16.7.2009 | 14:23
Þjóðin niðurlægð af Alþingi
Ótrúlegt var að fylgjast með atkvæðagreiðslu á Alþingi um tillögur varðandi inngögnuumsókn í Evrópusambandið. Stjórnarmeirihlutinn niðurlægði kjósendur með því að hafna því, að þjóðaratkvæðagreiðsla skæri úr, hvort sótt skyldi um inngöngu eða ekki. Enn meira niðurlægði stjórnarmeirihlutinn þjóðina, með því að hafna því að hún hefði síðasta orðið um inngöngu, með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir flokkar, sem hæst hafa gasprað um opna stjórnsýslu, aukið gagnsæi mála og aukið lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum, gengu algerlega á bak orða sinna og sendu þjóðinni fingurinn í þessu efni.
Þegar kom að því að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu stjórnarinnar um að Össur, grínari, yrði sendur með betlistafinn til þeirra þjóða, sem lýst hafa yfir efnahagslegu stríði gegn Íslendingum, var átakanlegt að hlusta á hvern þingmann vinstri grænna eftir annan, lýsa því yfir að hann myndi berjast með oddi og egg gegn aðildarsamningi, en svo greiddu þeir atkvæði með inngöngubeiðninni. Þetta er þvílíkur aumingjagangur og algerlega í andstöðu við stefnu vinstri grænna, að ekki verður annað séð en flokkurinn klofni, a.m.k. í tvennt.
Sorglegast af öllu var að horfa upp á fimm þingmenn stjórnarandstöðunnar hlaupa til og skera Samfylkinguna niður úr snörunni sem hún var búin að koma sér í vegna undirlægjuháttar við kvalara Íslendinga. Þetta voru þingmennirnir Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson, Siv Friðleifsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þráinn Bertelsson. Skömm þessara þingmanna er mikil og mun fylgja þeim um alla framtíð.
Dagsins 16. júlí 2009 verður minnst sem dagsins þegar Alþingi Íslendinga niðurlægði sína eigin þjóð, með svívirðilegum hætti.
![]() |
Samþykkt að senda inn umsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.7.2009 | 09:52
Enn ein lygin um ágæti ESB aðildar
Í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ. segir að miðað við reynslu Finna af inngöngu í ESB, megi gera ráð fyrir að kjúklingar lækki í verði um 70%, egg og mjólkurvörur um 55-60% og svínakjöt um 35% vegna afnáms tolla. Þá segir að matvöruverð út úr búð sé að jafnaði 30% lægra í Evrópusambandinu en hér á landi.
Allt er þetta gott og blessað, nema ekki kemur fram við hvaða gengi Evrunnar er miðað, þegar útreikningur um 30% lægra vöruverð er gerður. Ekki er heldur tekið fram hvernig flutningskostnaður spilar inn í vöruverðið.
Allar eru þessar upplýsingar góðar og blessaðar, en segja auðvitað ekki nema hálfan sannleikann. Sá hálfi sannleikur er sá, að þessar tollalækkanir sem Finnar fengu við inngöngu í ESB, gátu Finnar allar fengið án inngöngunnar. Þeir hefðu getað breytt sínum tollalögum einhliða og fengið allar þessar landbúnaðarvörur tollfrjálsar, án inngöngu í ESB.
Það er ein langlífasta lygi ESB sinna, að með inngöngu í bandalagið muni matvöruverð lækka umtalsvert á Íslandi daginn sem gengið verði í Evrópusambandið. Alla þá tollalækkun sem Ísland verður skyldað til með inngöngu í ESB, geta Íslendingar fengið með einfaldri breytingu á tollalögum og þurfa ekki að ræða um það við nokkra aðra. Þetta getur Alþingi gert strax á morgun, ef áhugi væri fyrir því. Flutningskostnaður mun samt ávallt hækka innfluttar vörur nokkuð, burtséð frá ESB.
Einnig hefur þeirri lygi verið haldið á lofti af ESB sinnum, að allt myndi lækka í verði og nánast öll vandamál verða fyrir bí, eingöngu með því að taka upp Evru í stað krónu. Aldrei kemur þó fram á hvaða gengi á að skipta um gjaldmiðilinn, en það er þó það sem skiptir auðvitað höfuðmáli.
Í dag verða væntanlega greidd atkvæði á Alþingi um aðildarumsókn að ESB.
Vonandi greiða alþingismenn ekki atkvæði sem byggt verður á sjálfsblekkingum og lygi.
![]() |
Kjúklingar myndu lækka um 70% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)