Eyðilegging

Ótrúlegt er að sjá hvernig útrásarvíkingarnir hafa eyðilagt hvert félagið af öðru, sem áður stóðu traustum fótum og með sterka eiginfjárstöðu.  Icelandair var eyðilagt þegar Baugsliðar yfirtóku FL Group (sem síðar varð Stoðir) á sínum tíma, skiptu félaginu upp og seldu síðan í pörtum.  Upphaflega félaginu, með mikið eigið fé, var svo beitt í allskonar brask sem endar væntanlega í einu stæsta gjaldþroti Íslandssögunnar.

Sama sagan gerðist með Eimskip, sem líka var gamalgróið og stöndugt félag.  Það var eyðilagt undir stjórn Magnúsar Þorsteinssonar, viðskiptafélaga Björgólfanna, og er nú eitt skuldugasta félagið í landinu og er þá langt til jafnað.

Bankarnir og tryggingafélögin lentu í höndum þessara sömu manna og nú eru tryggingafélögin hálf ónýt og allir tjónasjóðir virðast gufaðir upp.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvernig farið var með bankana.  Sömu menn stærðu sig árum saman af viðskiptasnilli sinni og töldu öllum trú um að þeir væru að hagnast um hundruð milljóna á hverju ári, en nú eru öll þeirra fyrirtæki, innanlands sem utan, að verða gjaldþrota hvert af öðru.  Íslenska krónan var varla að þvælast fyrir þessum köppum við rekstur erlendra fyrirtækja, en sú afsökun hefur löngum verið notuð varðandi innlendu fyrirtækin.

Allur arður og eldri sjóðir voru hreinsaðir út úr fyrirtækjunum og því hlýtur sú spurning að vakna hvort allir þeir peningar séu bundnir í einkaþotum, snekkjum, lúxusíbúðum og bílum, eða hvort einhverjir varasjóðir séu í ávöxtun á Tortola og öðrum skattaparadísum.

Vonandi kemur þetta allt upp á yfirborðið við rannsóknina á bankahruninu.


mbl.is Lánastofnanir ráða Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dulið atvinnuleysi

Atvinnuleysistölur eru orðnar skuggalega háar og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar munu þær hækka á næstu misserum.  Þetta eru tölur sem Íslendingar eru ekki vanir og geta ekki sætt sig við til lengdar.  Því er nánast grátlegt að sjá að ekki ein einustu lög hafa verið samþykkt í tíð núverandi ríkisstjórnar til hjálpar atvinnulífinu og heimilinum í landinu, jafnvel þó boðað hefði verið að sum þeirra ættu að taka gildi frá og með 1. mars s.l.  Ef fram fer sem horfir verður handagangur í öskjunni á Alþingi síðustu dagana fyrir þinglok, sem verða innan mjög skamms tíma.  Þingið hefur verið að eyða tíma sínum í tiltölulega fánýt mál, því ekkert gengur undan ríkisstjórninni.

Athyglisvert er við atvinnuleysistölurnar er að enginn opinber starfsmaður hefur ennþá orðið atvinnulaus, þó engin skynsamleg skýring geti verið á því að umsvif hafi ekkert minnkað hjá ríkisfyrirtækjum að undanförnu.  Ögmundur, heilbrigði, sagði reyndar að ekki mætti segja upp opinberum starfsmönnum, því þá yki það kostnað ríkissjóðs af atvinnuleysisbótum.  Af því má skilja að einhver hópur opinberra starfsmanna sé í nokkurskonar atvinnubótavinnu.  Ögmundur þyrfti að gefa upp hve margir þeir eru til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir raunverulegu atvinnuleysi.

Verði þetta ekki skýrt um atvinnubótavinnuna, er ekki hægt að gefa upp raunverulegar atvinnuleysistölur, heldur eingöngu atvinnuleysi á hinum almenna vinnumarkaði.  Það gefur ekki rétta mynd af ástandinu.

 


mbl.is 16.685 skráðir á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri sveifla

Eftir skoðanakannanir undanfarið treysta sumir stjórnmálafræðingar sér til þess að "spá" því að hér geti orðið vinstri sveifla í kosningunum í vor.  Vonandi rætist sú "spá" ekki, enda koma Vinstri grænir alltaf betur út í skoðanakönnunum en í kosningum.  Þjóðvaki, undir forystu Jóhönnu ríkisverkstjóra, hlaut miklar undirtektir í skoðanakönnunum alveg fram að kosningum, en hrundi svo þegar á hólminn var komið.

Miðað við ráðaleysi og klaufagang vinnuflokks ríkisverkstjórans fram að þessu, er ekki von á góðu, ef þessir flokkar ná meirihluta í kosningunum 25. apríl.  Reyndar hafa þeir Framsóknarflokkinn til þess að grípa til í neyð, en sá flokkur myndi feginn stökkva um borð ef honum byðist það, enda geymdir ráðherrastólar handa þeim.

Þegar kemur að þvi að taka á ríkisfjármálunum af þeirri festu sem nauðsynleg er, þá munu þessir flokkar gugna og hlaupa frá stjórnartaumunum.  VG mun ekki geta staðið fyrir fjöldauppsögnum opinberra starfsmanna, en það mun reynast nauðsynlegt strax á þessu ári og ekki síður því næsta.

Verði vinstir stjórn mynduð á annað borð mun hún ekki lifa nema í rúmlega ár eða svo.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband