11.8.2009 | 17:03
Straumur stórviðskiptanna
Ef minnið svíkur ekki var verið að lýsa kröfum í þrotabú Straums fyrir nokkru og kom þá m.a. fram að fyrrverandi forstjóri hefði gert nokkur hundruð milljóna launakröfu í búið, þó enginn, sem ekki hefur verið bankatoppur, skilji slíkar launaupphæðir.
Nú birtist frétt af því að þrotabú Straums sé að kaupa eignir annars þrotabús fyrir 97 milljarða króna, þ.e danskar fasteignir Baugsfyrirtækisins Landic Property. Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Enn á eftir að ganga frá flutningi skulda og skuldbindinga milli banka, samkvæmt heimildum Børsen. Á Straumur í viðræðum við þýska bankann Aareal Bank, Heleba Trust, og danska fjármálafyrirtækið Nykredit Realkredit um skuldirnar og skuldbindingarnar."
Eina rökrétta skýringin á þessu er sú, að Landic Property hafi skuldað öllum þessum bönkum vegna fasteignanna og Straumur hafi setið uppi með stærstu skuldirnar og því snúist samningarnir við hina bankana um, hvað mikið þeir þurfi að afskrifa af sínum skuldum, áður en þær verða færðar yfir í þrotabú Straums. Þessar eignir, eins og aðrar "eignir" útrásarmógúlanna, hafa verið fjármagnaðar með lánum, enda "keyptu" þeir aldrei neitt nema fyrir lánsfé, hvort sem um var að ræða fyrirtæki, lúxusíbúðir, skíðahallir, þotur eða snekkjur.
Með því að tæma íslensku bankana, sem nam 10-12 faldri landsframleiðslu, að viðbættum stjarnfræðilegum lánum frá helstu bönkum Evrópu, töldu þessir útrásarmógúlar að þeir sjálfir væru snjöllustu viðskiptamenn veraldar og þó víðar væri leitað.
Það versta er, að þeir trúa því ennþá eins og nýju neti.
![]() |
Illum og Magasin til Straums |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2009 | 14:37
Fjármálaeftirlitið að klúðra málum, aftur?
Skilanefndir gömlu bankanna hafa það hlutverk að hámarka endurheimtur lánadrottna bankanna, sem voru búnar að lána þeim óheyrilegar upphæðir, sem námu um 10-12 faldri landsframleiðslu, en margir rugla saman gömlu og nýju bönkunum og halda að skilanefndirnar hafi umsjón með bæði gömlu og nýju bönkunum.
Skilanefndirnar voru skipaðar af Fjármálaeftirlitinu, sem reikna hefði mátt með, að fylgdist með framvindu mála hjá nefndunum og setti sig inn í gang mála þar. Því eru það merkileg vinnubrögð, að reka menn, fyrirvaralítið, úr nefndunum, þegar samningar við kröfuhafana eru á viðkvæmu lokastigi, eða eins og í fréttinni er haft eftir Páli Benediktssyni, upplýsingafulltrúa skilanefndar Landsbankans: "Páll segir að viðræður hafi staðið yfir milli kröfuhafa og skilanefndar Landsbankans frá því í haust og aðilar hafi myndað traust og trúnað sín á milli. Þannig kom það spánskt fyrir sjónir að þegar farið var að sjá fyrir endann á samningunum þá væri allt í einu tveim af fjórum bara vikið frá í skilanefndinni. Mönnum sem þeir höfðu verið að semja við um þetta. Mönnum sem þeir treystu til þess og vissu að væru vel inni í málum," segir Páll."
Fjármálaeftirlitið klúðraði eftirlitshlutverki sínu með bönkunum undanfarin ár og virðist nú vera að því komið að klúðra sínum hluta í uppgjöri gömlu bankanna.
Allt virðist ætla að verða Íslands óhamingju að vopni.
![]() |
Ársæll og Sigurjón starfa áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2009 | 11:41
Kylliflatur utanríkisráðherra
Sífellt hitnar meira undir ríkisstjórninni og nú þarf að halda leynifundi með Ögmundi, áður en öðrum ráðherrum er hleypt inn á ríkisstjórnarfundi, til þess að reyna til þrautar að snúa honum frá villu síns vegar í ríkisábyrgðarmálinu, að mati Jóhönnu, Össurar og Steingríms J.
Í morgun var bloggað hérna um samstöðuleysið innan og milli stjórnarflokkanna og er greinilegt, að þar var ekkert ofsagt um það stjórnleysi, sem nú ríkir í landinu. Reyndar má segja, að ákveðin stjórnarkreppa hafi verið hér, síðan Samfylkingin fór á taugum í Janúar og hljópst undan skyldum sínum í síðustu ríkisstjórn.
Í fréttinni kemur fram að Össur hafi verið í símanum undanfarnar vikur og rætt við flesta utanríkisráðherra ESB og þar segir: " Í þeirra samtölum hafi þetta mál komið upp og hann hafi gert þeim grein fyrir óánægjunni og því að staða málsins hafi þyngst. Íslendingar telji að þetta séu þröngir, erfiðir og ranglátir samningar, Það sé stemmningin á Alþingi Íslendinga þar sem málið sé til meðferðar. Þá hafi komið fram að ekkert hafi skort á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gert það sem þeir geta til að koma samningnum í gegn vegna þess að þeir trúi því að það sé það rétta þegar horft sé til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar."
Össur var sem sagt alls ekki að tala máli þjóðarinnar fyrir þessum kollegum sínum í ESB, þvert á móti var hann að sannfæra þá um að ríkisstjórnin væri undirlægja ESB og berðist fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga og reyndi allt sem hún gæti til að fá þessa ríkisábyrgð samþykkta, þrátt fyrir andstöðu þings og þjóðar.
Getur nokkur ráðherra lagst lægra en þetta?
![]() |
Ríkisstjórn á suðupunkti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2009 | 09:12
Allt á suðupunkti í stjórnarsamstarfinu
Eftir að Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og fleiri þingmenn VG, greiddu atkvæði gegn því, að sótt yrði um aðild að ESB, hefur mikil spenna verið ríkjandi milli stjórnarflokkanna og Samfylkingarmenn vilja helst, að Jóni verði vikið úr ríkisstjórninni.
Eftir að aðildarumsóknin var samþykkt og Icesave tók sviðið, hefur misklíðin innan stjórnarflokkanna og milli þeirra, sífellt komið skýrar í ljós, með hverjum degingum sem líður. Óánægjan innan VG magnast stöðugt og er nú svo komið að Steingrímur J. og Ögmundur geta ekki talast við lengur, öðruvísi en á fundum með málamiðlununarmönnum, sem reyna að brúa ágreining þeirra.
Það hlýtur að teljast mikil bjartsýni hjá Ögmundi, að ríkisstjórnin myndi geta starfað áfram í óbreyttri mynd, ef svo færi að hans atkvæði felldi ríkisábyrgðina á Alþingi. Ríkisstjórnin yrði algerlega lömuð og óstarfhæf, enda myndi ríkisstjórn sem kæmi engu stórmáli í gegnum þingið, missa allt traust og samstarfið innan og milli stjórnarflokkanna yrði gersamlega í rúst.
Hvernig sem fer með Ögmund og ríkisábyrgðina, þá verður þessi ríkisstjórn varla langlíf úr þessu.
Að minnsta kosti munu Steingrímur J. og Ögmundur ekki verða báðir innanborðs, ef tækist að endurlífga stjórnarsamstarfið.
![]() |
Stjórnarsamstarf undir Ögmundi komið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)