Pólitískur samningur

Því hefur verið haldið fram af stjórnarþingmönnum, að ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, sé ekki fyrst og fremst spurning um að uppfylla lagalegar skyldur, heldur sé hann til þess gerður, að leysa pólitískan vanda milli Íslands og Evrópusambandsins, þ.e. til þess að koma í veg fyrir að málið fari fyrir dómstóla, vegna þess að tilskipun ESB um tryggingasjóði innistæðueigenda sé meingölluð.  ESB geti alls ekki hugsað sér að fá þetta mál fyrir dóm, vegna þess að bankakerfi Evrópu gæti verið í hættu og þess vegna "verði" Alþingi að samþykkja þessa ríkisábyrgð.

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, hefur ekki látið mikið á sér bera í þessari umræðu, tók sér reyndar sumarleyfi á meðan hennar fulltrúar í Fjárlaganefnd Alþingis bögglast með málið vikum saman, til að reyna að berja í brestina á þessum ömurlegasta samningi Íslandssögunnar.

„Það er ekki öll nótt úti enn," sagði Jóhanna á Alþingi og átti þar við, að ennþá væri möguleiki á að snúa þeim þingmönnum VG, sem ennþá láta þjóðarheill sig einhverju varða.  Auðvitað er það ríkisstjórninni til háborinnar skammar, að ætla sér að treysta á stjórnarandstöðuna, til að bjarga sér fyrir horn í hverju stórmálinu á fætur öðru.

Pólitíska samninga á að gera á milli pólitískra fulltrúa, en ekki setja embættismannanefndir í slíka vinnu, enda bera þeir enga pólitíska ábyrgð.  Samningagerð milli Íslands, Hollands og Breta um þetta Icesave rugl, á að fara fram á milli æðstu ráðherra þjóðanna og að því verkefni ætti Jóhanna, meintur forsætisráðherra, að fara að snúa sér.  Með sér ætti hún auðvitað að hafa löggilta túlka og skjalaþýðendur.

"Það er kominn tími til að ríkisstjórnin fari að tala máli okkar Íslendinga við þá sem við er að semja," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar í þinginu í dag.

Það eru orð að sönnu.


mbl.is Ekki öll nótt úti enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórir glæpir og smáir

Ömurlegt er að fylgjast með umræðunni um að þetta eða hitt glæpaverkið sé réttlætanlegt, af því að það sé framkvæmt sem hluti af mótmælum gegn einhverju.  Fjallað er um hústökufólk, Saving Iceland og annan skríl, sem nánast saklausa mótmælendur, í stað þess að fjalla um þetta lið á þann eina veg, sem réttlætanlegur er, þ.e. að það sé að framkvæma óafsakanleg glæpaverk.

Á blogginu og víðar er þetta lið varið með kjafti og klóm, mótmælt er að smákrimmar, sem stela tuttugu milljónum, séu teknir, vegna þess að ekki sé búið að fangelsa einhverja aðra, sem framið hafa meinta stórglæpi, sem þó eru í rannsókn, en ekki sannaðir ennþá.  Það er vitni um mikla og aukna firringu og upplausn í þjóðfélaginu, þegar farið er að réttlæta "smáglæpi" allskonar og enginn sér neitt athugavert við, að bankaupplýsingum sé lekið á netið, þrátt fyrir að slíkt hafi og muni stórskaða orðspor Íslands um allan heim og mátti það orðspor ekki við miklu fyrir.

Almenningur mótmælir niðurskurði fjárframlaga til lögreglunnar á sama tíma og hann tekur þátt í að réttlæta ýmsa glæpastarfsemi.  Til réttlætingar er alltaf bent á að enginn banka- eða útrásarmógúll hafi verið dæmdur ennþá, en þeirra verk eru erfið og flókin í rannsóknum og því ekki í raun hægt að búast við því, að ákært verði í þeim alverg á næstunni.

Eitt glæpaverk er ekki hægt að réttlæta með því að eitthvert annað slíkt, jafnvel stærra, hafi verið framið áður.


mbl.is Málningu slett á hús Hjörleifs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraði snigilsins

Opinberar stofnanir vinna að málum á hraða snigilsins og á það ekki síður við dómskerfið, en aðrar opinberar stofnanir.  Embætti Sérstaks saksóknara tók til starfa þann 1. febrúar s.l. og þurfti síðan að bíða í nokkrar vikur eftir að fyrstu mál til rannsóknar kæmu frá Fjármálaeftirlitinu.  Þá kom í ljós, að breyta þurfti lögum, vegna þess að Fjármálaeftirlitið taldi sig ekki hafa heimild til að afhenda saksóknaranum ýmsar upplýsingar, vegna bankaleyndar.

Úr því var bætt, en þá kom í ljós, að saksóknarann skorti bæði meira fé og fleiri starfsmenn og er loksins núna verið að auglýsa eftir fleiri saksóknurum til starfa við embættið.  Þannig má segja, að það hafi tekið rúma tíu mánuði, að móta og hefja raunverulega starfsemi embættis hins sérstaka saksóknara.

Því hefur alltaf verið haldið fram á þessu bloggi, að ákærur yrðu ekki gefnar út, fyrr en að nokkrum árum liðnum, vegna stærstu málanna, sem tengjast banka- og útrásarmógúlunum.  Baugsmálið fyrsta ætti að sýna vel fram á, hve erfitt er að ná sakfellingu fyrir dómi, jafnvel í málum, sem talin eru borðleggjandi, þegar sakborningar hafa allar helstu lögfræði- og endurskoðendaskrifstofur landsins í sínu liði og peningar til að skapa sakborningum samúð, eru ómældir.

Réttarkerfi annarra landa er lítið hraðvirkara, en það íslenska, þannig að ekki er að búast við neinum alvöru ákærum í þessum málum á næstunni, enda hvílir Baugsmálið fyrsta eins og mara á réttarkerfinu.

Nú verður hins vegar tæplega hægt að kaupa almenningsálitið, sama hve miklum peningum yrði varið til þess.


mbl.is Samskiptin að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband