Mestu mótmæli í sögu þjóðarinnar

Aldrei í Íslandssögunni hefur önnur eins mótmælabylgja riðið yfir landið, eins og gerst hefur á síðustu tíu dögum, en frá mánaðarmótum hefur allt landið logað stafna á milli vegna óánægju þjóðarinnar með þá aumu ríkisstjórn, sem nú situr við völd og gerðir hennar og ekki síst aðgerðarleysi.

Ríkisstjórnin hefur ekki komið með eitt einasta trúverðugt útspil vegna skuldavanda heimilanna, barist með hörku gegn hvers konar uppbyggingu atvinnulífsins og þar með aukið atvinnuleysið og landflóttann, hækkað skatta og álögur á millitekjufólkið upp úr öllu valdi, hótar sama fólkinu skerðingu á fæðingarorlofi, barnabótum og vaxtabótum ofan á aðrar kjaraskerðingar, hótar að leggja niður sjúkrahússþjónustu á landsbyggðinni og rústa þar með öryggi íbúanna og svona mætti lengi telja upp "afrekalista" ráðherranna.

Átta þúsund manns mættu til að mótmæla ríkisstjórninni á Austurvelli við setningu Alþingis þann 1. október s.l. og síðan hefur ríflega sá fjöldi samtals, mótmælt stjórninni hringinn í kringum landið og ekkert lát er á slíkum aðgerðum næstu daga.  Slík óánægju- og mótmælabylgja hefur aldrei farið um landið og aldrei í sögunni hefur verið eins almenn óánægja með nokkra ríkisstjórn.

Ríkisstjórn, sem getur ekki lagt fram neinar tillögur til úrbóta á þeim vandamálum sem við er að glíma í þjóðfélaginu verður að fara frá völdum strax og fela stjórnina fólki sem treystir sér til að leysa úr málunum.

Þar er auðvitað Bjarni Benediktsson líklegastur til að geta leitt þjóðina út úr þessum vanda.


mbl.is „Ofboðsleg skerðing á lífsgæðum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilvera lands og þjóðar er í húfi

Eva Joly hefur verið ötul við að leggja málstað Íslands lið í baráttunni við fjárkúgarana bresku og hollensku vegna Icesave og því betur sem liðsinni hennar er þegið, er hroðalegra að horfa og hlusta á íslenska ráðherra reyna að sannfæra þjóðina um að ganga að kröfum kúgaranna.

Nú síðast var Össur Skarphéðinsson á ferð í Eystrasaltslöndunum og notaði tækifærið til að lýsa yfir uppgjöf sinni gagnvart fjárkúgurunum og allir þekkja baráttu Steingríms J. fyrir málstað hinna erlendu kúgara, sem hann hefur kosið að selja þjóð sína í skattalega ánauð næstu áratugina.

Eva Joly segir, sem rétt er, að sjálf tilvera Íslands sé í húfi vegna þessa glæpsamlega efnahagsstríð gegn íslenskum skattgreiðendum og ábyrgð á þessum Icesavereikningum sé ekki Íslendinga, heldur þeirra lánastofnana, sem gerðu bankakerfinu að blása út, eins og raunin varð, með endalausum austri erlendra lána til þeirra og gistiríkja Icesavereikninganna, sem sjálf áttu að annast eftirlit með þeim.

Eva nefnir að 8.000 manns hafi þegar flutt úr landi vegna ástandsins hér á landi og er sú tala hennar talsvert vanmetin og nokkrar fjölskyldur flytja erlendis í hverjum mánuði, enda virðist það vera skýr vilji Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar að búa svo um hnútana, að engin atvinnuuppbygging verði á landinu á næstu árum og með fjárlagafrumvarpinu er engu líkara en sú stefna hafi verið mótuð að koma sem mestu af heilbrigðisstéttunum úr landi, á sem skemmstum tíma.

Tilvera lands og þjóðar er undir því komin að ríkisstjórnin fari frá strax og ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar taki til starfa og komi þjóðinni upp úr kreppunni með kröftugri uppbyggingu atvinnutækifæra, minnkun atvinnuleysinsins og aðstoð við þá sem eru að missa heimili sín vegna skulda.

Kreppan leysist ekki fyrr en verðmætasköpun eykst og meðfylgjandi verður tekjuaukning einstaklinga, sem með því einu verða færir til að greiða neyslu sína og skuldir. 

Icesave er hins vegar ekki skuld þjóðarinnar og fjárkúgun Breta og Hollendinga verður hrundið, þrátt fyrir samvinnu íslenskra ráðherra við erlend kúgunarríki.


mbl.is Joly: Tilvera Íslands í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn er ræddur og ræddur og ræddur og niðurstaðan engin

Ríkisstjórnin hefur boðað forystumenn stjórnarandstöðunnar á sinn fund í dag til að RÆÐA hugmyndir um almenna niðurfærslu skulda, sem stjórnin hefur fram að þessu sagt að sé gjörsamlega óframkvæmanleg, enda yrði hún geysilega kostnaðarsöm og sá kostnaður myndi að lokum lenda á skattgreiðendum. 

Nú vill ríkisstjórnin ræða hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um almenna niðurfærslu skulda, en í þeim felst að bankar, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir færi niður allar útistandandi skuldir heimilanna a.m.k. um 18%, en kostnaður vegna þess yrði um 220 milljarðar króna og þá eru lán til fyrirtækjanna eftir, en heildarkostnaður við niðurfærslu allra lána er áætlaður um 1000 milljarðar króna.

Þór Saari hefur trú á því, að fundurinn í dag eigi að snúast um að ekki sé hægt að fara í almennar skuldaniðurfærslur og er það ekki ólíklegt.  Ríkisstjórnin er svo ósamstíga og hrædd við gagnrýni almennings, að hún þorir ekki að ítreka fyrri yfirlýsingar sínar um þessi mál og reynir því að fá stjórnarandstöðuna til liðs við sig, þannig að hægt verði að segja að sátt sé innan Alþingis um leið ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna, en sú leið hefur reynst vandrötuð og þung fyrir fæti.

Þrátt fyrir tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um að elli- og örorkulífeyrisþegar lífeyrissjóðanna taki á sig hluta af skuldum yngri kynslóða, verður því varla trúað að skuldarar þiggi slíka niðurgreiðslu á lánum sínum og hljóti að vilja frekar berjast til þrautar sjálfir vegna afborgana af þeim.

Hér skrifar a.m.k. skuldari, sem ekki kærir sig um að elli- og örorkulífeyrisþegar, frekar en skattgreiðendur taki að sér að greiða af hans lánum.


mbl.is Skuldavandi heimilanna ræddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingræði, ráðherraræði eða embættismannaræði?

Hér á landi hefur þróunin verið á þann veg að ríkisstjórnin stjórni Alþingi, en ekki öfugt eins og stjórnarskráin segir fyrir um.  Samkvæmt stjórnarskránni skal Alþingi setja landinu lög og skipa ríkisstjórn til að sjá um verklegu hliðina á lögunum, þ.e. að sjá til þess að embættismennirnir og kerfið í heild framfylgi þeim lögum, sem þingið setur.

Þingmennirnir hafa látið það yfir sig og Alþingi ganga, að verða lítið annað en stimpilpúði á lagafrumvörp sem frá embættismönnum koma í gegn um ráðherrana og sárafá, ef nokkur, þingmannafrumvörp eru samþykkt á Alþingi og alls ekki ef þau koma frá stjórnarandstöðuþingmönnum.

Nú hafa þingmenn allra flokka, annarra en VG, tekið sig saman um að flytja frumvarp til laga um þátttöku ríkissins í kosntanði við hafnargerð í Helguvík, en nokkuð er víst að ríkisstjórnin mun fyrirskipa forseta Alþingis og formönnum nefnda, að tefja frumvarpið og þvæla, svo það muni daga uppi í þinglok og enga afgreiðslu hljóta.  Það yrði mikil niðurlæging fyrir Alþingi og endanleg sönnun þess að hér ríki ráðherraræði en ekki þingræði.

Ef frumvarp, sem flutt er af meirihluta þingmanna, verður kæft og tafið svo lengi að það fáist ekki afgreitt, væri nánast hægt að leggja Alþingi niður og taka hér upp algert embættismannaræði.


mbl.is Ríkið borgi 700 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband