25.6.2009 | 17:04
Bestu vinir Íslendinga
Sænska ríkisstjórnin hefur af alkunnri elskusemi sinni og sem hluti af hinum norrænu bestu vinum Íslands, samþykkt að lána Íslendingum sinn hluta af sameiginlegu 2,5 milljarða láni norðurlandanna.
Lán þetta tengist áætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um framkvæmd endurreisnar efnahags Íslands. Aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu í dag undir "stöðugleikasáttmála" AGS, sem vinnuflokkur Jóhönnu, ríkisverkstjóra og Steingríms Jong Sig., fjármálajarðfræðings, á að starfa eftir næstu tvö ár, ef hann lifir Icesave málið af.
Fréttin af þessu rausnarlega vinarbragði norðurlandaþjóðanna endar að vísu á þessu: "Þá kemur fram, að norræna lánið verði greitt út í fjórum jöfnum greiðslum eftir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi staðfest fyrstu fjórar endurskoðunirnar á íslensku áætluninni."
Eitthvað mun nú dragast að "vores nordiske venner" þurfi að draga upp tékkheftið, því AGS er ekki einu sinni búinn að staðfesta aðra endurskoðun sína á íslensku áætluninni, en það átti að gerast í febrúar síðast liðnum og hefur því nú þegar dregist um fjóra mánuði, vegna þess að vinnuflokkur Jóhönnu hefur ekki staðið við neitt af því, sem að honum hefur snúið.
Með sama áframhaldi verður jafnvel "stöðugleikasáttmáli" AGS runninn út, þegar okkar norrænu vinir þurfa að fara að telja saman aurana í sína fyrstu greiðslu af fjórum.
![]() |
Svíar samþykkja lán til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2009 | 14:48
Til hamingju AGS
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn náði að festa öll sín markmið í stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðarins og verður aðkoma ríkisvinnuflokksins sú, að framkvæma stefnu AGS, en það hefur vinnuflokkurinn verið í talsverðum vandræðum með undanfarið.
Stöðugleikasáttmálinn er um ýmislegt sem: "Stefnt skal að..", "Fyrihugað er..." "Leitast verði við að..." o.s.frv. Fjármálaeftirlitið hafði gefið bönkunum lokafrest til 17. júlí til að ganga frá efnahagsreikningum sínum og er sú dagsetning sett inn í sáttmálann, eins og um hana hafi verið samið í Karphúsinu.
Stýrivextir verða vonandi lækkaðir sem fyrst, samkvæmt sáttmálanum. Gjaldeyrishöftin verði afnumin sem fyrst og hætt verði að loka fyrir erlenda fjárfestingu þann 1. nóvember. Ýmis fleiri skilyrði AGS fyrir lánaafgreiðslu sinni er þarna að finna og vonandi verða þau uppfyllt "fljótlega".
Skemmtilegasta málsgreinin í sáttmálanum er þessi: "Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009."
Það þarf sem sagt að semja um það sérstaklega, að ríkisstjórnin flækist ekki fyrir atvinnuuppbyggingu eftir 1. nóvember 2009. Allir hljóta að fagna því, að samningar tókust um þetta.
Með þessum sáttmála hefur AGS tryggt stefnu sína til a.m.k. tveggja ára.
Miðað við andstöðu Vinstri grænna við AGS fram að þessu, verður þessi árangur að teljast ásættanlegur fyrir AGS.
![]() |
Til hamingju með sáttmálann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 13:37
Góðæri glæpamanna
Það er alþekkt staðreynd, að í kreppum fjölgar afbrotum allskonar, sérstaklega innbrotum, ránum og öðrum fjármálabrotum. Merki slíkrar aukningar hefur þegar orðið vart hér á landi á síðustu mánuðum og án nokkurs vafa á afbrotum af öllum gerðum eftir að fjölga á næstu árum.
Núna væru rétt viðbrögð, að flýta nýjum fangelsisbyggingum og auka framlög til lögreglu og saksóknara. Frekar en í öðrum málum, en náttúrlega gripið til þveröfugra aðgerða, þ.e. að skerða framlög til lögreglunnar, ríkissaksóknara og fangelsismála. Bygging fangelsa væri kærkomið verkefni fyrir sveltan byggingariðnað og myndi skapa nokkur störf í þeirri grein.
Ástandið sem nú er í efnahagslífi þjóðarinnar er tilkomið vegna glæpsamlegra athafna tiltölulega fárra manna, sem beittu svo flóknu ferli til að fela slóð sína, að langan tíma og mikinn mannafla mun þurfa til að upplýsa þá gjörninga alla.
Vitandi um þennan niðurskurð, hljóta íslenskir krimmar að hugsa sér gott til glóðarinnar.
Það er aumt hlutskipti, að hafa hvorki efni á að rannsaka glæpina, hvað þá að fangelsa þá, sem sekir eru.
![]() |
Alvarleg staða í fangelsum á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2009 | 11:14
Siðlaus ríkisstjórn
Ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur alltaf haldið því á lofti, að í þeim þrengingum sem nú dynja yfir, verði sérstklega gætt að því, að skerða ekki kjör öryrkja og aldraðra. Þetta lítur alltaf jafn vel út og frasinn um að hlífa velferðarkerfinu.
Eitt fyrsta verk Jóhönnu, ríkisverkstjóra, og Steingríms Jong Sig., fjármálajarðfræðings, er að skerða kjör aldraðra og öryrkja, sem þeim tókst að bæta hægt og bítandi í tíð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
Öryrkjabandalagið kallar þetta siðlausar ráðstafanir.
Er við öðru að búast?
![]() |
Siðlaus bótaskerðing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2009 | 09:10
Skattasamningar
Eins og venjulega í þeirri opnu og gagnsæju stjórnsýslu, sem nú er viðhöfð í þjóðfélaginu, fær pöpullinn ekkert að vita um hvað er verið að semja í Karphúsinu, frekar en annað, sem sýslað er við á opinberum vettvangi. Fólki verður bara stillt upp við vegg og sagt að þetta sé það sem til boða standi og ekki annað að gera, en að samþykkja það.
Það eina, sem virðist vera hægt að átta sig á, er að stjórnin hafi verið pínd til að falla frá einhverjum smávægilegum hluta, þeirrar skattpíningar sem framundan er. Til að friða opinbera starfsmenn og fá þá til að vera með í sumargjöfinni til landsmanna, var einfaldlega slegið á frest, að gera uppskátt um skattpíninguna á árunum 2011 - 2013.
Eins og þetta virðist líta út, er ríkisstjórninni að takast að fá aðila vinnumarkaðarins til að samþykkja gífurlega skattpíningu almennings á næstu árum, í stað sparnaðar í ríkisrekstrinum.
Hafi ekki tekist að fá ríkisstjórnina til að hætta við niðurskurð verklegra framkvæmda og spara í staðinn í rekstrinum, væri þetta algerlega óviðunandi niðurstaða. Takmarka á opinberar framkvæmdir á þenslutímum, en auka þær verulega í niðursveiflum.
Nú er tími fyrir miklar opinberar framkvæmdir, en blóðugan niðurskurð í rekstri.
![]() |
Ekki meira en 45% skattar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)