Ær og kýr Samfylkingarinnar

Enn hótar Samfylkingin stjórnarslitum, fái hún ekki ESB vilja sínum framgengt.  Þessi ESB þjónkun er enda ær og kýr Samfylkingarinnar.  Fyrir ári síðan hótaði hún að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, ef hann samþykkti ekki inngöngu í ESB og nú, eftir að hafa beygt VG í því efni, er nú hótað að slíta stjórnarsamstarfinu við VG, ef þeir samþykki að borga aðgöngumiðann fullu verði og það strax fyrir helgi.

Hér verður vísað í orð Jóhönnu, meints forsætisráðherra og hrokagikks, sem fram koma í fréttinni:  "Nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir treysti sér til þess að fara með málið fyrir Alþingi í þeim búningi sem þau séu sátt við með fyrirvara um samþykki þingsins."  Svo bætti hún um betur, með því að segja:  "Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir þurfi í þessari viku að ná niðurstöðu um það hvort meirihluti sé fyrir málinu með þessum athugasemdum. Verði gerð breyting á fyrri samþykkt Alþingis verði að fara með málið inn á Alþingi. Ekki sé hægt að fara með málið inn í þing nema vera örugg með meirihluta því ekki sé hægt að treysta á stjórnarandstöðuna.

Svo VG velkist ekki í nokkrum vafa um meininguna, segir hrokagikkurinn:  "Myndi stjórnarflokkarnir ekki meirihluta fyrir málinu þurfi að skoða breytta stöðu."  Ekki getur hótunin um stjórnarslitin verið skýrari.

Annað, sem tengist þessu og uppljóstrar um óheilindi ríkisstjórnarinnar, er að nú segir meintur forsætisráðherra að þrælahaldararnir í Bretlandi og Hollandi sætti sig ekki við þrjá af fyrirvörum Alþingis, en fram að þessu hefur verið haldið fram, að einungis sólarlagsákvæði ábyrgðarinnar stæði í hinum erlendu kúgunarþjóðum.

Það yrði mikil tilbreyting ef ríkisstjórnin færi að segja þjóðinni satt og ekki væri verra, að hún færi að tala fyrir málstað Íslands í erlendum fjölmiðlum, en hrokagikkurinn varð sér til háðungar, með því að lofa herraþjóðunum lagabreytingu vegna fyrirvaranna, í heimasmíðuðu "viðtali" við Bloomberg fréttamiðilinn.

Ef Alþingi samþykkir einhverjar breytingar á fyrirvörunum, mun enginn taka mark á þeirri stofnun framar, hvorki innanlands eða utan.

 


mbl.is Þarf niðurstöðu fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt gert til að tefja fyrir

Eins og við var að búast, gera Vinstri grænir allt sem í þeirra valdi stendur, til að tefja alla þá atvinnuuppbyggingu sem í augsýn eru og reyna að dýpka og lengja efnahagskreppuna eins og þeir mögulega geta.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur nú fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum.  Ráðherrann gerir þetta með skírskotun til þess, að ekki sé búið að ákveða hve mikið verði virkjað á svæðinu í einhverri fjarlægri framtíð.  Framkvæmdaaðilar segja að Suðurlína þurfi að rísa, burtséð frá því, hverjar virkjunarframkvæmdir verði þar í framtíðinni.

Því er fáráðlegt, að ætla að láta meta umhverfisáhrif Suðurlínu í sameiginlegu mati með einhverju, sem rís hugsanlega í framtíðinni.  Það eru tvö alls óskild mál og því verður þessi snúningur ráðherrans eingöngu til að lengja undirbúningstímann og auka kostnað við umhverfismatið.  Á meðan hægist á öllum framkvæmdum í Helguvík og víst er að VG leiðist það ekki.

Með því að lengja og dýpka kreppuna, eykur VG örvæntinguna og óánægjuna í þjóðfélaginu og á því nærist flokkurinn og veit að fylgi flokksins í kosningum miðast við óánægustuðulinn í þjóðfélaginu.


mbl.is Ákvörðun Skipulagsstofnunar felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri og vinstri vasinn

Hugmyndaflug fjárglæframannanna íslensku er ótrúlegt, sérstaklega þegar þeir kaupa af sjálfum sér, en eiga engan pening og þurfa því að fá lánað fyrir kaupverðinu hjá sjálfum sér og semja við sjálfa sig um að endurgreiða sjálfum sér, um leið og þeir geti fengið nýtt lán hjá sjálfum sér.

Karl og Steingrímur Wernerssynir fengu lán hjá fyrirtæki sínu, Moderna Finance AB, til að kaupa Lyf og heilsu af Milestone, sem þeir áttu sjálfir og hljóðaði samningurinn uppá greiðslu við fyrstu hentugleika.  Það var reyndar félag í þeirra eigu sem keypti, en það félag heitir Aurláki, sem verður að teljast nafn með rentu, því það hlýtur að þýða það sama og Drulluláki, sem lýsir starfsemi af þessu tagi býsna vel.

Talsmaður bræðranna segir að níuhundruðmilljóna króna lánið hafi verið greitt til baka, stuttu eftir að það var tekið, þannig að fyrstu hentugleikar brustu á með undraskjótum hætti.

Það skyldi þó aldrei vera, að Aurláki hafi getað fengið lán frá Lyfjum og heilsu, til þess að greiða kaupverð Aurláka á Lyfjum og heilsu, til þess að Aurlákinn hafi getað endurgreitt lánið sem Aurláki fékk frá Moderna Finance AB.

Finnist einhverjum að þessi viðskipti séu flókin, á sá hinn sami að halda sig frá fjárglæfrum.


mbl.is Bræðurnir seldu sjálfum sér Lyf og heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolinmæði Íslendinga á þrotum

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, skaust út úr greni sínu augnablik og veitti íslenskum fréttamanni örstutt viðtal, sem síðan birtist á Bloomberg fréttavefnum.  Það sem Jóhanna sagði í viðtalinu eru engar nýjar fréttir, en hitt er fréttnæmt, að fréttamaðurinn skyldi ná að eiga við hana nokkur orð, þegar hún skaust úr felum og upp á yfirborðið stutta stund.

Jóhanna, sem væntanlega er sjálf afar þolinmóð kona, segir í viðtalinu að Íslendingar séu orðnir óþolinmóðir, eftir endurskoðun lánsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem átti að fara fram í febrúar s.l. og verður það að teljast til stórtíðinda, að hún sé búin að átta sig á þolinmæðisstuðli þjóðarinnar.  Þá fer hún væntanlega að átta sig á því fljótlega, að íslenska þjóðin er algerlega að missa þolinmæðina gagnvart henni sjálfri og ríkisstjórninni í heild.

Fulltrúar þjóðarinnari innan ASí og SA hafa upp á síðkastið lýst þessari óþolinmæði vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum, almenningur hefur sjálfur lýst óþolinmæði vegna hringlandaháttar varðandi skuldamál heimilanna og ekki síður hafa skattgreiðendur lýst óþolinmæði sinni vegna skilningsleysis stjórnarinnar á greiðsluþoli fólksins.

Þolinmæði Jóhönnu sjálfrar lýsir sér vel í þessari setningu, sem eftir henni er höfð:  "Hún væntir formlegs svars frá Hollendingum og Bretum við nýju skilyrðunum innan skamms svo hægt sé að þoka málinu áfram."

Henni liggur ekkert á að ljúka málinu, eingöngu að þoka því áfram.


mbl.is Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband