Álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Mark Flanagans, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að koma verði bankakerfinu á réttan kjöl og létta verði á peningastefnu seðlabankans sem fyrst.  Þetta geti annað hvort komið fram í afléttingu gjaldeyrishafta eða lækkun stýrivaxta.  Fyrir nokkrum dögum var gefið út að ekki yrði unnt að aflétta gjaldeyrishöftum fyrr en í haust, þannig að þetta hlýtur að þýða að stýrivextir verði lækkaðir á næsta vaxtaákvörðunardegi seðlabankans, sem er 19. mars n.k.  Nú er verðbólguhraðinn kominn niður í ca. 6%, en stýrivextir eru 18% sem er í raun fáránlegt vaxtaokur.  Nýreknir seðlabankastjórar vildu lækka stýrivextina í febrúar, en þá lagðist AGS gegn því.  Verður því að reikna með því að stýrivextirnir verði lækkaðir niður í 10% í þessum áfanga og áfram í samræmi við lækkun verðbólgu.

Flanagan segir líka að ríkið verði að hagræða í rekstri sínum árið 2010 og verði ákvarðanir um hvernig það verði gert teknar síðar á árinu.  Á mannamáli þýðir þetta meiriháttar niðurskurð á þjónustu ríkisins og mun það koma hart niður á ýmsum þáttum, enda þarf niðurskurðurinn að nema a.m.k. 70 milljörðum króna á árinu 2010 og annað eins til viðbótar á árinu 2011.  Til samanburðar á að skera niður um 40 milljarða á þessu ári og hafa ýmsir kveinkað sér illa undan því, en sá sparnaður er barnaleikur hjá því sem koma skal.

Að endingu blés Flanagan á tillögur framsóknarmanna um flatan 20% niðurskurð allra skulda og taldi þær slæma og dýra leið til aðstoðar heimilunum.  Þessu hefur áður verið haldið fram á þessu bloggi og þetta virðast allir skilja nema framsóknarmenn.

Flanagan lætur í það skína að seðlabankinn og ríkisstjórnin ráði ferðinni í fjármálum þjóðarinnar, en annað skín allsstaðar í gegn um það sem frá AGS kemur.


mbl.is Svigrúm til stýrivaxtalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanir menn

Jón Ásgeir Jóhannesson lýsti því yfir fyrir skömmu að hann væri farinn úr landi og myndi einbeita sér að rekstri erlendis, enda Ísland allt of lítið land fyrir stórhuga menn.  Nú hefur hann, ásamt fleiri toppum frá Baug Group stofnað nýtt félag í Bretlandi, sem eins og þeir segja:  "Við munum fylgjast með markaðnum  og bíða.  Þetta snýst um að hafa rétta reynda fólkið á staðnum til að grípa tækifærið".  Í frétt Retail Week liggur ekki fyrir hvernig á að fjármagna fyrirtækjakaup, eða hvort þeir ætli sér að yfirtaka eitthvað af eignum Baugs sem nú eru í höndum bankanna. Það er ekki von að nú sé vitað hvernig á að fjármagna ný fyrirtækjakaup, því enginn virðist skilja hvernig öll gömlu fyrirtækjakaupin voru fjármögnuð.  Eru þó skilanefndir, rannsóknarnefnd, fjármálaeftirlit og sérstakur saksóknari með fjölda manna á launum (og Evu Joly) við að reyna að fá botn í málið.

Vitað er að tugir eða hundruð hlutafélaga tengjast eigendum Baug Group og nánast óskiljanlegt að ekkert þeirra sé í stakk búið til að "grípa tækifærið".  Einnig er athyglisvert að ekki er vitað hvort þeir "ætli sér að yfirtaka eitthvað af eignum Baugs sem nú eru í höndum bankanna".  Einhver hefði getað látið sér detta í hug að bankarnir myndu sjálfir hafa eitthvað um það að segja hverjir yfirtækju þær eignir sem eru í þeirra höndum, að ekki sé talað um lánadrottna Baug Group.

Hitt er annað mál að þetta eru þaulvanir menn, enda hafa þeir verið verðlaunaðir af sjálfum konungi (afsakið forseta) Íslands fyrir snilld sína í útflutningi á hugviti.  Baugur Group fékk í hendur sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem verðlaunahafi fékk leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu.  Frá afhendingu verðlaunanna eru nú liðnir rúmir ellefu mánuðir og verðlaunahafinn orðinn gjaldþrota.  Skyldi vera heimilt að yfirfæra merkið á nýtt félag úr því að aðstandendurnir eru þeir sömu?

Sennilegt er að engum þyki lengur akkur í því að hampa Útflutningsverðlaunum forseta Íslands. 

 


mbl.is Stjórnendur Baugs í nýjum rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband