31.3.2009 | 14:33
Rassskelling ráðherra
Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá Kolbrúnu Halldórsdóttur um bann við rassskellingum. Á sama tíma og þetta frumvarp bíður afgreiðslu rassskellir þingið viðskiptaráðherrann lausráðna með því að svo gott sem slátra frumvarpi hans um breytingu á lögum um fjármálamarkaðinn, eða eins og segir í lok fréttarinnar:
"Átta greinar af sextán burt
Þá segir viðskiptanefnd að ekki finnist fordæmi erlendis fyrir niðurfellingarreglum vegna brota á fjármálamarkaði. Nefndin telur að þrátt fyrir að einhver brot kunni að upplýsast ef mælt verður fyrir um niðurfellingu í lögum, séu niðurfellingarákvæði afar varhugaverð.
Viðskiptanefnd leggur því til að allar greinar sem lúta að niðurfellingu veðri felldar úr frumvarpinu, eða 8 af 16 greinum frumvarpsins. Hins vegar telur nefndin eðlilegt að FME hafi heimildir til að lækka stjórnvaldssektir eða falla frá þeim. Úrræði af því tagi geti leitt til þess að mál verði upplýst án þess að vikið sé frá meginreglum um meðferð ákæruvalds."
Vonandi er þetta merki þess að Alþingi taki ekki lengur við hvaða vitleysu, sem vinnuflokki Jóhönnu dettur í hug að henda inn í þingið, illa unnu og vanhugsuðu.
Verst fyrir Gylfa að frumvarpið um rassskellingabannið skuli ekki hafa tekið gildi ennþá.
![]() |
FME fái ekki heimild til að falla frá saksókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.3.2009 | 13:31
Fámenni í greiðsluaðlögun
Á haustdögum og fram eftir vetri börðu nokkur þúsund manns mataráhöld sín undir forystu ungliðahreyfingar VG, þingmanna VG og Öskru, félags byltingarsinnaðra stúdenta, vegna þess að nánast öll heimili landsins væru að verða gjaldþrota og engu yrði bjargað fyrr en VG kæmist í ríkisstjórn.
Jóhanna, ríkisverkstjóri, og vinnuflokkur hennar taldi fólki trú um að verið væri að vinna, með forgangi, að því að leysa þjóðina úr skuldasnörunni. Eftir mikið japl og jaml og fuður koma lög um greiðsluaðlögun og látið fylgja að gert sé ráð fyrir að 100- 200 manns þurfi að notfæra sér þessa leið. Hvort skyldi vandinn hafa verið ofmetinn, eða það sé ríkisstjórnin sem er veruleikafyrrt? Svari hver fyrir sig, en svarið er líklega að hvort tveggja sé rétt.
Af þessu tilefni má að minnsta kosti segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðst hafi lítil mús.
![]() |
Fjöldinn sem þarf greiðsluaðlögun vanmetinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2009 | 09:57
Samdráttur í vöruútflutningi
Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar var vöruskiptajöfnuður í febrúar að upphæð 5,9 milljarða króna. Á föstu verðlagi var hins vegar um samdrátt að ræða, eða eins og segir í fréttinni:
"Fyrstu tvo mánuði ársins 2009 var verðmæti vöruútflutnings 4,2 milljörðum eða 6% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 42% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 13,6% minna en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 49% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 5,4% minna en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur varð í útflutningi sjávarafurða, aðallega frystra flaka en á móti kom aukning í útflutningi áls og skipa og flugvéla."
Þetta sýnir enn og aftur að það er sveigjanleikinn sem sjálfstæður gjaldmiðill veitir, sem mun auðvelda þjóðarbúinu að takast á við efnahagskreppuna, þó ýmsir sem létu blekkjast til að taka lán í erlendum myntum lendi nú í meiri erfiðleikum en annars hefði orðið. Þjóðin, sem heild, á hins vegar auðveldar með að aðlagast nýjum veruleika með krónuna sem gjaldmiðil, en ekki t.d. evru.
Einnig er athyglisvert að á sama tíma og fiskútflutningur dregst saman, þá er aukning á útflutningi áls, sem sýnir hvað álverin eru orðin stór og mikilvægur þáttur í efnahagslífinu og skapar þjóðarbúinu miklar tekjur.
Á sama tíma og þessar staðreyndir liggja fyrir, berjast vinstri grænir gegn iðnaðaruppbyggingu sem aldrei fyrr, enda í aðstöðu til að stórskaða þjóðina með ríkisstjórnarsetu sinni.
![]() |
Hagstæð vöruskipti í febrúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)