Íhuga að samþykkja sekt og kaupa sig frá rannsóknum

Sunday Telegraph segir frá því, að Sigurður Einarsson og Sigurður Már, fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, séu allra vinsamlegast að hugleiða hvort þeir eigi að samþykkja og greiða sekt, sem breska fjármálaeftirlitið lagði á þá vegna brota á tilkynningaskyldu til eftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið breska hefur ekki viljað staðfesta að rannsókn standi yfir á Singer & Friedlander bankanum, sem Kaupþing átti og rak í Bretlandi, en Sunday Telegraph segir einnig frá öðru stórundarlegu máli, fyrir utan að beðið sé eftir samþykki þeirra kumpána á sektinni, en það er eftirfarandi:  "En stofnunin muni hafa átt í viðræðum við þá Sigurð og Hreiðar Má um að þeir greiði sektina án þess að viðurkenna neina sök og þar með fái þeir friðhelgi gagnvart frekari rannsókn."  Ef minnsti fótur er fyrir þessari fullyrðingu blaðsins er greinilegt að breska eftirlitið ætlar að taka á þeim félögum með silkihönskum og gefa þeim kost á að kaupa sig frá frekari rannsóknum á "viðskiptum" þeirra í Bretlandi.

Það verður að teljast með ólíkindum að hægt sé að kaupa sig frá svika- og glæparannsóknum með þessum hætti í Bretlandi og fréttin ein og sér verður til þess að eyðileggja álit fólks á efnahagsbrotarannsóknum í því landi, a.m.k. rannsóknum fjármálaeftirlitsins.

Ekki verður því trúað, að Sigurður Einarsson hafi náðasamlegast komið til landsins fyrir nokkrum vikum til að reyna að kaupa sig frá frekari rannsóknum hér á landi.


mbl.is Sagðir íhuga tilboð breska fjármálaeftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Asnar dregnir á eyrunum

Hagsmunasamtök heimilanna segjast hafa verið dregin á eyrunum, sem þau lýsa sjálf að séu eins og eyru á ákveðnu dýri, af "getuleysi stjórnkerfi" og hljóta þar að vera aðallega að vísa til Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lofaði flatri niðurfærslu allra húsnæðisskulda í hræðslukasti vegna tunnusláttar mestu mótmæla í Íslandssögunni gegn nokkru stjórnvaldi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sá strax í gegn um blekkingarvefinn og lýsti því strax yfir, að boðaðir fundir um málið væru sýndarmennska og ekki stæði til af hálfu stjórnvalda að gera meira í málefnum skuldugra heimila, en þegar hefði verið gert.  Líklega munu Jóhanna og ríkisstjórnin þó koma fram með lítilvægar breytingar á þegar samþykktum úrræðum, sérstaklega vegna þess hve flókin og seinvirk þau eru.  Einnig mun líklega verða gerð breyting á lögum um innheimtu opinberra gjalda, svo lausn skuldaúrræðanna strandi ekki á innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarfélaga, eins og verið hefur fram að þessu.

Um leið og þær breytingar verða kynntar, mun Jóhanna fara mikinn í ásökunum sínum á alla aðra en ríkisstjórnina og kenna þeim um, að ekki hafi verið farið í flata skuldaniðurfellingu.  Þar mun Sjálfstæðisflokkurinn fá sína gusu, sem og lífeyrissjóðirnir, verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og jafnvel almenningur fyrir skilnings- og samstöðuleysi í erfiðum málum.

Sá reiðilestur gegn öllum nema ríkisstjórninni verður fluttur til að reyna að forða því að tunnurnar verði bornar inn á Austurvöll á ný. 

Spurningin er hins vegar sú, hvort öll þjóðin ætlar að láta draga sig á eyrunum mikið lengur.


mbl.is Hagsmunasamtökin dregin á asnaeyrunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllum orðið sama um stjórnarskrána?

Ein háværasta krafan í "Búsáhaldabyltingunni" var um nýja stjórnarskrá og létu þá ýmsir eins og bankahrunið væri tilkomið vegna einhverra galla á stjórnarskránni og eins átti það að vera bráðnauðsynlegt að breyta henni, ekki síst vegna þess að hún væri orðin svo gömul.

Mikið var rætt og ritað um nauðsynina á nýrri stjórnarskrá og alls kyns athugasemdir við hana settar fram, sem komu stjórnarskránni í sjálfu sér ekkert við og fjöldi tillagna kynntar til breytinga, sem margar hverjar komu stjórnarskránni heldur ekkert við.  Áhugi á stjórnarskrármálefnum virtist vera mjög almennur og "allir" höfðu skoðanir á henni, jafnvel þó þeir hefðu aldrei lesið hana, eða kynnt sér að öðru leyti.

Ríkisstjórnin hljóp eftir kröfum um stjórnlagaþing og nú er komið að því og þá bregður svo við, að enginn áhugi virðist vera lengur á breytingum á stjórnarskránni, lítið sem ekkert er fjallað um málið, fulltrúa á þjóðfund um málið þurfti að dekstra til að mæta og framboð til stjórnlagaþingsins virðast ekki ætla að ná tvö hundruð, þannig að varla koma til með að sitja þar bestu og hæfustu menn þjóðarinnar í stjórnarskrárfræðum.

Tillaga að nýrri stjórnarskrá, sem stjórnlagaþingið mun senda frá sér verður ekki bindandi fyrir Alþingi, þannig að engin ástæða er til að reikna með því, að nokkuð verði gert með niðurstöðuna og þrefið um stjórnarskrána muni halda áfram inni á þingi einhver ár ennþá.

Ef að líkum lætur mun enginn þrýsta á Alþingi að flýta málinu, enda verður almenningsálitið sjálfsagt upptekið af öðrum málum, þegar þar að kemur.


mbl.is Hálfur milljarður í stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband