Rannsóknarnefnd Alþingis

Það er fagnaðarefni að Rannsóknarnefnd Alþingis skuli vera farin að halda reglulega blaðamannafundi til þess að skýra frá störfum sínum.  Þetta er ekki nefnd, sem á að fella dóma í einstökum málum, en mun væntanlega senda slík mál til sérstaks saksóknara, þegar tilefni gefast til.

Margir hafa haft áhyggjur af því að pappírstætarar hafi verið á fullu um allt bankakerfið undanfarna mánuði, en það eru óþarfa áhyggjur, þar sem á tækniöld er hægt að rekja öll viðskipti rafrænt, enda hafa engin viðskipti farið fram á undanförnum árum öðruvísi en að vera skráð í gegnum tölvur.  Þess vegna er hægt að rekja þessi viðskipti öll, en það getur hins vegar verið tímafrekt.

Alveg má telja víst, að ekki voru allar athafnir bankanna og útrásarvíkinganna samkvæmt laganna bókstaf og því hlýtur svefn þeirra flestra að verða órólegri með hverri nóttinni sem líður.

Kóngulóarvefur huldufyrirtækjanna, sem spannar öll helstu skattaskjól veraldar, er byrjaður að trosna.


mbl.is Rannsaka útlán bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin tengsl við þjóðfélagið

Nú eru um 18.000 manns á atvinnuleysisskrá og nánast allir sem ennþá hafa störf á hinum frjálsa vinnumarkaði hafa þurft að taka á sig mismiklar kjaraskerðingar.  Yfirvinna hefur verið dregin saman, laun beinlínis lækkuð og ýmsum starfstengdum kjörum verið sagt upp.  Enginn er ánægður með skerðingu kjara sinna, en fólk reynir að þreyja þorrann í von og vissu um að efnahagslífið taki við sér og tekjur fyrirtækjanna aukist á ný og þar með tekjur launþeganna.

Ekki er vitað til þess að nokkrum einasta opinberum starfsmanni hafi verið sagt upp vegna samdráttar og þeir eru fámennir, ef nokkrir, á atvinnuleysisskrá.  Þrátt fyrir það eru helstu félög æðstu embættismanna Reykjavíkurborgar að senda frá sér ályktun, þar sem segir m.a:

"Félagsfundurinn mótmælir harðlega þeim launalækkunaraðgerðum sem Reykjavíkurborg hefur nú enn gripið til gagnvart starfsmönnum sínum. Með aðgerðum sínum ræðst Reykjavíkurborg nú í annað sinn á stuttum tíma á launasamsetningu, sem lögð var til grundvallar við ráðningu fjölmargra starfsmanna borgarinnar og hefur því í raun verið svipt öllum forsendum undan ráðningu þeirra."

Þessir embættismenn virðast ekkert hafa frétt af því varðandi launamenn á almennum markaði að það "hefur því í raun verið svipt öllum forsendum undan ráðningu þeirra".  Flestir, ef ekki allir, réðu sig til vinnu á allt öðrum  forsendum en nú ríkja á vinnumarkaði. 

Þessir embættismenn hafa hins vegar á takteinum lausn á sínum launavandamálum, en þeir vilja einfaldlega láta hækka skatta, eða eins og segir í ályktun þeirra:

"Borgarstjórn hefur meðal annars hafnað því að nýta lögbundna tekjustofna sína s.s. heimildir sínar til hækkunar útsvars."

Til viðbótar kjaraskerðingum og atvinnuleysi á sem sagt að bæta á almenna launþega hærri sköttum til þess að embættismenn Reykjavíkurborgar geti haldið óbreyttum launakjörum.

Þetta fólk er ekki í neinum tengslum við það þjóðfélag sem það vinnur fyrir.


mbl.is Mótmæla kjaraskerðingu hjá Reykjavíkurborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlaust Alþingi

Ömurlegt er að fylgjast með störfum Alþingis þessa dagana, þar sem öll helstu þingmálin sem snerta heimilin í landinu og atvinnulífið, komast ekki til umræðu vegna óstjórnar á þinginu og þrjósku um forgangsröðun mála.

Þingfundir standa fram á nótt, en stjórnarþingmenn sjá ekki sóma sinn í að ræða sín eigin þingmál og nenna ekki einu sinni að hanga í vinnunni, þó ekki væri til annars en að sýnast (eins og þeir gera oftast).  Meira að segja flutningsmenn frumvarps um breytingar á stjórnarskrá láta ekki svo lítið að sitja þingfundi til þess að vera til andsvara við spurningum sem upp koma varðandi frumvarpið.  Í nótt var ekki einn einasti af flutningsmönnunum á þingfundi og reyndar ekki nema þrír stjórnarliðar, þótt Jón Bjarnason hefði upplýst að Atli, samfolkksmaður hans úr VG, svæfi í hliðarherbergi í þinghúsinu.

Þvílík niðurlæging fyrir þingið og enn meiri er hún gagnvart þjóðinn og stjórnarskránni, að stjórnarliðar á þingi ætli að þvinga breytingar á stjórnarskránni gegnum þingið, án þess að nenna að ræða þær breytingar sem þeir vilja gera.

Þingfundir hljóta að vera hugsaðir til þess að menn skiptist þar á skoðunum og reyni að hafa áhrif á afgreiðslu mála. 

 Þingið á ekki að vera stimpilpúði.

 


mbl.is Langir vinnudagar á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband