Faldar ESB fréttir

Í dag fer fram fyrsta umræða um tvær þingályktunartillögur um hugsanlega aðild Íslands að ESB og verða þær sjálfsagt til meðferðar í þinginu fram á haust a.m.k.

Á sama tíma birtist hálf falin frétt hér á mbl.is um efnahagsþróun í ESB landinu Litháen, sem gekk í sambandið árið 2004 og hefur gjaldmiðil sinn bundinn við Evruna og er þar með bundið ákvörðunum Evrópska seðlabankans um peningamál.

Líklega á þessi setning í fréttinni að fegra eitthvað það sem í fréttinni sagði áður um niðursveifluna, en setningin er þessi:  "Mikill uppgangur hefur verið í Litháen á undanförnum árum eins og í hinum Eystrasaltslöndunum þremur. Þau gengu öll í Evrópusambandið árið 2004."

ESB sinnar halda því stöðugt fram, að aðild að sambandinu, jafnvel eingöngu aðildarumsókn, muni bjarga efnahagsmálum á Íslandi, eins og hendi væri veifað.

Ekki er Litháen, eða öðrum Evrulöndum, mikil hjálp í ESB aðildinni, því lokasetningin í fréttinni hjlóðar svona:  "Nú spáir seðlabanki landsins því að samdráttur á árinu öllu verði 15,6%."

Á Íslandi, þar sem heimskreppan á að vera dýpst og landið með sinn eigin gjaldmiðil, er samdráttur ársins 2009 áætlaður að verði 10%.

Samdráttur Evrulandsins verður sem sagt yfir 50% meiri en í Evrulausa landinu.

Hvað segja ESB prédikarar við því?


mbl.is Hagkerfi Litháen dróst saman um 13,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða um að bjarga andliti

Össur, grínari, fagnar því að útlit sé fyrir að samstaða náist í þinginu, um vinnubrögð varðandi umsóknarferli að ESB.  Þessi fögnuður hans lýsir sér í því að stjórnarandstaðan skuli bera fram skárri þingsályktunartillögu en hann var að mæla fyrir sjálfur, en tillögu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna má sjá má  hér

Umfjöllun um tillögu grínarans má t.d. sjá hér og ef tillögurnar eru bornar saman, sést að himin og haf er á milli þeirra, þar sem stjórnarandstöðutillagan gerir ráð fyrir því að málið sé hugsað áður en framkvæmt er, en gríntillagan gerir ráð fyrir því að framkvæmt sé fyrst og síðan farið að hugsa.

Tillaga stjórnarandstöðunnar gæti bjargað andliti ríkisvinnuflokksins í þessu máli, en skjóta ætti því til þjóðarinnar, hvort yfirleitt ætti að sækja um eða ekki.

Það væri gífurleg framför, ef ríkisvinnuflokkurinn og þá sérstaklega Össur, grínari, færi að hugsa áður en hann talar.


mbl.is Hægt að ná samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vit sett í umsóknarferlið

Með tillögu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna um að fela Utanríkismálanefnd að skilgreina helstu hagsmuna- og álitamál varðandi mögulega umsókn Íslands að ESB, virðist vera reynt að koma einhverju viti í málið áður en sótt væri um aðild að sambandinu.

Tillaga Össurar, grínara, um að sækja fyrst um aðild og skilgreina svo samningsmarkmiðin jafnóðum og viðræðum vindi fram, er algerlega út úr kortinu og í raun alger öfugmæli.

Best væri að leita beint til almennings, með þjóðaratkvæðagreiðslu, um hvort yfirleitt sé áhugi meðal þjóðarinnar á því að sækja um aðild að þessu fyrirhugaða stórríki.  Ástæðulaust er að eyða nokkrum árum í aðildarviðræður til þess eins að láta þjóðina fella samningsdrögin, þegar þau lægju fyrir.  Afar ólíklegt er að Íslendingar samþykki nokkurn tíma að ganga til liðs við þetta skrímsli, sem ESB er.

Fróðlegt verður að fylgjast með hvort hið nýkjörna þing velur að nota skynsemi við afgreiðslu þessa máls. Það myndi heyra til tíðinda. 

 


mbl.is Utanríkismálanefnd í lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar flýja til kreppulanda

Fyrirsögnin á fréttinni, "Læknar flýja kreppuland", er bæði ruddaleg og villandi í ljósi þess að nú er heimskreppa og ef læknar flytja úr einu landi í annað, eru þeir í raun að flytja milli kreppulanda.

Fréttin er að öðru leyti sú sama og árlega birtist, þegar undirbúningur fjárlaga fyrir næsta ár er að hefjast.  Um þetta leyti á hverju ári birtast fréttir af því að sjúkrahúsin séu í mannahallæri, ekki séu til nægir peningar fyrir lyfjum, tækjum, launum, skúringarfötum eða nokkru öðru, sem nauðsynlegt er til reksturs heilbrigðiskerfis.  Nákvæmlega eins fréttir berast frá nánast öllum geirum hins opinbera á þessum árstíma og allir hljóta að vera búnir að sjá í gegnum þetta væl, enda sami söngurinn kyrjaður á hverju vori.

Afar auðvelt er að fá fjölmiðlana til að spila þessa plötu fyrir landslýð og hún er spiluð öll ár, hvernig sem árferðið er í fjármálum hins opinbera.  Á þessu ári má gera ráð fyrir að plötuspilarinn verði stilltur "í botn", enda niðurskurður  nauðsynlegur á öllum sviðum og það "sársaukafullur niðurskurður", eins og það heitir á máli stjórnmálamanna.

Nú er kominn tími til að snúa þessari hljómplötu við og spila lagið sem er á B hliðinni.

 


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband