Afnám verðbólgunnar fyrst

Flokksráðsfundur VG samþykkti um síðustu helgi ályktun um að verðtrygging lána verði afnumin hið fyrsta.  Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG og hagfræðingur segir að ekki sé hægt að afnema gjaldeyrishöftin, nema verðtrygging innlendra lána verði afnumin fyrst.  Þetta segir hún auðvitað vegna þess að hún reiknar með að krónan falli ennþá meira, a.m.k. tímabundið, verði gjaldeyrishöftin afnumin.

Við slíkar aðstæður myndi verðbólga stíga talsvert og þar með myndu verðtryggð lán hækka samsvarandi.  Lilja veit sem er, að það eina sem kyndir undir verðbólgu nú, eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, bæði þær sem komnar eru til framkvæmda og ekki síður þær sem fyrirhugaðar eru á næstu vikum og mánuðum.

Lilja segir að festa verði vexti í fimm ár á húsnæðislánum á meðan þessi breyting gengur yfir og segir:  "Ég tók húsnæðislán í Svíþjóð upp úr 2000. Þar voru vextir fastir í fimm ár. Gert var ráð fyrir verðbólgu á tímabilinu og samkomulag var gert um hvaða nafnvextir væru ásættanlegir. Þá er áhættunni deilt meira milli lánveitanda og lántakanda."

Þetta er hægt að gera ef efnahagshorfur gera ráð fyrir lítilli verðbólgu til langs tíma.  Hvað heldur Lilja að vextir yrðu á óverðtryggðum lánum í núverandi efnahagsástandi, með þá verðbólgu sem útlit er fyrir að hér verði á næstu mánuðum og árum?  Skyldu þeir verða 15%, 20% eða 25%?

Vinstri grænum væri nær að ráðast að rótum vandans, sem er verðbólgan, en ekki verðtryggingin.


mbl.is Flokksráð VG vill afnám verðtryggingar sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magma virðist happafengur

Á suðurnesjum er eitthvert mesta atvinnuleysi á landinu og þar, eins og annarsstaðar, þarf verulega innspýtingu í atvinnulífið á næstu mánuðum.  Skilningur ríkisstjórnarinnar á því er vægast sagt afar takmarkaður, enda eru ekki í augsýn nokkrar einustu ráðstafanir til þess að efla atvinnulífið, auka atvinnu og þar með auka skatttekjur. 

Einu ráð ríkisstjórnarinnar eru að hækka skatta á þann síminnkandi hluta landsmanna sem ennþá hafa vinnu og reyndar eru óbeinir skattar hækkaði einnig, sem lenda á atvinnulausum, öryrkjum og ellilífeyrisþegum eins og hinum vinnandi.

Í þessu ástandi er ekki annað að sjá, en að Magma Energy sé happafengur fyrir suðurnesin, en aðkoma félagsins að HS orku og væntanleg atvinnuuppbygging í tengslum við hana, er eina lífsmarkið í atvinnumálum, sem sést hefur eftir hrunið í fyrrahaust.

Ríkisforsjár- og skattaforkólfar vinstri grænna og a.m.k. hluti Samfylkingar setja sig auðvitað upp á móti þessu framtaki, eins og flestu öðru, sem til heilla horfir fyrir þjóðina nú um stundir.


mbl.is Velgengni Magma vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt dregst saman - nema samneyslan

Samkvæmt nýjustu upplýsingum Hagstofunnar er samdráttur á öllum sviðum þjóðlífsins, nema einu, en það eru umsvif ríkissjóðs, öðru nafi samneyslan.

Samkvæmt fréttinni frá Hagstofunni, líta tölurnar svona út:  "Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 2% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2009 til 2. ársfjórðungs 2009. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 4,3%. Samneysla jókst um 0,5% en einkaneysla dróst saman um 1,2% og fjárfesting um 2,2%."

Ríkisstjórnin hefur aukið skatta mikið á þessu ári og var réttlætingin sú, að stoppa þyrfti upp í fjárlagagatið, því ekki væri hægt að ná árangri með niðurskurði ríkisútgjalda einum saman.

Nú kemur í ljós, að sparnaður ríkissjóðs hefur ekki verið neinn, heldur þvert á móti.

Ríkið tekur til sín stærri sneið af kökunni en áður, en sparar ekki neitt í rekstrinum.


mbl.is 2% samdráttur á 2. fjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband