Ríkisstjórnin riðar til falls

Nú er svo komið, að ekki er hægt að halda áfram þingstörfum vegna þess að óeiningin og samstöðuleysið er orðið slíkt innan stjórnarflokkanna og milli þeirra, að meirihluti næst ekki um neitt mál í þinginu, sem máli skiptir.

Beiðnin um inngögnu í ESB var ekki samþykkt með stuðningi allra stjórnarliða og gekk mikið á innan Samfylkingarinnar vegna þeirra þingmanna Vinstri grænna, sem "sviku" ríkisstjórnina í því máli.  Ekki er illskan minni innan Samfylkingarinnar út í VG núna, vegna ríkisábyrgðarinnar á skuldum Landsbankans, en engin von er til þess að stjórnarandstaðan bjargi ríkisstjórninni úr þeirri snöru.

Jafnvel innan Samfylkingarinnar minnkar stöðugt stuðningurinn við ríkisábyrgðina, því jafvel þingmenn hennar eru margir hverjir farnir að gera sér grein fyrir því, að sá skuldaklafi, sem hún setur á þjóðina, er nánast óbærilegur.  Einnig vex þeirri skoðun fylgi innan stjórnarflokkanna, að greiðsluskylda þjóðarinnar á fjárglæfrum Landsbankans á sér enga lagastoð í tilskipunum Evrópusambandsins, né í íslenskum lögum.

Á blaðamannafundi í morgun sögðu Jóhanna og Steingrímur, að þau ættu sér ennþá von um að úr málum gæti ræst.

Von þjóðarinnar um starfhæfa ríkisstjórn, sem hefur getu til að taka á málunum, minnkar dag frá degi.


mbl.is Þingfundum frestað um viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir sigar - skilanefndin geltir

Örfáum klukkustundum eftir að Mogginn var borinn í hús, með frétt um yfirveðsetningu húsnæðis 101 Hótels við Hverfisgötu, sendir formaður skilanefndar Landsbankans frá sér yfirlýsingu, um að enginn ágreiningur sé við Jón Ásgeir og frú, vegna skuldbindinga þeirra við bankann.  Stutt blogg um yfirverðsetninguna má sjá hér

Með ólíkindum verður að teljast, í öllu því fréttaflóði, sem verið hefur um málefni banka- og útrásarmógúla, án þess að skilanefndir hafi séð ástæðu til að senda frá sér álit um málin, þá skuli Jón Ásgeir ekki þurfa nema eitt símtal til skilanefndarinnar og þá sendir hún frá sér hraðsoðna yfirlýsingu, um að ekki sé uppi ágreiningur um skuldamál hjónanna.  Það var hvergi sagt í fréttinni, að um ágreining væri að ræða, um þessar skuldir, aðeins að tekin hefði verið aukatrygging í hótelinu vegna lúxusíbúða í New York.

Í yfirlýsingu skilanefndar segir t.d:  "Aðilar hafa á liðnum mánuðum unnið sameiginlega að því að bæta tryggingarstöðu bankans frá því sem var. Veðtaka í Hverfisgötu 8-10 var gerð í þeim tilgangi að tryggja betur endurgreiðslu á lánum þeim tengdum."  Þarna kemur fram, að tryggingastaða bankans var ekki nógu góð og hana þurfti að tryggja betur.  Um það var fréttin. 

Reyndar hnykkir formaður skilanefndarinnar á því, að tryggingar hafi ekki verið fyrir öllum skuldum, því í lok tilkynningar hans segir:  "Skilanefndin metur nú umræddar skuldbindingar traustari en áður var, sem er jákvætt skref í þá átt að hámarka verðmæti eigna bankans, kröfuhöfum til hagsbóta.“

Ekki verður þetta skilið öðruvísi en svo, að ekki sé reiknað með að allar kröfurnar innheimtist, því reynt verður að hámarka innheimturnar, kröfuhöfunum til hagsbóta.

Hvað var skilanefndin að leiðrétta? 

 


mbl.is Segja engan ágreining vera við Jón Ásgeir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hortugur útrásarvíkingur

Jón Ásgeir Jóhannesson, útrásarmógúll, hefur um margra ára skeið verið í fremstu röð bruðlara og óráðsíumanna í hópi íslenskra (og erlendra) fjármálabraskara og haldið um sig hirð ímyndarsmiða og fjölmiðlamanna, til að fegra gerðir sínar gagnvart þjóðinni.  Undanfarna daga hefur hann haldið því fram, að blaðamenn Moggans leggi sig í einelti, enda sídrukknir við ófræingarskrif sín um hann.

Nú birtist frétt um að hann gefi skilanefndum langt nef, þegar þær reyna að komast til botns í þeim fjármálakóngulóarvef sem hann hefur spunnið um heiminn, með þræði til allra skattaparadísa veraldarinnar.  Í fréttinni kemur fram að nú hafi hann verið neyddur til að yfirveðsetja húsnæði 101 Hótels, til baktryggingar á láni frá Landsbankanum vegna lúxusíbúða sinna í New York, en þær hafði hann áður veðsett og með því farið á bak við Landsbankann, eða eins og segir í fréttinni:  "Tilurð tryggingabréfsins má rekja til þess að Jón Ásgeir veðsetti lúxusíbúðir sínar í New York í óþökk skilanefndarinnar, en Landsbankinn fjármagnaði kaupin á þeim árið 2007."

Reyndar er með ólíkindum, að hægt sé að spila sig sem alþjóðlegan auðkýfing, með einkaþotu, lúxussnekkju, skíðahöllum, lúxusíbúðum í London, New York og víðar, Rolls Royce og öðrum lúxusbifreiðum o.s.frv. og allt á lánum frá íslenskum bönkum.

Allt er þetta með ólíkindum og ekki síst að sagt er að Jón Ásgeir sé á launum hjá skilanefndunum, að aðstoða þær við að botna yfirleitt nokkurn skapaðan hlut í öllum vefnum, sem hann er sjálfur búinn að spinna.


mbl.is Alþýðuhúsið yfirveðsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband