17.6.2009 | 10:58
Fullveldinu fórnað?
Árið 1262 gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd og lutu erlendu valdi upp frá því, þar til fullveldi fékkst á ný árið 1918 og loks fullt sjálfstæði árið 1944. Allan tímann undir erlendu valdi ríkti stöðnun í landinu og það var ekki fyrr en eftir að sjálfstæði fékkst og Íslendingar fóru að stjórna sínum málum sjálfir, að einhverjar framfarir, sem heitið geta, urðu í landinu. Eftir seinni heimstyrjöldina má segja að Íslendingar hafi komið út úr moldarkofunum og smátt og smátt orðið eitt ríkasta þjóðfélag veraldar.
Þetta tókst Íslendingum með gífurlegri vinnu og erfiði og með sinn "handónýta" gjaldmiðil, krónuna, sem nú er að hluta til kennt um efnahagserfiðleikana, sem nú hrjá þjóðina, en eru auðvitað gjaldmiðlinum óviðkomandi, en stafa af glæfra- eða jafnvel glæpamennsku tiltölulega fárra manna.
Það, sem vekur upp óhug á þessum degi, er að nokkur hluti þjóðarinnar, undir forystu eins ólánlegs stjórnmálaflokks, skuli nú tilbúinn til þess, að afsala fullveldi þjóðarinnar til yfirþjóðlegs valds Evrópusambandsins. Nú vill svo illa til, að formaður þessa ólánsflokks, er forsætisráðherra þjóðarinnar.
Samkvæmt venju mun þessi "þjóðarleiðtogi" flytja sjónvarpsávarp til þjóðarinnar að kvöldi 17. júní og verður fjóðlegt að fylgjast með því, hvort þá verði lesið yfir almenningi, þetta atriði úr stefnuyfirlýsingu flokksins fyrir kosningarnar í maí 2009: "Setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilar að fullveldi sé deilt með yfirþjóðlegum stofnunum og alþjóðastofnunum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Slík ákvörðun tekur því aðeins gildi að sé staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þó erfiðleikar steðji nú að þjóðinni, er það hámark aumingjaskaparins, að leggja til að fullveldi þjóðarinnar verði fórnað.
![]() |
Formleg hátíðarhöld hafin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)