14.9.2009 | 18:34
Eðlileg afgreiðsla
Afstaða kröfuhafa Milestone er afar skiljanleg og jafn sjálfsagt er að óska eftir gjaldþroti félagsins og reyna allar þær riftanir á eignatilfærslum frá félaginu á undanförnum árum. Miðað við annað, sem komið hefur í ljós af gerðum eigenda Milestone, t.d. varðandi bótasjóð Sjóvár, þá er nauðsynlegt að fara ofan í allar gjörðir þeirra á liðnum mánuðum og árum.
Hins vega er óskiljanlegt, að Glitnir skuli hafa stutt nauðasamning, þar sem bankinn átti að fá 6% upp í 44 milljarða skuld félagsins við bankann. Ekki er hægt að sjá í fljótu bragði hvaða hag bankinn hefði haft af slíkum nauðasamningi, því væntanlega hefði hann komið í veg fyrir nákvæma rannsókn á eignatilfærslunum út úr félaginu að undanförnu.
Ekki er heldur auðskilið hvaða tökum bankarnir hafa tekið aðra útrásarvíkinga, sem virðast ennþá hafa bankana í vasanum, þótt þeir séu nú komnir í ríkiseigu, eins og reyndar mörg útrásarfyrirtækjanna. Þrátt fyrir að bankarnir hafi tekið fyrirtæki útrásarmógúlanna í fóstur, er ekki þar með sagt, að þeir þurfi líka að fóstra mógúlana sjálfa og vernda þá, eins og um eigin börn væri að ræða.
Vegir bankanna eru órannsakanlegir og óskiljanlegir öllu venjulegu fólki, sem alls staðar kemur að lokuðum dyrum með sín mál.
![]() |
Höfnuðu nauðasamningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2009 | 14:54
Fáráðlegar röksemdir
Það eru nokkuð skringilegar röksemdir, að Jóh Magnússon, lögmaður, eða hvaða einstaklingur annar, skuli teljast vanhæfur í embætti saksóknara, út á það eitt, að hafa lýst skoðunum sínum á mönnum og málefnum opinberlega. Á blogginu hefur Jón Magnússon ávallt verið málefnalegur og sagt skoðanir sínar, án þess að lýsa sök á menn, en eingöngu sagt sína skoðun, tiltölulega umbúðalaust.
Hvenær eru menn búnir að segja of mikið til að verða vanhæfir í sakamáli. Um leið og saksóknari tekur mál til rannsóknar, er hann þá ekki um leið búinn að gefa upp þá skoðun sína, að hann telji að þeir, sem rannsóknin beinist að, séu líklega sekir um glæp. Að ekki sé talað um, þegar hann stefnir viðkomandi fyrir dóm og ákærir þá um tiltekna glæpi, þá hlýtur hann að gera það, vegna þess að hann sé á þeirri skoðun, að viðkomandi séu glæpamenn.
Varla verður saksóknari vanhæfur í málinu, þrátt fyrir svo afdráttarlausa yfirlýsingu á skoðun sinni, þvert á móti reynir hann að sannfæra dómarann um að þetta álit sitt á sakborningunum sé rétt. Verjendur reyna síðan að leiða fram rök, sem eiga afsanna þessa skoðun saksóknarans.
Það er alveg fáráðlegt að dæma menn vanhæfa til embættis vegna þátttöku þeirra í almennri þjóðfélagsumræðu.
Enda er þetta fyrirsláttur í þessu tilfelli. Þarna ráða stjórnmálaskoðanir Jóns, en málamyndaástæður fundnar til þess að hafna honum.
![]() |
Jón dregur umsókn til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2009 | 11:46
Róttækar ráðstafanir á 10 dögum?
Ríkisstjórnin hefur setið við völd frá því í byrjun Febrúar og hefur ekki ennþá komið fram með ásættanlegar tillögur til úrbóta vegna lánavanda heimilanna í landinu, en boðar nú að róttækar aðgerðir verði kynntar þann 24. september, eða eftir 10 daga.
Þessar róttæku ráðstafanir eiga ekki að kosta ríkissjóð neitt, en ekkert kemur fram frá ráðherrunum annað en að málin séu ennþá í skoðun og nokkrar leiðir komi til greina. Það verður að teljast vel að verki staðið, hjá ríkisstjórninni, ef hún getur fundið leiðir, sem allir verða sáttir við á þessum tíu dögum, leiðir sem hún hefur ekki fundið á síðustu átta mánuðum.
Í fréttinni segir: "Heimildir innan stjórnarheimilisins herma hins vegar að allar hugmyndir séu ræddar á þeirri forsendu, að þær leiði ekki til meiri útgjalda fyrir ríkissjóð. Gylfi segir mikilvægt að nýjar aðgerðir tryggi betur jafnræði milli heimila og gangi yfir alla sem einn, óháð því hvar þeir tóku lán. Svo efnahagsreikningur hverrar lánastofnunar ráði því ekki hvaða úrræði hver fjölskylda fær.
Það er sem sagt verið að ræða fjölda hugmynda, sem ekkert eiga að kosta og eiga að tryggja jafnræði milli heimila og lánastofnanirnar eiga ekki að ráða hvaða úrræði hver fær.
Líklegasta niðurstaðan verður líklega sú, að ekki finnist niðurstaða, frekar en áður.
![]() |
Róttækari aðgerðir til handa heimilum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2009 | 09:48
Stuðningur við börn í Jemen
Í Jemen er mikil almenn fátækt og landið harðbýlt og þar er ekki mikið um ræktanlegt land, þó ótrúlegt sé í raun og veru hvernig landsmönnum þó tekst til í þeim efnum, þar sem landið er að stórum hluta eyðimerkur og fjalllendi.
Þrátt fyrir harðbýlið og fátæktina er fólkið brosmilt og elskulegt og lítil hætta á ferðum fyrir útlendinga sem ferðast til landsins. Ferðaiðnaður er þó ekki sérstaklega þróaður, enda landið tiltölulega úr alfaraleið og Jemen fátækasta arabaríkið.
Jóhanna Kristjónsdóttir hefur frá árinu 2004 staðið fyrir stuðningi við menntun jemenskra barna, aðallega stúlkna, enda situr menntun þeirra á hakanum, ef sonur er í fjölskyldu og ekki efni til að senda öll börn í skóla. Jemenskar fjölskyldur eru oft barnmargar, en mjög algengt er að ekki séu efni til að senda börnin í skóla og yfirleitt eru drengirnir látnir ganga fyrir menntun.
Stuðnigsnet Jóhönnu við menntun barna í Jemen skiptir sjálfsagt ekki sköpum um menntunarstig landsins, en það skiptir sköpum um framtíð þeirra barna, aðallega stúlkna, sem aðstoðarinnar njóta og myndu þau alls ekki fá neina menntun, ef þessa stuðnings nyti ekki við.
Allar upplýsingar um félagsskap Jóhönnu má fá hérna
![]() |
12 ára lést við fæðingu barns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)