Grínútnefning ársins

Baugstímaritið Nýtt líf hefur valið Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherralíki, konu ársins og hefði það komið gjörsamlega á óvart, ef ekki væri fyrir eiganda tímaritsins.

Mesti brandarinn við útnefninguna er forsendan fyrir henni, eða eins og þar segir:  "Í umsögn ritstjórnar tímaritsins segir að frá lýðveldisstofnun hafi sennilega enginn stjórnmálamaður staðið frammi fyrir jafnögrandi verkefni og Jóhanna geri nú."

Þetta hlýtur að vera í fyrsta skipti í veraldarsögunni, sem einhver er verðlaunaður fyrir að standa frammi fyrir ögrandi verkefni.

Venjulega er fólk heiðrað fyrir að hafa leyst ögrandi og vandasöm verkefni vel af hendi, en ekki bara fyrir að standa frammi fyrir þeim.

Nýtt líf hlýtur að verða útnefnt tímarit ársins, fyrir að verðlauna aðila, sem stendur ráðalaus frammi fyrir verkefnum sínum, hvort sem þau eru ögrandi eða ekki.

 

 


mbl.is Jóhanna valin kona ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt uppgjör

Fyrr í dag bárust fréttir af því, að Bjarni Ármannsson og/eða félög í hans eigu, væru með fjögurra milljarða kröfur í þrotabú gamla Glitnis, án þess að nánar væri útlistað í hverju þessar kröfur væru fólgnar.

Nú kemur frétt um að Bjarni og Glitnir hafi gert samkomulag um endurgreiðslu á yfirverði, sem hann fékk við sölu hlutabréfa sinna í bankanum, þegar hann lét af störfum í bankanum í apríl 2007.  Þetta munu vera um 650 milljónir króna, sem Jón Ásgeir samþykkti sem yfirverð á bréfin og áður hafði Bjarni endurgreitt 370 milljóna króna starfslokagreiðslu. 

Á þessum árum verðlögðu þessir garkar sig hátt og t.d. "keypti" Jón Ásgeir og félagar sér nýjan bankastjóra frá Landsbankanum og greiddu honum 300 milljónir fyrir að mæta í vinnuna.  Sá bankastjóri var einn af upphafsmönnum Icesave, ef rétt er munað, og þar sem Icesave þótti vera "tær snilld", gátu tæru snillingarnir selt sig dýrt, eftir að hafa fundið upp á "snilldarverkunum".

Það skrýtnasta við tilkynningu Glitnis er eftirfarandi setning:  ""Um fullnaðaruppjör milli aðila er að ræða sem felur auk þessa í sér að félög Bjarna, sem eiga u.þ.b. 273 milljóna króna skuldabréfakröfur á bankann, falla frá greiðslukröfum á hendur bankanum. Ekki eru uppi aðrar kröfur Bjarna eða félaga hans á hendur bankanum," segir í tilkynningu frá skilanefndinni."

Eru þá tæpir fjórir milljarðar gufaðir upp frá því í morgun?

Þannig spyrja menn, sem skilja varla svona upphæðir, né uppgjör á þeim.


mbl.is Bjarni endurgreiðir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert gert til að örva atvinnulífið

Atvinnuleysi í nóvember var skráð 8% og hafði fjölgað á atvinnuleysisskrá um 675 manns í mánuðinum, eða um 5,3%. 

Vinnumálastofnun spáir, að atvinnuleysi geti farið upp í allt að 8,6% í desember og yrðu þá um 14.400 manns atvinnulaus í jólamánuðinum, þ.e. rúmlega 1.000 fleiri, en í nóvember.

Þetta kemur m.a. fram í skýrslu Vinnumálastofnunar:  "Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá nóvember til desember. Þróun síðustu vikna bendir til að svo verði einnig raunin í ár, en erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í desember 2009 aukist og verði á bilinu 8,1%-8,6%. Í fyrra var atvinnuleysið 4,8% í desember."

Fram að þessu hefur ríkisstjórnarnefnan ekkert lagt af mörkum til að blása nýju lífi í atvinnuvegina, heldur þvert á móti þvælst fyrir, eins og hún hefur getað, þeim fáu iðnaðarkostum, sem í boði hafa verið.  Með áframhaldi þessarar framkomu gagnvart atvinnulífinu, mun atvinnuleysið aukast til muna á næsta ári.

Þá mun ríkisstjórnarnefnan ekki hafa önnur ráð, en þau sem hún tileinkar sér núna.

Það er að skattpína atvinnulífið og almenning ennþá meira og alveg þar til öll mjólk verður úr kúnni og hún dauð.


mbl.is Atvinnuleysi 8% í nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsfréttir

DV birtir hverja "stórfréttina" af annarri af hinum ýmsu mönnum, sem blaðið ásakar um brask og skiptir þá engu, hvort viðkomandi tóku þátt í braskinu, eða ekki.

Fyrir nokkrum dögum birti blaðið stórfrétt um "peningaþvott" Jóns Geralds Sullenbergs, sem átti að hafa átt sér stað fyrir nokkrum árum síðan.  Um var að ræða, að Jón Gerald, var milligöngumaður um að bjóða banka að kaupa skuldabréf af erlendum aðila, en ekkert varð af viðskiptunum.  Vandséð er hvernig þetta getur flokkast undir "peningaþvott", ekki síst þar sem engin viðskipti áttu sér stað.

Nú slær DV upp "risafrétt" af braski Bjarna Benediktssonar í Macao og lætur blaðið sig litlu skipta, þá Bjarni hafi hvergi nærri viðskiptunum komið.  Tilgangurinn helgar meðalið í þessu máli, sem flestum öðrum hjá því blaði.

Guðmundur Ólason, fyrrv. forstjóri Milstone, sem í raun stóð í þessum Macao viðskiptum, aftekur með öllu, að Bjarni hafi tekið þátt í þessum viðskiptum og segir m.a. í fréttinni:  " „Bjarni er stjórnarformaður BNT, sem á ekki beinan eignarhlut í Földungi, sem gerir ekki beina fjárfestingu í Makaó, heldur leggur Sjóvá það inn til tryggingar á annarri fjármögnun. Það er því orðið býsna langsótt að tengja nafn Bjarna við þetta brask,“ segir Guðmundur. Aðspurður segir hann að Bjarni hafi ekki getað haft nein áhrif á ákvörðunina um kaupin á Makaó-félaginu."

Viðskipti útrásargarkanna voru mörg og flókin á brask- og bruðltímabilinu og ætti að vera af nógu að taka fyrir DV, til að búa til æsifréttir, þó ekki sé róið á þau mið, að vera sífellt að slá upp ekkifréttum af einstaklingum, sem ekki komu nálægt málunum.

Baugsmiðlarnir keppast við, að semja fréttir, sem hugsanlega gætu komið höggi á andstæðinga ríkisstjórnarnefnunnar og ætti fólk að meðtaka þá fjölmiðla með þetta í huga.

Baugsmenn hafa aldrei hikað við að berja andstæðinga sína niður með öllum tiltækum ráðum og síðasta dæmið um það, er auglýsingabann Baugsara á Moggann, í tilraun þeirra til að gera blaðinu allt til miska á erfiðum tímum.


mbl.is Kveðst ekki hafa braskað neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins hægt að skora á vindinn

Um 70% svarenda í skoðanakönnun, sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið vilja að forsetinn neiti staðfestingar á lögum um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans.  Þetta ætti að sýna bæði ríkisstjórninni og forsetanum, að þjóðin er tilbúin til þess að taka slaginn gegn þeirri ánauð, sem ESB, Bretar og Hollendingar vilja leggja á hana a.m.k. næstu tvo áratugina.

Forsetinn neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin árið 2004 með þeim rökum að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar og sleppti meira að segja konungsbrúðkaupi, til þess að vera algerlega viss um að vera á landinu við afgreiðslu þess máls á Alþingi.  Eins og allir vita sleppir Ólafur Ragnar ekki góðri veislu í útlöndum, nem mikið liggi við.  Reyndar er ekki vitað til þess að hann hafi hundsað nokkra aðra veislu, hvorki innanlands eða utan.

Við undirritun laganna um ríkisábyrgðina í ágúst s.l. vísaði hann með sérstakri áritun til fyrirvaranna, sem Alþingi gerði við ábyrgðina og lét líta svo út, að hann staðfesti lögin eingöngu þeirra vegna.

Nú, þegar ríkisstjórnarnefnan hefur látið Breta og Hollendinga neyða sig til að falla aftur frá nánast öllum fyrirvörunum, er Ólafur Ragnar kominn í veruleg vandræði með að finna afsökun til að staðfesta nýju þrælalögin og engum skal detta í hug, að hann myndi nokkurn tíma neita að staðfesta lög frá vinum sínum í ríkisstjórnarnefnunni, frekar en honum datt í hug, að svíkja vin sinn Jón Ásgeir vegna fjðlmiðlalaganna.

Nú liggur Ólafur Ragnar væntanlega á bæn og biður þess að honum verði boðið í gott partý í útlöndum á heppilegum tíma.


mbl.is Meirihluti vill kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband