11.6.2009 | 17:22
Fyrirséð bankakrísa í ESB
Margir virðast halda að hrun íslenskra banka sé einsdæmi í heiminum. Svo er alls ekki og margir bankar í heiminum hafa farið á hausinn og mjög mörgum stórbönkum hefur verið bjargað fyrir horn, tímabundið, með gífurlegum framlögum viðkomandi ríkissjóða.
Í ESB hefur ýmsum bönkum verið fleytt áfram með ríkisframlögum og neyðarlánum frá Evrópska seðlabankanum, en ekki er ennþá útséð um hvernig fer með þá áður en yfir lýkur. ESB aðdáandinn mbl.is flaggar ekki mikið fréttum af erfiðleikum innan ESB, en á viðskiptadálki mbl.is slæðast einstaka sinnum klausur tengdar þeim málum, nú síðast þeirri um óttann við bankakrísu í ESB árið 2010.
Í fréttinni segir: "Seðlabanki Evrópu fylgist grannt með erfiðleikum 25 banka sem taldir eru skipta sköpum fyrir fjármálaheilsu evrusvæðisins, og hann óttast aðra bylgju af vandamálum hjá bönkum á næsta ári, þjarmi heimskreppan enn að þeim og öðrum, að því er fram kemur í frétt breska blaðsins Telegraph." Á Íslandi voru það þrír bankar sem skiptu öllu um fjármálaheilsu landsins, en í ESB eru það aðeins 25 bankar sem skipta sköpum fyrir fjármálaheilsu Evrusvæðisins. Dejan Krusec, sérfræðingur hjá Seðlabanka Evrópu, hefur áhyggjur af lengd kreppunnar og segir að vandamálið sé ekki árið 2009, heldur árið 2010.
Á þessu, ásamt mörgum öðrum viðvörunarbjöllum, sést hvílíkt glapræði væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að ESB á þessum óvissutímum.
![]() |
Óttast bankakrísu 2010 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2009 | 13:30
Margt er skrýtið í kýrhausnum
Sjálfstæðismenn hafa lagt fram vandaðar tillögur til endurreisnar efnahagslífsins, en ríkisvinnuflokkurinn hefur ekki getað komið sér saman um neinar aðgerðir til lausnar á vandanum. Fréttir berast af því, að mikil kergja sé meðal VG vegna þess niðurskurðar, sem nauðsynlegur og óhjákvæmilegur er, í ríkisrekstrinum.
Í því ljósi ber líklega að skoða það sem fram kemur í fréttinni, þar sem segir: "Þingmenn Samfylkingarinnar lýstu mikilli ánægju með að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ráðist í að semja umræddar tillögur. Magnús Orri Schram Samfylkingunni lofaði frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og sagði sjálfstæðismenn hafa farið í ítarlega og góða vinnu. Mikilvæg áhersla væri lögð á víðtækt samráð. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í sama streng og þakkaði sjálfstæðismönnum fyrir tillögurnar. Þetta er mjög jákvæð nálgun sem hér er lögð fram og ég er mjög sáttur við bæði tóninn í tillögunum og sömuleiðis í málflutningi háttvirts þingmanns. Hann er ekkert að skafa utan af stöðunni eins og hún er, en hann segir jafnframt að það þarf að skapa víðtæka sátt um margar erfiðar aðgerðir, sagði Össur."
Í þeirri pólitísku refskák, sem nú er tefld innan ríkisvinnuflokksins, eru þessi viðbrögð Smáflokkafylkingarinnar vafalaust til að setja pressu á þingmenn og ráðherra VG, enda verður ekki hægt að bíða öllu lengur eftir niðurstöðu þeirra. Allt þjóðfélagið er í biðstöðu vegna ráðaleysis stjórnarflokkanna.
Ef til vill er Össur, grínari, að leggja drög að nýrri ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
![]() |
Fyrirtækin nálgast hengiflugið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2009 | 11:46
Fyrsta uppgötvun Evu Joly
Fyrsta dularfulla málið, sem virtist þurfa Evu Joly til að leysa, er hvarf Jóhönnu, ríkisverkstjóra, en ekkert hefur til hennar spurst undanfarnar vikur. Eftir harðort viðtal við Evu Joly í Kastljósinu í gærkvöldi, kom Jóhanna skyndilega í leitirnar og er nú farin að gefa yfirlýsingar á Alþingi.
Þó að Jóhanna hafi fundist og taki undir hvert einast orð, sem Joly sagði í þættinum, gefur hún hins vegar engar skýringar á því, hvers vegna ekkert hafi verið gert með tillögur hennar síðustu tvo og hálfan mánuð. Í svona rannsóknarvinnu getur hver vika skipt máli og því áríðandi að leggja allt það fé og mannskap, sem þarf, til að vinna við þessi mál geti unnist eins hratt og nokkur möguleiki er. Öll heimsbyggðin býður í raun og veru eftir því að þessi mál verði upplýst. Íslendingar bíða eftir því, að peningar endurheimtist og skúrkarnir verði settir bak við lás og slá.
Engin þjóð getur látið það um sig spyrjast, að hún hafi ekki efni á að upplýsa eina mestu fjárhagslegu svikamyllu, sem sögur fara af í nokkru landi.
Það er fagnaðarefni, að ríkisverkstjórinn skuli vera kominn úr felum og lofi að fara að vinna.
![]() |
Ríkisstjórn styður Joly |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2009 | 09:14
Svifaseint Fjármálaeftirlit og verðlaun forsetans
Fjármálaeftirlitið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að vísa skuli viðskiptum Stím, eignarhaldsfélags, til ákæruvaldsins vegna gruns um refsiverð brot í tengslum við "kaup" á hlutabréfum í Glitni, sem áttu sér stað fyrir tveim árum síðan. Sennilega má það ekki mikið seinna vera, til að málið fyrntist ekki, en FME hafði áður rannsakað málið í nóvember árið 2007, án þess að grípa til nokkurra aðgerða þá.
Það verður að teljast með ólíkindum að nánast allt bankakerfið á Íslandi (og útrásin einnig) skuli, að því er virðist, hafa verið rekið af ótíndum skúrkum og ævintýramönnum, að ekki sé sagt glæpamönnum, eða eins og fréttin endar: "Rannsóknir opinberra aðila á meintri markaðsmisnotkun Glitnis og reyndar Landsbankans og Kaupþings líka í ótengdum málum snýst um að þeir eru taldir hafa haft áhrif á verð hlutabréfa í sjálfum sér eða eigendum sínum. Oftar en ekki lágu upplýsingar um slíkt ekki fyrir þegar viðskiptin fóru fram."
Baugur var aðaleigandi Glitnis og flestra stærstu útrásarfyrirtækjanna. Í bók, sem nú er að koma út, segir af neyðarfundi í bönkunum í mars 2008, þar sem var verið að fjalla um að Baugur væri ekki lengur gjaldfær og myndi því ekki geta greitt af lánum sínum til banka og lífeyrissjóða. Mánuði síðar, eða í apríl 2008, veitti forseti lýðveldisins vini sínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni útflutningsverðlaun forseta Íslands og sagði forsetinn af því tilefni, "að Baugur fengi þau fyrir forystuhlutverk sitt í íslensku útrásinni og þann einstaka árangur sem fyrirtækið hafi náð í sölu- og markaðsmálum í verslunarrekstri á heimsvísu. Á örfáum árum hafi fyrirtækið náð þeim árangri að verða þriðja stærsta smásölufyrirtæki á Norðurlöndum og á liðnum fimm árum vaxið hraðar en nokkuð annað fyrirtæki á þessum markaði."
Svo láta þessir menn, eins og veldi þeirra hafi fallið í október 2008, vegna inngripa seðlabankans.
![]() |
FME mun vísa Stím-málinu til ákæruvalds |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)