Raunverulegur leiðtogi

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bar af öðrum talsmönnum flokkanna í leiðtogaþætti sjónvarpsins í gærkvöldi.  Hann talaði fyrir sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins af þeim skörungsskap, að engum gat dulist að þar færi raunverulegur framtíðarleiðtogi þjóðarinnar. 

Bjarni svaraði öllum spurningum málefnalega og lét aumt frammígjamm Jóhönnu Sigurðardóttur ekki trufla sig hið minnsta.  Allt annað var uppi á teningnum hjá Jóhönnu og Steingrími J., sem voru í vörn allan þáttinn og áttu í mestu erfiðleikum með að útskýra hvað þau hefðu "afrekað" frá því þau komust í ríkisstjórn, hvað þá það sem þau vildu gera eftir kosningar.

Ágreiningur flokkanna í helstu stórmálum kom berlega í ljós, þ.e. algerlega ósamrýmanlegar áherslur í atvinnumálum og að ekki sé talað um Evrópumálin.  Ekki gátu þau heldur verið nógu heiðarleg til að útskýra fyrir þjóðinni, hvar og hvernig þau ætla að skera niður ríkisútgjöld á næstu árum, en fyrir liggur að brúa þarf 60 milljarða króna fjárlagagat árlega næstu þrjú ár, og er þá eftir að bæta við 20 milljarða árlegri fjárvöntun Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Líklegt er að eftir langa stjórnarkreppu verði mynduð ný bráðabirgðaríkisstjórn og síðan verði kosið aftur innan skamms tíma.

Vinstri stjórn mun framlengja og dýpka kreppuna, sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir. 

Eina huggunin er, að ef af slíkri stjórn verður, þá verður hún skammlíf.


mbl.is Bjarni Ben kaus fyrstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarkreppa?

Ef fram fer sem horfir, að Smáflokkafylkingin og VG verði álíka stórir flokkar eftir kosningarnar, er að verða útlit fyrir að hér geti orðið langvarandi stjórnarkreppa.  Afstaða flokkanna til ESB er svo algerlega ósamrýmanleg, að ef Smáflokkafylkingin ætlar að standa fast á aðildarumsókninni að ESB, er afar ólíklegt að saman náist um slíkt með VG, enda hefur VG verið að herðast í andstöðinni á síðustu dögum kosningabaráttunnar.

VG er farin að sýna klærnar, svo um munar, eftir því sem styrkur þeirra verður stöðugri í skoðanakönnunum.  Neitun Ögmundar um staðfestingu þjónustutilskipunar ESB, sýnir að VG er jafnvel tilbúinir til að fórna samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, svo mikil er andstaða þeirra við ESB tengslin, eða eins og segir í fréttinni:  "Flokksráð VG hefur lagt til að neitunarvaldi verði beitt í EES til að hindra innleiðingu tilskipunarinnar vegna áhrifa á velferðarþjónustu."

Dettur einhverjum í hug lengur, að VG muni nokkurn tíma, í samstarfi við Smáflokkafylkinguna, samþykkja aðildarumsókn að ESB?  Með inngöngu í ESB verður ekkert neitunarvald í höndum VG.

Þeir Sjálfstæðismenn, sem hafa hugsað sér að kjósa Smáflokkafylkinguna, vegna afstöðu hennar til ESB, ættu að hugsa sinn gang vandlega, því með því eru þeir líklega að stuðla að langvarandi stjórnarkreppu, sem er síst það sem þjóðin þarfnast nú um stundir.  Auð atkvæði stuðla að því sama.

Það sem getur haft veruleg áhrif á gang mála, þjóðinni til heilla, er að Sjálfstæðisflokkurinn komi sterkur út úr þessum kosningum.


mbl.is VG stoppaði ESB-lögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband