna trú útlæga úr skólum borgarinnar og er það gert undir yfirskini hlutleysis gagnvart trúarbrögðum, en er ekkert annað en árás á menningararf þjóðarinnar og þau siðferðilegu viðhorf sem sjálft þjóðfélagið er grundvallað á.

Jón Gnarr gaf sig út fyrir að vera kaþólskan í nokkur ár og tók þá meðal annars að sér að reka bókaverslun safnaðarins, en sagði svo í sjónvarpsviðtali eftirá að þetta hefði allt verið í gamni gert og fyrst og fremst verið gagnöflun fyrir handrit að skemmtiefni.  Svipað lét hann út úr sér í þætti á Stöð 2 fyrir skemmstu, þegar hann sagðist nú þegar vera kominn með efni í heilan skemmtiþátt eftir aðeins þriggja mánaða veru í "starfi" borgarstjóra og sagðist vonast til að verða kominn með efni í heila "seríu" að kjörtímabilinu loknu.

Nú hefur hann komið mestu af starfsskyldum borgarstjóraembættisins yfir á "varaborgarstjórann" og hefur því nú nánast allan "vinnudaginn" til þess að semja handrit að gamanseríunni sinni, sem hann ætlar að vinna til sýninga að loknu kjörtímabilinu, enda reiknar hann ekki með endurkjöri, frekar en að nokkrum öðrum detti slík firra í hug.

Er ekki annars öllum orðið sama um Jón Gnarr og vitleysurnar sem einkenna öll hans "störf" síðan hann tók við borgarstjóraembættinu, sem hann lætur svo aðra sinna, enda algerlega óhæfur til þess sjálfur?

 


mbl.is Jón Gnarr fylgjandi kristinfræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband