Verkkvíðin ríkisstjórn

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma fram í fjölmiðlum hver af öðrum og stynja yfir því, hvað þeir vinni mikið, verkin séu erfið og hvað þeir séu áhyggjufullir yfir öllu mögulegu, en vegna þessar þreytu, erfiðleika og áhyggja hafa þeir ekki kraft til að koma með lausnir á nokkru einasta máli.

Jóhanna, Steingrímur, Árni Páll og nú síðast Ögmundur hafa gert góða grein fyrir vanmætti sínum gagnvart þeim erfiðleikum, sem þjóðin stendur frammi fyrir og virðast fyrst nú vera að uppgötva að lífið sé ekki tómur leikur, eins og það var á meðan þau voru í stjórnarandstöðu.

Ögmundur, ráðherra og formaður BSRB í leyfi, segir umbjóðendum sínum í heilbrigðiskerfinu að allt sé þetta Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að kenna og vonandi losni hann við sjóðinn sem allra fyrst, svo hann losni við að spara í heilbrigðismálunum.

Til halds og trausts, hefur ríkisstjórnin kallað til vinstrisinnaðan Nóbelsverðlaunahafa, sem tekur undir með þeim að of mikill niðurskurður geti dýpkað kreppuna.  Í viðtali í þættinum Silfri Egils sagði hann hinsvegar að AGS hefði gert miklu betri og sanngjarnari samninga við Ísland, en flest eða öll önnur lönd, þar sem hann hefði komið við sögu.

Nú er svo komið að jafnvel margir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna eru orðnir dauðþreyttir á þessum þreyttu ráðherrum og eru orðnir tilbúnir að veita þeim hvíld frá störfum.

Öðrum verður nánast óglatt af að hlutsta á þetta verkkvíðna fólk. 


mbl.is Með verulegar áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan í föðurlandi ESB

Nú er það svart.  Eini bjargvættur Samfylkingarinnar í efnahagsmálum Íslendinga, þ.e. ESB horfir nú á eftir hverju landinu á eftir öðru sökkva í kreppu.  Allir hafa vitað af bágu efnahagsástandi í Eystrasaltsríkjunum, Rúmeníu, Búlgaríu, Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Póllandi, Ungverjalandi, Austurríki og Írlandi, svo nokkur ESB ríki séu nefnd. 

Nú eru hinsvegar að berast nýjar fréttir frá föðurlandinu sjálfu, Þýskalandi, en það á nú við að etja mestu kreppu, sem þar hefur riðið yfir í 60 ár.  Útlit er fyrir að þýska hagkerfið dragist saman um allt að 6% á þessu ári, en til samanburðar má geta þess að í sjálfu landi hrunsins, Íslandi, er gert ráð fyrir 8-9% samdrætti.

Þegar þýskaland hóstar, veikjast öll lönd ESB, því föðurlandið er stærsta og öflugasta hagkerfi ESB og í raun það sem hefur dregið sambandsvagninn.

Það kemur æ betur í ljós, að björgunarkúturinn fyrir Ísland lekur, og líklega spurning hvort hann verður orðinn alveg vindlaus, þegar Samfylkingunni tekst að véla Ísland út í ESBlaugina.


mbl.is Gert ráð fyrir 5,5-6% samdrætti í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri útgjöld - minni árangur

Útgjöld á Íslandi til menntamála eru hlutfallslega þau mestu innan OECD ríkja, eða eins og fram kemur í fréttinni;  "Á Íslandi fóru 18,1% útgjalda hins opinbera til menntamála árið 2006 en að meðaltali vörðu OECD ríkin 13,3% útgjalda hins opinbera til menntamála."

Á sama tíma og Ísland ver svo stóru hlutfalli af ríkisútgjöldunum til menntamála, kemur landið illa út í öllum samanburði við önnur lönd, þegar árangur skólastarfsins er metinn.  Þessir gífurlegu fjármunir sem í menntamálin fara, umfram önnur OECD ríki, skila sér alls ekki í betri nemendum eða betri námsárangri, reyndar er staðreyndin þveröfug.

Ef hægt væri að ná meðaltalsárangri hinna OECD ríkjanna í menntun námsmanna með sama meðaltali opinberra útgjalda, væri hægt að spara nokkra milljarða á ári í kostnaðinum, án nokkurrar skerðingar í þjónustu.

Þetta hlýtur að verða eitt helsta athugunarefnir í þeim niðurskurði ríkisútgjalda (og skattahækkana) sem framundan er.


mbl.is Ísland ver hlutfallslega mestu til menntamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband