Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Harpa er farin ad vekja athygli umheimsins

Ekki tók Horpuna langan tíma ad komast á heimskortid med odrum honnunar og byggingarlistarafrekum, enda ekki nema tvaer vikur sídan húsid var tekid í notkun og strax búin ad fá sín fyrsu althjódlegu verdlaun fyrir arkitektúr.

Í fréttinni segir:  "Er Harpa í hópi með 11 öðrum byggingum í löndum á borð við Indland, Kína, Mexíkó, Brasilíu, Ítalíu, Grikklandi, Kanada, Taívan, Japan og Spáni sem hljóta verðlaunin að þessu sinni."

Thetta er mikil vidurkenning og lyftistong fyrir íslenskan arkitektúr og byggingaridnad og er án vafa adeins fyrsta vidurkenningin af morgum, sem adstandendur hússins og thad sjálft á eftir ad hljóta í framtídinni.

Íslendingar geta og mega vera stoltir af thessu byggingarlistaverki sínu.


mbl.is Harpa hlýtur alþjóðleg verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin og AGS hafa logið að þjóðinni um framtíðarhorfurnar

Viðskiptaráð birtir á vef sínum umsögn um spá AGS um efnahagshorfur hér á landi til ársins 2016 og er það ófagur lestur og reyndar er spá AGS ekki í neinum takti við það sem fulltrúar sjóðsins og ríkisstjórnin hafa áður kynnt fyrir landsmönnum.

M.a. segir Viðskiptaráð: „Litlu breytir ef horft er til „endurreisnaráranna“, þ.e. 2010 til 2013 þá fæst sama niðurstaða eða níunda neðsta sæti. Ef menn vilja teygja sig enn frekar og horfa til 2011 til 2016 þegar öll áhrif og eftirköst kreppunnar ættu að vera komin fram þá er hagvöxtur enn afar veikur og er Ísland þá í 144 sæti af 183 löndum. Hvernig sem horft er á þessar tölur þá er ljóst að batinn er langt frá því að vera viðundandi."

Þetta er skelfileg spá og það er nánast algerlega í höndum ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að hún rætist ekki.  Stjórnin verður að snúa af þeirri braut að berjast með kjafti og klóm gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu, sérstaklega stóriðju, enda mun ekkert koma landinu út úr kreppunni annað en meiri atvinna og aukin verðmætasköpun.

Til þess að koma atvinnuleysinu niður í "eðlilegt" horf þarf hagvöxtur að verða 4-5% árlega næstu árin og það gerist ekki nema með mikilli erlendri fjárfestingu og trú íslenskra fyrirtækja á viðunandi rekstrargrundvöll.

Ríkisstjórninni ber að skapa grundvöllinn fyrir atvinnulífið að starfa á.  Verði hann í lagi mun uppbyggingin hefjast og annars ekki. 

 


mbl.is Horfur einna dekkstar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt kvótaklúður og einelti Samfylkingarinnar

Ríkisstjórnin setti á fót sérstaka nefnd sem hafði það eitt hlutverk að vinna að sáttum um fiskveiðistjórnunarkerfið og skilaði hún af sér "sáttatillögu" í september 2010, eða fyrir um níu mánuðum, sem telst vera fullur meðgöngutími.

Strax eftir að "sáttanefndin" skilaði tillögum sínum blossaði upp mikil ósátt innan og milli stjórnarflokkanna um málið og hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, verið í gíslingu ýmissa stjórnarþingmanna fram á þennan dag og því ekki getað komið frá sér frumvarpi um málið, sem þó var búið að boða að lagt yrði fram í síðasta lagi í febrúarmánuði síðast liðnum.

Á þriðjudaginn mætti Jón loksins á ríkisstjórnarfund með frumvarpsdrög, en þá brá svo við að Samfylkingin trylltist og haft var eftir þingmanni flokksins, að engu líkara væri en að hópur simpansa hefði skrifað það og var Jón gerður afturreka með málið, en fyrirskipað að skila "fullbúnu" frumvarpi á aukafund ríkisstjórnarinnar sem halda átti í gærkvöldi. Vegna stríðsins milli stjórnarflokkanna var þeim fundi aflýst, en málið tekið upp á reglubundnum stjórnarfundi í morgun, en Jón gerður afturreka með það enn á ný.

Nú segir sjávarútvegsráðherrann, valdalausi, að hann geti ekkert sagt um það, hvenær frumvarpið verði lagt fram, en vonandi verði það fyrir þinglok í vor.

Þetta er að verða eitt vandræðalegasta mál ríkisstjórnarinnar frá upphafi og er þó af nægu að taka í klúðurs- og vandræðagangi á þeim bænum.

Samfylkingin lætur ekki deigan síga gegn Jóni Bjarnasyni, enda hennar heitasta ósk að bola honum úr embætti, en fyrir því er auðvitað ekki stuðningur innan stjórnarliðsins og því öllum brögðum beitt til að fá hann til að gefast upp á embættinu og segja því lausu "sjálfviljugum".

Annað eins einelti af hálfu stjórnarflokks gegn ráðherra í ríkisstjórn hefur aldrei fyrr sést í stjórnmálsögu þjóðarinnar.


mbl.is Kvótafrumvörp ekki afgreidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfingin vill enga hreyfingu í efnahagslífið

Um leið og kjarasamningar hafa verið frágengnir með það að markmiði, fyrir utan að bæta kjör launþega, að koma fjárfestingum af stað í þjóðfélaginu, auka atvinnu og minnka atvinnuleysi á sem skemmstum tíma, var alveg viðbúið að ýmsir nöldurseggir hæfu upp raust sína með áskorunum um að samningarnir verði felldir í félögunum, þegar þeir kæmu þar til atkvæðagreiðslu.

Hreyfingin reið á vaðið í þessum efnum á opnum fundi í gærkvöldi og sendi frá sér áskorun til launþega um að fella samningana, þar sem "þeir séu stórvarasamir", án þess að frekari skýring fylgi önnur en sú að þeir bæti ekki að fullu það tjón sem almenningur hafi orðið fyrir á undanförnum árum.

Þessi óábyrga ályktun er vafalaust aðeins fyrirboði þess áróðurs sem senn mun hefjast gegn samþykkt þessara kjarasamninga og ekki gerði forysta ASÍ sér það léttara að tala fyrir samningunum með óábyrgri framkomu sinni í aðdraganda 1. Maí og gaspursins þá um baráttuanda og verkföll, sem sýna skyldu illmennunum í SA hvað það þýddi að leika sér í jó-jó í miðjum kjaraviðræðum.

Gaspur og ruglandaháttur ASÍ-forystunnar mun þyngja róðurinn fyrir hana sjálfa í framhaldinu, þegar kemur að kynningu samninganna og meðmælum með samþykkt þeirra.

Launþegar eru hins vegar upp til hópa ábyrgt fólk, sem mun út frá sínum eigin hagsmunum samþykkja kjarasamningana og ekki hlusta á niðurrifsáróðurinn. 


mbl.is Vilja að launþegar felli samningana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Cal Worthington

Cal Worhington, ellilífeyrisþega, er hér með óskað til hamingju með sína ungu og fallegu eiginkonu, Önnu Mjöll, söngkonu, sem honum tókst að heilla svo hraustlega upp úr skónum að ástin, sem blossaði upp í kjölfarið, endaði með hjónabandi í síðasta mánuði.

Karlinn verður að teljast heppinn með kvonfangið, því eldriborgarar eiga oft erfitt með svefn og nú getur hann sofnað sæll og glaður við undurfagran söng eiginkonunnar.

Ekki er að efa að nú sofnar hann fyrr á kvöldin en áður, þar sem nú þreytist hann fyrr en ella, enda áreiðanlega spilað á spil á heimilinu fram undir kvöldmat og þá er aldeilis notalegt að hafa einkasöngvara til að syngja sig inn í draumalandið.

Sem betur fer þarf Anna samt ekki að sjá alfarið fyrir eiginmanni sínum, þar sem honum mun hafa tekist að leggja sæmilega fjárhæð fyrir til elliáranna og á a.m.k. nóg fyrir jarðarförinni, sem illu heilli gæti verið skammt undan.

Vonandi endist þetta fallega hjónaband sem allra lengst, en það byggist þó alfarið á heilsu ellismellsins.


mbl.is Anna Mjöll giftist forríkum bílasala 9. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástarpungar og faðmlög

Leikritinu dramatíska um kjarasamninga er að ljúka í Karphúsinu og í leikslok fallast aðalleikararnir í faðma, kyssa hver annan á allar kinnar og setjast að lokum að veisluborði, þar sem boðið er upp á rjómavöfflur og ástarpunga.

Leikararnir frá ASÍ léku á afar ósannfærandi hátt síðustu dagana fyrir 1. Maí og þann merka dag, leikþáttinn um hörku sína og aumingjahátt SA og hvernig illmennin í þeim samtökum ætluðu sér að svindla áfram á almúganum, eins og jafnan áður, en ASÍ skyldi sko sýna þeim i tvo heimana með harkalegustu verkföllum sem nokkurn tíma hefðu yfir þessa þjóð dunið.

Strax eftir 1. Maí og án þess að nokkurt hlé yrði gert, eins og þó er venja í leikhúsum, breyttist söguþráður verksins og varð að sannkölluðum gleði- og ástarleik, þar sem leikarar lágu í svo þéttum faðmlögum að siðprúðir áhorfendur gátu ekki annað en gripið fyrir augun, vegna ótta um að siðferði þeirra yrði ofboðið með fleðulátunum.

Nú er tjaldið fallið og það eina sem eftir er að gera, a.m.k. af hálfu ASÍ, er að funda með launþegum og sannfæra þá um að allt sem sagt hafi verið í fyrri hluta leikritsins hafi verið eintómt grín, en lokakaflinn hafi hins vegar falið í sér stórkostlega lýsingu á hetjudáðum og hugrekki fulltrúa lýðsins, sem brotið hafi mótstöðu illvirkjanna algerlega á bak aftur.

Fyrir áhorfendur var þetta leikrit leiðileg, fyrirsjáanleg og margendurtekin tugga og algerlega ótrúverðug, þar að auki.


mbl.is Vöfflur og ástarpungar á borð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin Harpa

Dagurinn í dag er risastór í lista- og menningarsögu þjóðarinnar, en í kvöld eru opnunartónleikar í Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu og mun Sinfóníuhljómsveit Íslands ríða á vaðið með tónleikum undir stjórn Vladimirs Azkenasys og fyrsta tónvekið sem leikið verður er nýtt verk, Velkomin Harpa, eftir Þorkel Sigurbjörnsson.

Húsið er glæsilegt útlits og í raun heilmikið hönnunar- og byggingarafrek, enda hefur það verið dýrt í byggingu, en á móti kemur að húsið mun bera hróður landsins, borgarinnar, hönnuða og byggingaraðila á lofti um langan aldur og laða til sín innlenda og erlenda listamenn með alls kyns listviðburði og án vafa mun ráðstefnuhald erlendra aðila stóraukast hér á landi.

Harpa er öllum sem að byggingu hennar hafa komið til mikils sóma og á eftir að efla og styrkja listir og menningu þjóðarinnar og bera hróður sinn og landsins um heiminn allan.

Húsinu og þeim rekstri sem þar mun fara fram er óskað heilla og góðs gengis um alla framtíð.

Til hamingju Íslendingar með Hörpuna. Í dag er gleðidagur í sögu lands og þjóðar.


mbl.is Harpa þá og nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESBaðild kemur ráðherra ekkert við

Margt furðulegt vellur upp úr sumum þingmönnum á Alþingi og hefur t.d. margt skrítið, skondið og fáránlegt oltið upp úr Þráni Bertelssyni, heiðurslaunaþingmanni, og nægir þar að benda á fullyrðingu hans um það, að a.m.k. 5% þjóðarinnar séu fábjánar.

Nú hefur Þráinn gefið það út, bæði á þingflokksfundi VG og opinberlega, að hann styðji ekki Jón Bjarnason lengur sem Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, vegna þess að Jón mun hafa sagt að það væri sitt helsta verk í ráðuneytinu að fylgjast með og gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs í aðlögunarferlinu að ESB.

Í viðtali við DV segir Þráinn um þessa afstöðu Jóns:  Mér finnst það heldur einkennilegur skilningur á starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og teldi heppilegra að hann fengist við eitthvað annað."  Ráðherra ber ekki bara að gæta hagsmuna þeirrar atvinnugreinar, sem undir hans ráðuneyti heyrir, heldur ber honum skylda til að gera sitt til að vernda og efla starfsumhverfi greinarinnar í þágu þjóðarinnar allrar og þjóðarbúsins.  Slík vöktun hefur aldrei verið nauðsynlegri en einmitt núna, þegar Samfylkingin beitir öllum brögðum til að véla þjóðina inn í stórríkið, væntanlega.

Þingmenn eru reyndar enn ábyrgari í þessum efnum en ráðherrarnir, þar sem þingið setur lögin og reglurnar sem ráðherrunum ber að starfa eftir.  Þingmaður sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir um starf sitt, Alþingis og ráðuneytanna ætti skilyrðislaust að fást við eitthvað annað en þingmennsku.

Eftir þessa yfirlýsingu Þráins getur ríkisstjórnin varla átt annan kost en að segja af sér þegar í stað, enda nýtur hún ekki lengur meirihlutastuðnings á Alþingi, sé eitthvert mark takandi á Þráni, sem raunar er ekki líklegt að neinn geri. 


mbl.is Styður ekki Jón sem ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gasprið kokgleypt

Forkólfar ASÍ og ýmissa launþegafélaga fóru mikinn í 1. Maí-ræðum sínum og ýmsum ummælum síðustu vikuna þar á undan og töluðu digurbarklega um að nú væri þeir búnir að fá nóg af þvermóðsku SA og vegna hennar kæmi ekki til greina lengur að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára, jafnvel þó þeir hefðu sjálfir verið búnir að samþykkja slík samningsdrög þann 15. apríl s.l.

Nokkrum sinnum var skrifað um þennan fýlulega leikþátt ASÍ-forystunnar og því bæði spáð og krafist, að strax eftir hátíðarræðurnar yrðu þær kokgleyptar og strax að helginni lokinni yrði gengið frá samningum, enda væri allt annað hreint rugl og ábyrgðarleysi.

Nú er að koma í ljós að gasprararnir eru byrjaðir að éta ofan í sig stóryrðin og munu væntanlega ljúka þeirri ólystugu máltíð í nótt.

Vonandi mun hún ekki standa í þeim, þannig að veruleg andnauð hljótist af.


mbl.is Stefnt að samningi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar skyldi vera kvartað mest?

Samkvæmt nýbirtum lista yfir stöðu mæðra í heiminum er Ísland í þriðja efsta sæti næst á eftir Norgegi og Ástralíu. Í fréttinni segir þetta um röð ríkjanna, þar sem mæður hafa það best og verst:

"Samkvæmt lista Save the Children eru staða mæðra best í eftirtöldum ríkjum: Noregi, Ástralíu, Íslandi, Svíþjóð, Danmörku, Nýja-Sjálandi, Finnlandi; Belgíu, Hollandi og Frakklandi.   Vert er hún í Miðafríkulýðveldinu, Súdan, Malí, Eritreku, Lýðveldinu Kongó, Tsjad, Jemen, Gíneu-Bissau, Níger og Afganistan."

Fróðlegt hefði verið að samantektinni hefði fylgt listi yfir þau lönd þar sem mest er kvartað undan aðbúnaði og kjörum mæðra í heiminum.

Ætli Íslendingar eigi ekki heimsmet í því, eins og svo mörgu öðru? 


mbl.is Gott að vera móðir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband