Fyrirvarar við fyrirvarana?

Í anda opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu, hefur Indriði H. Þorláksson, Icesavesamningasnillingur, kynnt í trúnaði, að hann hafi átt trúnaðarsamtöl við Breta og Hollendinga um fyrirvarana sem Alþingi gerði við snilldarsamning Indriða og Svavars um Icesave.  Í framhaldi af því ætlar Indriði að kynna forystumönnum flokkanna og þingnefndum afstöðu þrælapískaranna, auðvitað í algerum trúnaði.

„Í þessum samtölum hafa komið fram af hálfu Breta og Hollendinga, óformlega og í trúnaði, hugmyndir um hvernig þeir hugsa sér að þeir geti staðið að því að samþykkja fyrirvarana. Það er verið að kynna það fyrir stjórnvöldum hér,“ segir Indriði.

Í samningi Indriða við þrælahöfðingjana kemur fram, að breytingar, sem gerðar verði á samningnum skuli vera skriflegar og undirritaðar af beggja hálfu.  Þannig hljóta Bretar og Hollendingar að eiga að samþykkja fyrirvarana, sem sagt einfaldlega með undirskrift sinni.  Því er einkennilegt að Indriði skuli þurfa að eiga marga leynifundi með þeim um það, hvernig þeir geti staðið að því að samþykkja fyrirvarana.

Varla getur Indriði verið að semja, leynilega, um það, að Bretar og Hollendingar geri leynilega fyrirvara við fyrirvarana.  Auðvitað má eiga von á hverju sem er frá samningasnillingnum.

Einhver hefði getað látið sér detta í hug, að senda annan snilling en Indriða til þessara leynilegu viðræðna, enda vandséð hvernig hann, sem höfundur Icesave þrælasamningsins, gæti verið góður kostur til þess að útskýra fyrir þrælahöfðingjunum, af hverju Alþingi féllst ekki skilyrðislaust á snilldarsamninginn, sem Indriði var óþreytandi að dásama fyrir íslensku þjóðinni.

Án þess að nokkru leyndarmáli sé uppljóstrað, er óhætt að segja að það sé margt skrýtið í kýrhausnum.


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungverjar kaupa hitaveitur á Íslandi.

Ef fyrirsögnin hér að ofan myndi einhvern tíma birtast í íslenskum fjölmiðlum, yrði allt brjálað á Íslandi, bloggheimar færu á hvolf, útifundir yrðu haldnir á Austurvelli og borgarfulltrúar, jafnt sem Alþingismenn væntanlega gerðir útlægir úr landinu.

Þegar Íslendingar fjárfesta í orkuiðnaði erlendis og gengur svo vel, að þeir græða á verkefninu, jafnvel milljarða, þá eru Íslendingar stoltir af sínum mönnum og finnst ekkert sjálfsagðara en þeir eigi og reki hitaveitur um allar heimsins jarðir.  Þegar útlendingar fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði, verður allt vitlaust, af því að hætta er á því að helv....... útlendingarnir séu að því til þess að græða á sauðsvörtum almúganum hérlendis.

Sama gildir í raun um allan annan atvinnurekstur, öllum finnst sjálfsagt að Íslendingar geti keypt hvaða atvinnurekstur sem þeim sýnist erlendis og því meira sem þeir græða, því betra.  Jafn sjálfsagt finnst mörgum að berjast með kjafti og klóm, gegn hvers konar erlendri fjárfestingu á Íslandi.

Er þetta ekki einhver brenglun í þjóðarsálinni?


mbl.is Mannvit í milljarða útrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldbreytingar

Einstaklingum á vanskilaskrá fjölgar hratt, en ekki kemur fram, vegna hvaða skulda fólk er að lenda á skránni.  Í allri umfjöllun um skuldavandann þyrfti að greina vanskilin betur, þ.e, eru vanskilin vegna húsnæðisskulda, hve mikið vegna verðtryggðra lána og hvað mikið gengistryggt, eða eru vanskilin vegna bílalána, hjólhýsakaupa, húsgagnakaupa o.s.frv.  Ef á að fara út í einhverjar skuldaniðurfellingar verða þessar upplýsingar að liggja fyrir, því varla verður ætlast til að fólki verði bjargað út af vanskilaskrá vegna annars en íbúðaskulda.

Ein aðferð, sem kemur upp í hugann, gæti verið að breyta gengistryggðum lánum yfir í verðtryggð lán í íslenskum krónum frá útgáfudegi, uppreikna þau og gjalddaga þeirra, eins og um verðtryggð lán hefði verið að ræða og leiðrétta áfallnar afborganir.  Eftir svona lánabreytingu stæðu allir húsnæðiskaupendur jafnir og því yrði mun auðveldara að móta almennar tillögur til lánabreytinga.

Með því að gera öll lán að verðtryggðum íslenskum lánum, væri hægt að breyta afborgunaraðferð þannig að mismunur á vísitölubreyting frá t.d. 1. júlí 2008 til 1. júlí 2009 yrði fryst þannig, að hún yrði færð aftur fyrir upphaflegan lánstíma og lengt í lánum sem því næmi.  Þetta yrði almenn aðgerð og engum mismunað.  Með þessu móti þyrftu lánveitendur ekki að afskrifa skuldirnar, en lengja lánstímann í staðinn og skuldabyrði lántakanda yrði léttari en nú er.

Hvað svo sem gert verður í þessum lánamálum, hlýtur jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar að gilda og fólki verði ekki mismunað með fyrirhuguðum aðgerðum.


mbl.is Vanskil aukast hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband