Lifandi lík

Ríkisstjórnin er dauð, en aðstandendur hennar eru í afneitun og geta ekki ennþá horfst í augu við raunveruleikann.  Bæði Össur, grínari, og Katrín, menntamála, hafa verið í viðtölum í dag og lýst þeirri von sinni, að Steingrímur J, fjármálajarðfræðingur, geti blásið lífi í nasir hennar, þegar hann kermur heim á morgun, en undanfarna viku hefur hann legið á píslarbekk Breta, Hollendinga, ESB og AGS í Istanbul.

Allir hans fundir hafa verið "gagnlegir" en virðast ekki hafa skilað neinu, öðru en því, að áfram skuli málin rædd og reynt að finna lausn á þeim, enda staðan orðin "vadræðaleg fyrir alla aðila", eins og ráðherranefnurnar orða niðurstöðuleysið.  Um þetta var fjallað nánar í gær, og má lesa það hérna

Þegar ráðherrar í ríkisstjórn eru farnir að tala um að þeir vonist til að stjórn þeirra sé ekki dauð, þá er hún í raun steindauð.  Ekki skýrist hugsunin í kolli þeirra, eða stuðningsmanna þeirra, á meðan þeir berja hausnum við steininn.  Því væri þeim ráðlegast að viðurkenna andlátið og auglýsa jarðarförina sem allra fyrst.

Hvað sem þeir reyna að klóra í grafarbakkann, er stjórnin ekki orðin annað en lifandi lík, eða eins og kaninn myndi segja:  "Dead man walking".


mbl.is Hefur trú á að stjórnin lifi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biður þjóðina að afsaka sjálfa sig

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, notar nú hvern dag, eins og hann sé sinn síðasti í ráðherrastóli, til að dæla alls kyns yfirlýsingum yfir landslýð, um hitt og þetta, sem hún hefur skipt um skoðun á, eins og t.d. greiðsluskyldu þjóðarinnar á hluta af skuldum Landsbankans og í dag til að biðja þjóðina afsökunar á hruninu.

Það sem verra er, hún minnist ekkert á helstu sökudólga hrunsins, þ.e. útrásarmógúlana, heldur biðst hún afsökunar á gerðum allra annarra, jafnvel þjóðarinnar sjálfrar, þegar hún segir:  "„Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást og það hafa efalítið verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu okkur í þessa erfiðu stöðu," sagði Jóhanna."

Það er t.d. hulin ráðgáta hvernig stjórnmálin brugðust, því ekki er vitað til þess að bankar eða útrásarfyrirtæki hafi verið rekin af stjórnmálamönnum, né á pólitískum forsendum.  Hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást ekki heldur, það voru glæpamennirnir sem ekki fóru eftir hugmyndakerfinu og brutu, eða sveigðu öll lög landsins til þess að stunda sína iðju og leika á eftirlitskerfið.

Auðvitað voru teknar margar rangar ákvarðanir á þessum tíma, af almenningi, en það voru fyrst og fremst hvítflibbaglæpamenn, sem komu þjóðinni í þá stöðu, sem hún er í núna og þeir hafa ekki og munu ekki biðja nokkurn mann afsökunar á framferði sínu.  Þeir munu ekki einu sinni sjá sitt eigið siðleysi í réttu ljósi á afplánunartíma, því þeir munu allir halda því fram, að þeir hafi verið misskildir snillingar, sem urðu fyrir óhappi, og allt hafi einmitt verið stjórnsýslunni og eftirlitskerfinu að kenna.

Þessi afsökunarbeiðni lýsir ekki mikilli einlægni og skýrist fyrst og fremst af því, að Jóhanna er orðin hrædd um afdrif ríkisstjórnarinnar og hún mun ekki sjálf verða í framboði til Alþingis oftar.

Hún vill láta minnast sín, sem manneskjunnar, sem bað alla afsökunar á öllu mögulegu.

 


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningi við hvað?

Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur og formaður VG, sem nú er að láta rassskella sig í Istanbul, komst á milli svipuhögga í símann, til þess að grátbiðja félaga sína í VG, að þegja um ósættið og klofninginn innan VG og ríkisstjórnarinnar og gera hlé á atinu þangað til hann kæmi heim, pakkaður í sáraumbúðir.

Eftir áminningu til félaganna um að þeir hafi lofað að styðja ríkisstjórnina áfram, segir hann:  "Í öðru lagi var alveg skýrt að það var ákveðið að halda áfram að láta á það reyna hvort hægt væri að lenda þessu Icesave-máli, að sjálfsögðu með það leiðarljósi að svo kæmi það til þingflokksins og skoðað yrði hverju tækist að ná fram. Það var samstaða um það hvað út af stæði og á hverju þyrftu að fást lagfæringar."

Þetta eru merkilegar yfirlýsingar, í fyrsta lagi að það skyldi skoðað í þingflokknum eftirá, hverju tækist að ná fram, þar sem Ögmundur var rekinn úr ríkisstjórninni, einmitt fyrir að vilja ekki gefa fyrirframsamþykki við kröfum þrælahaldaranna, en Jóhanna, meintur forsætisráðherra, krafðist fyrirfram samþykkis allra ráðherra og þingflokka við væntanlegri uppgjöf fyrir þrælapískurunum.

Í öðru lagi vaknar spurnin við síðustu setninguna, en þar segir að samstaða hafi verið um það, hvað út af stæði og hvaða lagfæringar þyrftu að fara fram á uppgjafaskilmálunum.  Fram að þessu hefur Steingrímur alltaf sagt að Íslendingum bæri að greiða þessa skuld gamla Landsbankans og samningarnir, sem um það hefðu verið gerðir, væru þeir hagstæðustu sem hugsast gæti fyrir Ísland.

Hverjir eru núna að fara fram á lagfæringar?  Eru það Bretar og Hollendingar?  Hvaða lagfæringar?  Í þágu hverra eiga þær lagfæringar að vera?  Skyldi það vera í þágur þrælahöfðingjanna?

Vonandi fást svör við þessu strax og Steingrímur kemur til landsins og áður en hann fer að reyna að forða klofningi VG.


mbl.is Hétu öll stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýr við blaðinu - of seint

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, hafa haldið því staðfastlega fram allan sinn ríkisstjórnartíma, að Íslendingum bæri að greiða Icesave skuld einkabankans Landsbanka, þeim bæri að "standa við skuldbindingar sínar" við Breta og Hollendinga.  Fyrir þessu hafa þau talað og barist með kjafti og klóm til þessa og sagt þrælasamninginn, sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, undirrituðu í skjóli nætur, vera sá besti sem hægt væri að ná, enda Íslendingum mjög hagstæður.

Nú kemur Jóhanna fram í breskum fjölmiðli og gagnrýnir Brown, forsætisráðherra Bretlands og trúbróður sinn, fyrir hryðjuverkalögin og segir þar og í stefnuræðu sinni, að ósanngjarnt sé, að Íslendingar séu látnir greiða fyrir gallað regluverk ESB.  Þetta er alger viðsnúningur af hennar hálfu, nú þegar ár er liðið frá hruninu og setningu hryðjuverkalaganna.

Þessi viðsnúningur í málinu, akkúrat núna, er engin tilviljun.  Jóhanna veit, að með því að falla frá fyrirvörum Alþingis við þrælasamninginn, mun ríkisstjórnin springa og eins er hún loksins farin að viðurkenna fyrir sjálfri sér, að þjóðin stendur nánast sem einn maður gegn Samfylkingunni í þessu máli.

Ráðherrarnir eru einnig að vakna upp við það, að með fyrirhuguðu skattabrjálæði sínu, er almenninggur búinn að fá yfir sig nóg af þessari ráðalausu dáðleysisríkisstjórn.

Jóhanna er farin að undirbúa jarðveginn fyrir nýjar kosningar, sem hún reiknar með að verði ekki síðar en í vor.


mbl.is Jóhanna gagnrýnir Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband