5.9.2009 | 14:30
Norskir innrásarvíkingar
Eftir að "íslenska útrásin" sýndi sig að vera tómt rugl og jafnvel búin til úr glæpsamlegum viðskiptakóngulóarvef krosseigna- og skuldatengsla, aðallega skuldatengsla, treysta Íslendingar engum lengur og allra síst sjálfum sér.
Flestir eru þó sammála um, að nú sé brýnast að efla traust á landinu og efnahagslífinu og til þess þurfi að laða til landsins erlent lánsfé og erlenda fjárfestingu. Erlendar lánastofnanir munu þurfa að afskrifa a.m.k. 6-8 þúsund milljarða króna vegna útrásargarkanna og það mun taka mörg ár að fá þær sömu lánastofnanir til þess að lána einhverjar upphæðir, sem heitið geta, til Íslands eða Íslendinga. Í því samhengi er Icesave málið, smámál, en mun samt verða íslenskum skattgreiðendum ofviða.
Þegar svo kemur að því, að erlendir aðilar eru tilbúnir að fjárfesta hérlendis, er því tekið með mikilli tortryggni og jafnvel óvild, eins og sannast á fjárfestingu Magma Energy í HS orku, þó hver einasti dollari sem inn í landið kemur ætti að vera velkominn.
Hins vegar þegar norskir innrásarvíkingar nema hér land, taka allir þeim fagnandi, þrátt fyrir óvild Norðmanna í Icesave málinu og þátttöku þeirra í efnahagsstríðinu gegn Íslandi, sem mun setja Íslendinga í þrældóm fyrir Breta og Hollendinga næstu áratugi.
Norsku innrásarvíkingarnir ætla aldeilis ekki að taka alla áhættuna á fjárfestingum hérlendis sjálfir, því skilyrði þeirra virðist vera að íslenskir lífeyrissjóðir leggji fram sömu upphæð og þeir og taki þannig sinn hluta áhættunnar. Það eru sem sagt íslenskir lífeyrisþegar, sem eiga að axla sinn hluta ábyrgðarinnar af þessum fjárfestingum.
Spyrjum að leikslokum, áður en við kætumst um of vegna innrásarvíkings frá vores nordiske venner.
Vert er samt sem áður að vona það besta. Allar erlendar fjárfestingar eiga að vera velkomnar, en best væri að lífeyrissjóðirnir héldu sínu upphaflega hlutverki, þ.e. að ávaxta lífeyrir landsmanna á hagkvæman og áhættulítinn hátt, en ekki með þeim hætti, sem þeir hafa gert undanfarin ár.
![]() |
Vilja setja fé í endurreisnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)