2.3.2009 | 16:34
Ráðaleysi
Jóhanna, ríkisverkstjóri, segir að Alþingi verði að starfa áfram þó þing verði rofið 12. mars. Nú er mánuður síðan vinnuflokkur ríkisverkstjórans tók til starfa og ekki hafa nema ein einustu lög verið samþykkt á Alþingi allan þennan tíma, en það voru hefndarlögin.
Það var gefið út strax við stjórnarmyndunina að kosið skyldi þann 25. apríl, þannig að skipulag þingstarfa hefði átt að geta tekið mið af því frá byrjun, en vandræðagangur vinnuflokksins er slíkur, að jafnvel Framsóknarflokknum er farið að þykja nóg um. Flokkarnir eru farnir að auglýsa prófkjör, en kjörnefndir geta ekki hafið neinn undirbúning kosninganna vegna þessa seinagangs og upphaf utankjörfundaratkvæðagreiðslu dregst von úr viti.
Starfsdagar á Alþingi verða héðan af varla fleiri en tuttugu og vinnuflokkurinn hefur boðað að afgreiða þurfi hátt í þrjátíu frumvörp, sem mislangt eru komin í undirbúningi. Dettur nokkrum í hug að svona vinnubrögð gangi upp? Ef stjórnarandstaðan svo mikið sem tekur til máls það sem eftir er þingsins, mun hún verða ásökuð um skemmdarverk og tafir, jafnvel þó ekki verði um annað en stuttar fyrirspurnir að ræða.
Þingmenn þurfa væntanlega að fara að taka fram vökustaurana.
![]() |
Hægt að halda áfram þingstörfum eftir þingrof |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 14:47
Icesavebréf í ágúst
Percy Westerlund, sendiherra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að með bréfum frá ágúst og október 2008 hafi íslenska ríkisstjórnin heitið að styðja við bakið á tryggingarsjóði bankainnistæða, ef hann væri ekki megnugur að greiða út lágmarkstryggingu Icesave innlána hjá Landsbankanum í Bretlandi.
Ekki hefur áður komið fram að ráðuneytin íslensku og bresku hafi verið farin að skrifast á um málið í ágústmánuði, þ.e. tveim mánuðum fyrir bankahrunið. Sé þetta rétt er enn óskiljanlegra hvernig Darling og Brown datt í hug að beita hryðjuverkalögum gegn íslendingum og ýtir undir þær skoðanir að það hafi verið gert í áróðursskyni til heimabrúks.
Bretum var greinilega fullljóst að staðið yrði við skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í Bretlandi og því er beiting hryðjuverkalaganna gegn "vinaþjóð" ennþá alvarlegri fyrir bragðið.
Tímabært er orðið að birta opinberlega öll bréfaskipti og önnur samskipti milli íslenskra og breskra ráðamanna fyrir og eftir bankahrunið.
![]() |
Aldrei vafi um skyldu vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 13:20
Áhætturstýring Kaupþings
Þrír doktorar í verkfræði sem störfuðu við áhættustýringu, aðstoðaframkvæmdastjóri fjárstýringar- og markaðssviðs og forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings eru allir að hætta á sama tíma.
Halda hefði mátt að öll þessi störf hefðu lagst niður sjálfkrafa við fall bankans, því ekki verður séð að áhættustýringin hafi verið mjög árangursrík og verðbréfamiðlunin ekki traustvekjandi. Allir þessir menn eru hámenntaðið, þannig að ekki stóð menntunarskortur bankanum fyrir þrifum. Fram kemur að allir þessir menn hafi starfað alllengi hjá bankanum, þannig að gera hefði mátt ráð fyrir að áhættustýringardeildin hefði átt að sjá erfiðleikana á fjármálamarkaði fyrir, eða a.m.k. getað sett fram viðbragðsáætlun strax í ársbyrjun 2006, þegar bankakreppan hin fyrri dundi á íslensku bönkunum. Þá var hins vegar sagt að allt væri í himnalagi og íslenskir bankar stæðu traustum fótum. Meira að segja var sagt á árinu 2008 að bankarnir væru búnir að tryggja lausafjárstöðu sína út árið 2009, jafnvel þó allar bankalínur myndu lokast. Nokkrum mánuðum síðar féllu allir bankarnir vegna lausafjárskorts.
Menntun er greinilega ekki það sama og kunnátta.
![]() |
Fjöldaflótti frá Kaupþingi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)